Vaxtarsprotar

lindaFréttir

Nýtt þróunarverkefni til að efla atvinnulíf í sveitum

 

 

Impra nýsköpunarmiðstöð og Framleiðnisjóður landbúnaðarins, í samvinnu við Búnaðarsamband Suðurlands og Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, munu í næstu viku ýta úr vör nýju þróunarverkefni. Verkefnið, sem nefnt er Vaxtarsprotar, hefur það að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum.

 

Grundvöllur verkefnisins

Með verkefninu vilja aðstandendur verkefnisins hvetja fólk til að koma auga á atvinnutækifæri í heimabyggð. Þátttakendum í verkefninu stendur til boða margvíslegur stuðningur til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.  Þátttaka í verkefninu verður án endurgjalds.  Lykilspurningar sem þátttakendur í verkefninu munu leita svara við eru m.a:  Eru ónýtt atvinnutækifæri í næsta nágrenni?  Hvað get ég gert til að auka tekjur mínar og/eða bæta atvinnumöguleika mína með eigin atvinnurekstri? Hvernig á ég að fara að því og hvað mun ráða úrslitum um árangur? Verkefnið er opið öllum íbúum í sveit á Suðurlandi, óháð eðli viðskiptahugmynda, atvinnugreinum sem viðskiptahugmyndir beinast að, eða reynslu þátttakenda á sviði atvinnurekstrar.

 

Margs konar stuðningur í boði

Verkefnið byggir á ákveðnu ferli sem í hnotskurn má lýsa á eftirfarandi hátt:

1.   Hvatning og kynning á þeim möguleikum sem í verkefninu felast

2.   Aðstoð við hugmyndavinnu

3.   Fræðsla og handleiðsla við undirbúning viðskiptahugmynda (bæði á námskeiðaformi og einstaklingsmiðuð fræðsla)

4.   Fjárstyrkur til undirbúningsvinnu

5.   Fjárstyrkur til framkvæmda

6.   Eftirfylgni og áframhaldandi handleiðsla

Þátttakendur njóta handleiðslu ráðgjafa Impru nýsköpunarmiðstöðvar á verkefnistímabilinu en slík þjónusta er hluti af reglulegri starfsemi Impru og er án endurgjalds. Einnig munu ráðunautar og atvinnuráðgjafar í einhverjum tilfellum koma að verkefnum þátttakenda.

 

Upphaf verkefnisins

Verkefnið hefst með kynningar- og hvatningarfundum. Haldnir verða tveir fundir á Suðurlandi þar sem í boði verða áhugaverð erindi sem vakið geta fólk til umhugsunar um umhverfi sitt og þau tækifæri sem kunna að vera fyrir hendi. Á fundunum verður verkefnið sjálft einnig kynnt.  Fyrirlesarar verða:

  • Elín Aradóttir, verkefnisstjóri hjá Impru nýsköpunarmiðstöð, kynnir verkefnið Vaxtarsprota.
  • Jóhannes Kristjánsson, ferðaþjónustubóndi á Höfðabrekku í Mýrdal, segir frá reynslu sinni og gefur góð ráð.
  • Andri Snær Magnason rithöfundur flytur erindi undir titlinum Hugmyndir um hin nýju hlunnindi sveitanna.

 

Kynningarfundirnir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

 

·         Félagsheimilinu Þingborg Árnessýslu, þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 20:30.

·         Veitingaskálanum Hlíðarenda Hvolsvelli, fimmtudaginn 1. febrúar 2007, kl. 20:30.

 

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Elín Aradóttir, verkefnisstjóri hjá Impru nýsköpunarmiðstöð,

í síma 460 7970 eða í gegnum tölvupóst (elina@iti.is).