Vorboðarnir gera vart við sig

lindaFréttir

Hvað svo sem öllum ókomnum hretum kann að líða þá leikur enginn vafi á því að vorið er rétt handan við hornið.  Ótvíræðir vorboðar setja svip sinn á Grímsnesið nú þegar sumardagurinn fyrsti nálgast.

Árni Kristinn á Seli heyrði í lóunni á miðvikudaginn var og bar tíðindin hróðugur í skólann enda mikill áhugamaður um náttúruna drengurinn sá.  Hann veit sem er að fuglinn sá er ótvíræður vorboði og fagnaði hann því komunni með bekkjarfélögum sínum í 5. og 6. árgangi Grunnskólans Ljósuborgar.

Nú um helgina voru mörg farartæki á ferð með kerru í eftirdragi fulla af afrakstri fyrstu vorhreingerningarinnar í garðinum þetta árið.  Fyrir vikið var nokkuð um að vera í kringum gámana í sveitarfélaginu. 

Víða mátti sjá íslenska fánann blakta við bústaði í dag og ljóst að margir nýttu sér gott veður um helgina til þess að njóta lífsins við fuglasöng farfuglanna sem líkt og lóan eru nú óðum að gera vart við sig.

Mannlífið á Borgarsvæðinu var líka líflegt í dag;  aðsóknin var góð í sundlaugina um helgina og krakkarnir á Borgarhólnum léku sér úti daglangt því fáir fagna vorkomunni eins innilega og krakkarnir. 

Já það er eins og allt lifni við með hækkandi sól og nokkrum gráðum í plús á mælinum. 

Við hér á gogg.is hvetjum gesti til að aka varlega og minnast þess að það er 70 km hámarkshraði við Borg.

IE