Fara í efni

Sveitarstjórn

538. fundur 19. desember 2022 kl. 09:00 - 12:00 Fjarfundur
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir Sveitarstjóri


Fundargerð.
538. fundur sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað, mánudaginn 19. desember 2022 kl. 9:00.


Fundinn sátu:
Ása Valdís Árnadóttir
Björn Kristinn Pálmarsson
Dagný Davíðsdóttir
Ragnheiður Eggertsdóttir
Smári Bergmann Kolbeinsson
Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri

Oddviti leitar afbrigða.
Samþykkt samhljóða.
a) Fundargerð 316. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, 12. Desember 2022.
1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 4. fundar framkvæmda- og veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 28. nóvember 2022.
Mál nr. 4 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 4. fundar framkvæmda- og veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps sem haldinn var 28. nóvember 2022.
Mál nr. 4, Bundið slitlag á heimreiðar.
Fyrir liggja nokkrar beiðnir um lagningu bundins slitlags á heimreiðar. Á árinu 2022 hafði verið gert ráð fyrir greiðsluþátttöku við lagningu bundins slitlags á heimreiðarnar að Snæfoksstöðum og Kiðjabergi en ekki náðist að fara í þau verk.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gert verði ráð fyrir greiðsluþátttöku við lagningu bundins slitlags á heimreiðarnar að Snæfoksstöðum og Kiðjabergi á árinu 2023. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að gert verði ráð fyrir greiðsluþátttöku við heimreiðina að Ormsstöðum/Ártanga á árinu 2023 og heimreiðarnar að Stóra-Hálsi og Bústjórabyggð á árinu 2024.
b) Fundargerð 2. fundar atvinnu- og menningarnefndar Grímsnes og Grafningshrepps. 7. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
c) Fundargerð 3. fundar atvinnu- og menningarnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 7. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
d) Fundargerð 4. fundar atvinnu- og menningarnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 5. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
e) Fundargerð 1. fundar lýðheilsu- og æskulýðsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 13. september 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
f) Fundargerð 2. fundar lýðheilsu- og æskulýðsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 4. október 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
g) Fundargerð 3. fundar lýðheilsu- og æskulýðsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 8. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
h) Fundargerð 3. fundar loftslags- og umhverfisnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 1. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
i) Fundargerð 4. fundar loftslags- og umhverfisnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 6. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
j) Fundargerð 1. fundar samráðshóps um málefni aldraðra í Grímsnes- og Grafningshreppi, 9. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
k) Fundargerð 35. fundar fjallskilanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 12. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
l) Fundargerð 23. fundar ungmennaráðs Grímsnes- og Grafningshrepps, 12. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
m) Fundargerð 24. fundar ungmennaráðs Grímsnes- og Grafningshrepps, 21. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
n) Fundargerð 4. fundar skólanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 6. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
o) Fundargerð 251. fundar skipulagsnefndar UTU, 14. desember 2022.
Mál nr. 17, 18, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26 og 35 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 251. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 14. desember 2022.
Mál nr. 17, Öndverðarnes 2 lóð (Laxabakki) L170095; Safn, ferða- og þjónustuhús; Deiliskipulag 2107038.
Fyrir liggur tillaga að deiliskipulagi Laxabakki (áður Öndverðarnes 2 lóð) L170095 eftir auglýsingu. Málið var samþykkt til gildistöku á fundi sveitarstjórnar þann 19.1.2022. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining byggingarreits og byggingarheimilda þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir uppbygginu þjónustu- og aðstöðuhúss sem ætlað er að þjóna þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er á lóðinni. Athugasemdir bárust við gildistöku deiliskipulagsins frá Skipulagsstofnun og eru þær athugasemdir ásamt uppfærðum gögnum fyrirliggjandi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 18. Lyngborgir 8 L219753; Fyrirspurn - 2212015.
Lögð er fram fyrirspurn frá Brynju Traustadóttur er varðar hestahald í frístundabyggð að Lyngborgum.
Sveitarstjórn vísar í skilmála nýs aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps er varðar búfjárhald innan frístundabyggðar en þar kemur fram undir almennum skilmálum að búfjárhald sé ekki heimilað innan frístundabyggðar. Gildandi deiliskipulag frístundabyggðar að Lyngborgum tekur ekki á heimildum vegna búfjárhalds en þar segir í skilmálum að óheimilt sé að girða hverja lóð fyrir sig af og að svæðið skuli afgirt með einni heildargirðingu því má vera ljóst að ekki er heimild fyrir búfjárhaldi innan svæðisins.
Mál nr. 19, Neðan-Sogsvegar 14 L169341; Fyrirspurn - 2211075.
Lögð er fram fyrirspurn frá Páli Gunnlaugssyni er varðar breytingu á deiliskipulagi Norðurkots. Í breytingunni fælist að heimildir er varðar hámarksstærð aukahúsa á lóð verði felldar út úr skipulagi.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir ekki athugasemd við að lögð verði fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi sem tekur til heimilda er varðar aukahús á lóð í takt við heimildir nýs aðalskipulags sveitarfélagsins.
Mál nr. 20, Farbraut 26 L169581; Fyrirspurn - 2211074.
Lögð er fram fyrirspurn frá Bergi Haukssyni er varðar heimildir deiliskipulags vegna áætlaðra framkvæmda innan lóðar Farbrautar 26.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps mælist til þess að lóðarhafi láti vinna óverulega breytingu á uppdrætti skipulagsins þar sem heimild til að skipta lóðinni upp í tvær lóðir verði felld út og heildarbyggingarreitur lóðarinnar verði skilgreindur í takt við skráningu lóðarinnar.
Mál nr. 21, Hallkelshólar lóð 88 (L202621); umsókn um byggingarheimild; sumarbústaður – 2211048.
Fyrir liggur umsókn Guðjóns Þ. Sigfússonar fyrir hönd Almennu Múrþjónustunar ehf., móttekin 17.11.2022, um byggingarheimild fyrir 63,9 m2 sumarbústað á sumarbústaðalandinu Hallkelshólar lóð 88 L202621 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar verði málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Mál nr. 22, Hraunkot; Fjölgun lóða og breytt stærð húsa; Deiliskipulagsbreyting – 2205021.
Lögð er fram tillaga deiliskipulags frá Sjómannadagsráði er varðar deiliskipulag frístundasvæðis í Hraunkoti eftir kynningu. Málið var kynnt sem breyting á deiliskipulagi. Eftir kynningu var tekin ákvörðun um að leggja fram tillögu sem tekur til heildarendurskoðunar á deiliskipulagi svæðisins. Við gildistöku nýs deiliskipulags fellur núverandi skipulag svæðisins úr gildi. Í breytingunni felst meðal annars fjölgun lóða. Stærðum aðalhúss og geymslu- og gestahúsa er breytt og þau stækkuð. Skipulagssvæðin eru tvö í dag, A og B, en verða sameinuð í eitt skipulagssvæði. Umsagnir og athugasemdir bárust á kynningartíma málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum og samantekt á viðbrögðum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur fyrir gerð deiliskipulagstillögunnar liggja fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins. Brugðist hefur verið við athugasemdum sem bárust vegna kynningar málsins með fullnægjandi hætti innan framlagðra gagna. Þeim sem athugasemdir gerðu við kynningu málsins verði send uppfærð gögn til yfirferðar við auglýsingu.
Mál nr. 23. Úlfljótsvatn L170830; Frístundabyggð; Skilgreining lóða og byggingarreita; Heildarendurskoðun deiliskipulags – 2202007
Lögð er fram deiliskipulagstillaga sem tekur til frístundabyggðar við Úlfljótsvatn L170830 eftir auglýsingu. Í dag er í gildi deiliskipulagsuppdráttur, deiliskipulag frístundabyggðar við Úlfljótsvatn, dagsettur 16.6.1993. Í því skipulagi var gert ráð fyrir alls 26 húsum, 25 sumarhúsum og svo Úlfljótsskála sem áður var þjónustumiðstöð. Við gildistöku þessa skipulags fellur úr gildi eldra skipulag og uppdrættir. Í nýrri skipulagstillögu eru 26 frístundahús og svo Úlfljótsskáli eða samtals 27 byggingar. Húsum fjölgar því aðeins um eitt en heimilað byggingarmagn innan svæðisins eykst í takt við uppfærðar byggingarheimildir. Athugasemdir og umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagstillögunnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum og samantekt andsvara.
Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagstillagan verði auglýst á nýjan leik vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á gögnunum eftir auglýsingu. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 líkt og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Uppfærð gögn verði sérstaklega send þeim aðilum sem athugasemdir gerðu við skipulagstillöguna.
Mál nr. 24, Bíldsfell III L170818; Deiliskipulag - 2204008.
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til Bíldsfells III eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining 5 lóða og byggingarreita þar sem m.a. er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsa, gestahúsa og útihúsa. Umsagnir bárust á kynningartíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess ásamt fornleifaskráningu og uppfærðum skipulagsgögnum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Brugðist hefur verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Ása Valdís Árnadóttir vék af fundi undir þessum lið.
Mál nr. 25. Nesjar; Illagil 17 L209154 og Illagil 19 L209155; Breytt stærð lóða; Deiliskipulagsbreyting – 2212051.
Lögð er fram umsókn frá Ágústi Sverri Egilssyni er varðar breytingu á deiliskipulagi vegna lóða Illagils 17 og 19. Í breytingunni felst breytt lega lóðarmarka og byggingarreita.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagðar breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða.
Mál nr. 26, Lyngdalur L168232; Nytjaskógrækt; Framkvæmdaleyfi – 2212054.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörð Lyngdals L168232. Í framkvæmdinni felst skógrækt á um 42 ha svæði í takt við framlagða umsókn.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Málið verði grenndarkynnt eigendum aðliggjandi jarða en telur að skilyrðum um grenndarkynningu gagnvart Björk I sé fullnægt.
Mál nr. 35., Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 22 – 175 – 2212001F.
Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 22-175 lögð fram til kynningar.
p) Fundargerð 223. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 2. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
q) Fundargerð aðalfundar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs., 28. október 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
r) Fundargerð 6. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga, 8. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
s) Fundargerð 588. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, 26. október 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
t) Fundargerð 590. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, 2. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
u) Fundargerð aðalfundar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, 27.-28. október 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
v) Fundargerð 3. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga, 6. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
2. Bókun sveitarstjórnar um samstarfsverkefni og byggðasamlög vegna fjárhagsáætlunar fyrir árin 2023-2026.
Með breytingu sem gerð var á reglugerð nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga á árinu 2021, þurfa sveitarfélög nú að færa í samantekin reikningsskil sín, sem og fjárhagsáætlanir, hlutdeild sína í byggðasamlögum, sameignarfélögum, sameignarfyrirtækjum og öðrum félögum með ótakmarkaðri ábyrgð.
Í tilviki Grímsnes- og Grafningshrepps á þetta við um eftirtalin samrekstrarverkefni:
• Bergrisinn bs.
• Brunavarnir Árnessýslu
• Héraðsnefnd Árnesinga bs.
• Byggðasafn Árnesinga
• Listasafn Árnesinga
• Héraðsskjalasafn Árnesinga
• Tónlistarskóli Árnesinga
• Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs.
• Umhverfis- og Tæknisvið uppsveita bs.
• Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs.
Áætlanir framangreindra rekstrareininga fyrir árin 2023 til 2026 um efnahag og sjóðsstreymi liggja ekki fyrir og því hafa áhrif þeirra ekki verið færð í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þegar samþykktar fjárhagsáætlanir framangreindra rekstrareininga liggja fyrir á viðeigandi formi er fyrirhugað að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2023 til 2026.
Framlög til samrekstrareininga eru meðtalin í rekstraráætlun sveitarfélags þó svo að viðkomandi eining (hlutdeild) sé ekki innifalin í fjárhagsáætluninni.
3. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Fyrir liggur bréf frá Karli Björnssyni f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 16. desember 2022. Í bréfinu er farið yfir samkomulag um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk milli þriggja ráðuneyta og sambandsins.
Í bréfinu segir: „Hámarksútsvar sveitarfélaga, sem ákveðið er í 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sem er nú 14,52%, skal hækkað um 0,22% samhliða lækkun á tekjuskatts um samsvarandi hlutfall í báðum skattþrepum.
Gert er ráð fyrir að hækkun hámarksútsvars skv. 2. mgr. renni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hlutfall útsvarstekna vegna málefna fatlaðs fólk sem fer í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga skv. 2. tölul. c‐lið 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga er nú 0,99% og skal hlutfallið því hækka um 0,22% stig samhliða hækkun hámarksútsvars í 1,21%.
Breytingar á hámarksútsvari sveitarfélaga taka gildi fyrir árið 2023 og sveitarfélögum verður heimilað að ákvarða útsvar vegna ársins 2023 eigi síðar en 30. desember 2022 og tilkynna það fjármálaráðuneytinu eigi síðar en þann dag, sbr. 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.“
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir samhljóða að hækka álagningu útsvars sem þessu nemur og verður álagning útsvars fyrir árið 2023 því 12,66%.
4. Viðauki við fjárhagsáætlun 2022.
Fyrir liggur útfærsla á viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2022. Um er að ræða lækkun á heildarfjárfestingu ársins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi viðauka og felur sveitarstjóra að tilkynna hann til viðeigandi aðila.
5. Opnunartími skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps milli jóla- og nýárs.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að opnunartími skrifstofu sveitarfélagsins 27. – 30. desember 2022 verði frá klukkan 10-12.
6. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Lögð fram til síðari umræðu drög að breytingum á samþykktum um meðhöndlun úrgangs í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi samþykkt.
7. Klausturhólar L168258; Skilgreining staðfanga.
Skipulagsfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita óskar eftir staðfestingu sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps vegna tillagna Þórleifu Hoffman Gunnardóttur er varðar ný staðföng innan jarðarinnar Klausturhóla L168258. Skilgreining nýrra lóða innan svæðisins byggir á gildandi deiliskipulag sem tók gildi með birtingu í B-deild stjórnartíðinda þann 23.11.2022. Staðföng lóða eru ekki tilgreind með fullnægjandi hætti innan gildandi deiliskipulag og eru því eftirfarandi tillögur að staðföngum lagðar fram til samþykktar í sveitarstjórn.
Lóð A fái staðfangið : Klausturhóll
Lóð D fái staðfangið : Kothóll
Lóð E fái staðfangið : Rauðhóll
Lóð F fái staðfangið : Kerlingarhóll
Staðföngin vísa til kennileita innan jarðarinnar. Aðrar lóðir innan deiliskipulagsins eru með staðfest staðföng.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir ekki athugasemdir við framlögð staðföng lóða og mælist til þess við skipulagsfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita að skráning þeirra verði í takt við framlagða beiðni.
8. Bréf frá Þjóðskrá Íslands þar sem kynnt er óbreytt fasteignamat sumarbústaðar við Finnheiðarveg 15 fyrir 2023.
Lagt fram til kynningar bréf frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun dagsett 1. desember 2022 þar sem kynntur er úrskurður þess efnis að fasteignamat Finnheiðarvegar 15 í Grímsnes- og Grafningshreppi skuli standa óbreytt fyrir 2023.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að óska eftir rökstuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir óbreyttu fasteignamati.
9. Samningur um rekstur umdæmisráðs landsbyggðarinnar.
Fyrir liggja drög að samningi umdæmisráðs barnaverndar á landsvísu og verklagsreglur um framkvæmd umdæmisráðs.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka þátt í umdæmisráði barnaverndar á landsvísu og felur sveitarstjóra að undirrita fyrirliggjandi samning.
10. Bréf frá mennta- og barnamálaráðuneytinu um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Lagt fram til kynningar bréf frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, dagsett 13. desember 2022 varðandi breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002.
11. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 324/2022. „Drög að reglugerð um meðhöndlun úrgangs“.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fagnar því að í drögum að reglugerð um meðhöndlun úrgangs sé tekið fram að nota skuli samræmdar merkingar fyrir úrgangstegundir. Sveitarstjórnin telur að samræmdar merkingar muni að öllum líkindum skila sér í betri flokkun um land allt, því notendur muni þá þekkja betur litina og merkingarnar þrátt fyrir að farið sé á milli sveitarfélaga.
Í drögunum segir í grein 10 um töluleg markmið og viðmiðanir:
„Endurvinnsla heimilisúrgangs skal að lágmarki vera 50%. Þá skal endurvinnsla heimilisúrgangs að lágmarki vera 55% miðað við þyngd árið 2025, að lágmarki 60% árið 2030 og að lágmarki 65% árið 2035. Við útreikning á hlutfalli endurvinnslu skal telja með úrgang sem fór til undirbúnings fyrir endurnotkun.“
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps leggur til eftirfarandi breytingu á málsgreininni:
„Endurvinnsla heimilisúrgangs frá heimilum/íbúðarhúsnæði skal að lágmarki vera 55% miðað við þyngd árið 2025, að lágmarki 60% árið 2030 og að lágmarki 65% árið 2035. Við útreikning á hlutfalli endurvinnslu skal telja með úrgang sem fór til undirbúnings fyrir endurnotkun.“
Núverandi málsgrein tekur ekki tillit til þeirra sveitarfélaga þar sem frístundahús eru stór hluti af fasteignum. Taka verður tillit til þess að notkun slíkra húsa er ólík notkun íbúðarhúsa, og er þar af leiðandi hætt við því að erfiðara verði að uppfylla töluleg markmið. Rannsóknir sýna að flokkun er best ef hún er innan lóðar viðkomandi fasteignar, en almennt er ekki boðið upp á slíka þjónustu í frístundahúsahverfum. Þess í stað er stuðst við grenndarstöðvar eða gámasvæði, sem hafa hingað til skilað lakari flokkun heldur en flokkun innan lóðar.
Sveitarstjórn óskar eftir skýringum á því hvernig eigi að fylgja eftir öðrum tölulegum viðmiðum í 10. grein? Til dæmis hvernig á að fylgjast með því hvað er urðað og hvar?
12. Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 229/2022, „Grænbók um sveitarstjórnarmál“.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fagnar því að verið sé að taka saman upplýsingar um stöðu íslenskra sveitarfélaga og farið sé í samstillingu á stefnumótun ríkis og sveitarfélaga með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt telur sveitarstjórn jákvætt að í innviðaráðuneytinu sé lögð rík áhersla á samhæfingu stefna og áætlana og að stefnur í málaflokkum ráðuneytisins verði fimm; byggðaáætlun, samgönguáætlun, landsskipulagsstefna, húsnæðisstefna og stefna í sveitarstjórnarmálum. Sveitarstjórn styður þá hugmyndafræði ráðuneytisins að til að ná sem bestum árangri verði stefnurnar settar fram með sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum þannig að málefnin myndi eina heild.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir athugasemd við að í starfshópnum sem skipaður er til að fjalla um málefni allra sveitarfélaga landsins sé enginn fulltrúi sveitarfélaga með undir 4000 íbúa. Sveitarstjórn skorar á ráðherra að bæta fulltrúa frá minni sveitarfélögum í starfshópinn og tryggja þannig að öll sjónarmið komist að við þessa mikilvægu stefnumótun.
Í grænbók um sveitarstjórnarmál segir á blaðsíðu 12: „Áfram eru uppi vangaveltur um hvort beita eigi markvissari aðgerðum til að þrýsta á sameiningar fámennari sveitarfélaga í önnur fjölmennari sveitarfélög, ekki síst til að auðvelda sveitarfélögum að standa undir lögbundinni þjónustu, væntingum íbúa og fjárhagslegum skuldbindingum sínum til framtíðar.“
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps vill líkt og áður hvetja innviðaráðuneytið og aðra sem koma málefnum sveitarfélaganna að virða sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga sem og lýðræðislegan rétt íbúa til að ákveða sjálfir hvernig best er að haga sveitarfélagaskipan á hverju svæði. Sameining sveitarfélaga getur verið góður valkostur, en meginatriði er að hún verði á grundvelli ákvörðunar íbúanna sjálfra með lýðræðislegum kosningum.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps lýsir jafnframt yfir áhyggjum við notkun á orðinu „búsetufrelsi“ og telur að skilgreina verði orðið betur.
Í grænbókinni segir á blaðsíðu 9: „Ráðherra hefur ákveðið að áætlanir ráðuneytisins verði samhæfðar í þágu búsetufrelsis. Lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er. Fjölbreytt íbúðasamsetning, nærþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgöngumáta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi“.
Í grænbókinni á blaðsíðu 44 segir: „Búsetufrelsi – áhersla á sambærilega þjónustu og búsetuskilyrði óháð búsetu.
a. Skilgreina viðmið um grunnþjónustu og búsetuskilyrði og óháð búsetu.
b. Stuðla að umbótum í samræmi við niðurstöður samræmdrar könnunar meðal íbúa um þjónustu og búsetuskilyrði.
c. Styðja við þróun þjónustu í takti við lýðfræðilegar breytingar, t..a.m. hækkandi meðalaldur og fjölgun innflytjenda.
d. Leggjast á árarnar með öðrum áætlunum um að ná árangri í að bæta þjónustu og búsetuskilyrði.“
Í ársriti innviðaráðuneytisins fyrir 2021 segir jafnframt: „Öll þau verkefni sem heyra undir innviðaráðuneytið eiga það sameiginlegt að leggja grunninn að búsetufrelsi. Í því felst að þjónusta hins opinbera þarf að vera aðgengileg öllum, hvar sem þeir búa á landinu. Hamingja fólks er ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs. Búsetufrelsi ýtir undir fjölbreytileika byggðanna“.
Sveitarstjórn óskar eftir skýringum á því hvað ráðuneytið eigi við með að fólk geti búið sér heimili þar sem það helst kýs og í því búsetuformi sem því hentar?
Hér þarf að hafa í huga að skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum og sveitarstjórnum. Unnar eru skipulagsáætlanir fyrir hvert sveitarfélag og þar hafa sveitarstjórnir ákveðna landnotkunarflokka sem þær vinna með til ákvörðunar m.a. um búsetu og búsetufyrirkomulag og stýra þannig íbúa- og byggðarþróun í sínum skipulagsáætlunum. Sveitarfélögin fylgja eðlilega fyrirmælum skipulags- og mannvirkjalaga í þeim efnum sem og þeim reglum sem á þeim lögum byggja. Í skipulagslögum er t.d. mælt fyrir um að frístundabyggð og svæði fyrir frístundahús sé byggð sem ekki sé ætluð til fastrar búsetu og tekið er fram í skipulagsreglugerð að föst búseta sé óheimil í frístundabyggðum. Eins segir í lögum um lögheimili að lögheimili skuli skráð í íbúð eða húsi sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Það leiðir því af lögum að föst búseta er óheimil í frístundabyggðum og skráning lögheimilis þar sömuleiðis.
Nauðsynlegt er því fyrir ráðuneytið að skýra nánar hvað það eigi við með fyrrgreindri umfjöllun. Ljóst er að samkvæmt gildandi lögum eru takmarkanir á heimildum til fastrar búsetu og lögheimilis í frístundabyggðum og óumdeilt er að löggjafinn hefur svigrúm og heimild til slíkra takmarkana. Væntanlega er ráðuneytið með umfjöllun sinni að vísa til búsetufrelsis innan sveitarfélaga innan þess ramma sem leiðir af gildandi lögum sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Óskað er eftir að ráðuneytið staðfesti þann skilning svo það valdi ekki neinum vafa.
Ef þetta er ekki afstaða ráðuneytisins er ljóst að umfjöllun þess færi þá gegn gildandi skipulags- og mannvirkjalögum auk þess sem það fæli í sér inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga, sem er einn af hornsteinum sjálfstjórnarréttar þeirra. Fengist slíkt aldrei staðist.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps leggur ríka áherslu á að þegar skoðaðar verða hugmyndir um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að eyða gráum svæðum þurfi að hafa víðtækt samráð og gera miklu betur en hefur hingað til verið gert við yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, sbr. yfirfærsluna á málefnum fatlaðra.
13. Önnur mál.
a) Fundargerð 316. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, 12. desember 2022.
Lögð fram fundargerð 316. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands sem haldinn var 12. desember 2022. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að heimila stjórn að taka þátt í hlutafjáraukningu í Orkugerðinni ehf. og felur Ásu Valdísi Árnadóttur oddvita að vera fulltrúi sveitarfélagsins á félagsfundi sem fram fer 4. janúar 2023.


Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 12:00.

Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?