Fara í efni

Framkvæmda- og veitunefnd

6. fundur 27. ágúst 2020 kl. 09:00 - 12:00 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Nefndarmenn
 • Smári Bergmann Kolbeinsson formaður
 • Björn Kristinn Pálmarsson
 • Þorkell Þorkelsson
 • Ragnar Guðmundsson umsjónarmaður aðveitna
 • Steinar Sigurjónsson starfsmaður áhaldahúss
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ragnar Guðmundsson

1. Erindisbréf og hlutverk veitunefndar.

Farið var yfir hlutverk og stefnu veitunefndar og erindisbréf yfirfarið. Helstu hlutverk nefndarinnar eru:

 • Að fara með verklegar framkvæmdir á sviði umferðar- og samgöngumála í samræmi við fjárhagsáætlun.
 • Að ákveða framkvæmdir  í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar.
 • Að gera viðhaldsáætlanir um endurnýjun og viðhald á sviði gatnamála, göngustíga, reiðstíga og annara umferðarmannvirkja.
 • Að vera með umsjón og ábyrgð á götulýsingu í sveitarfélaginu.
 • Að ákveða þjónustustig árstíðabundinna þjónustuþátta.
 • Að framfylgja lögum um eftirlit með leiksvæðum og leiktækjum á opnum svæðum.
 • Að móta fag- og fjárhagslegt umfang verkefna ungmenna við sumarstörf.
 • Að hafa eftirlit með að rekstur tjaldsvæðis í eigu sveitarfélagsins sé í góðu horfi.
 • Að hafa eftirlit með skipulagi og starfssemi þjónustumiðstöðvar.
 • Að annast stærri viðhaldsverkefni fasteigna sveitarfélagsins sem tilheyra eignasjóði, félagslegum íbúðum og leiguíbúðum.
 • Að hafa eftirlit með því að samþykkt markmið sveitarstjórnar í þeim málaflokkum er snúa að valdsviði nefndarinnar nái fram að ganga.
 • Að hafa, í umboði sveitarstjórnar, eftirlit með undirbúningi verklegra framkvæmda á vegum sveitarfélagsins og fylgjast með framkvæmd verkanna.
 • Að vinna önnur þau verkefni er sveitarstjórn felur nefndinni og falla að starfssviði hennar.
 • Að fara, í umboði sveitarstjórnar, með stjórn hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps skv.reglugerð um hitaveitu nr. 252/2001, vatnsveitu og fráveitu.
 • Að gera áætlanir um öflun og dreifingu á köldu vatni og vinnur að framkvæmd þeirra í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar og gildandi lög á hverjum tíma.
 • Að semja framkvæmda- og fjárhagsáætlanir og leggja fyrir sveitarstjórn.
 • Að semja gjaldskrár og leggja fyrir sveitarstjórn.
 • Að ákveða framkvæmdir í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar.
 • Að vinna samkvæmt samþykktum markmiðum, reglugerðum og öðrum samþykktum um veitustarfsemi og verklegar framkvæmdir og gera tillögur um útfærslu þeirra til sveitarstjórnar.

2.  Framkvæmdir.

Farið yfir helstu framkvæmdir ársins í fjárfestingarsjóði.

a.  Leikskóli – fatahengi

Illa gekk að fá fatahengin afhent á réttum tíma og enn eru nokkrir skápar sem eiga eftir að klárast. Ragnar mun ræða við Fagus um að fá alla skápa í sama stíl.

b.  Leikskólalóð

Verki er lokið. Virðist vera nokkur ánægja með tartan undirlag og lagt til að skoða að bæta við tartani á skólalóðina á næsta ári. Reynsla fæst á endingu efnisins eftir veturinn en kominn er reynsla á kostnað sem nýtist í næstu fjárhagsáætlun.

c.  Gangstígar á Borg

Verk er í fullum gangi. Töluverð vinna var við að finna og framlengja heimtaugar/heimæðarendum sem stóðu stutt undan malbiki við götu. Allir endar hafa verið fundnir, innmældir og framlengdir þannig að vandræðalaust verði að tengja að og fráveitu ásamt rafmagni og síma þegar byggt verður á lóðum. Ákveðið var á verkfundi í lok júlí að auka við magn kantsteina og klára það verk annarstaðar en þar sem malbikað verður. Fjárauki fyrir það hefur verið samþykktur í sveitarstjórn. Upp kom hugmynd um að breyta malbikuðum stíg frá verzlun að sundlaug þannig að hann nýtist betur í fyrirhuguðu deiliskipulagi vestan megin við Skólabraut. Ragnar mun athuga kostnað og vera í sambandi við verktaka. Hestagerði væri þá fjarlægt og fundinn nýr staður í landi sveitarfélagsins sunnan megin við Biskupstungnabraut. Reiðvegur yrði einnig fluttur yfir Biskupstungnabrautina þannig að reiðumferð sé ekki lengur beint á planið við verslunina.

d.  Yndisskógur

Búið er að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir stígagerð í Yndisskóginum. Suðurtak bauð lægst í verðfyrirspurn og áætla þeir að geta hafið vinnu innan skamms. Grenndarkynna þarf fyrirhugað bílastæði norðan við Hólsbraut og mun því það verk ekki vera klárað í ár heldur næsta vor. Farið var yfir samskipti við Umhverfisstofnun og niðurstöðu skipulagsfulltrúa.

e.  Íþróttamiðstöð – Salur

Ekki verður farið í að heilpússa upp gólfið heldur fenginn verktaki í að lakka gólfið og gera viðgerðir þar sem þess er þörf.

f.  Íþróttamiðstöð – Gluggar og gólf

Stefnt er að breyta gluggum við suðurhlið sundlaugar í september. Samhliða því verða gólf í fata- og sturtuklefum flísalögð. Búið er að kaupa flísar og er unnið i því að fá tilboð í verkið.

g.  Iðnaðarlóðir

Verk ekki hafið.

h.  Loftræsikerfi

Fengið var tilboð í að klára loftræsikerfi í Kerhólsskóla. Blikkmenn stefna á að klára verkið í september. Loftræsisamstæðan er tilbúin. Tilboð í verkið er fyrir ofan kostnaðaráætlun í fjárfestingaráætlun.

i.  Tjaldsvæði

Ekki tekið fyrir á fundinum.

j.  Gámasvæði Seyðishólum

Búið er að samþykkja deiliskipulag á svæðinu. Einnig er búið að kaupa inn nýtt gámahús fyrir starfsmann svæðisins eftir verðfyrirspurn Búið er að teikna upp nýtt skipulag á svæðinu þar sem aðkoma færist nær Biskupstungnabraut og því mögulegt að fjölga bílum sem bíða eftir að komast á ramp eða inn á svæðið. Þetta mun vonandi leysa vandamál með raðir eftir Búrfellsvegi. Útakstur verður á öðrum stað en innakstur og hlið sett upp við inn- og útgang. Búið er að kaupa inn girðingarefni, 2 m háa netagirðingu sem mun vera sett upp á mön gegnt Búrfellsvegi. Grenndarstöð mun svo koma við hlið núverandi svæðis og vera aðgengilegt utan opnunartíma.

k.  Skilti merkingar

Búið er að kaupa og staðsetja skilti fyrir sveitarfélagið á sveitarfélagsmörkum. Vegagerðin mun sjá um að setja þau upp með haustinu.

l.  Réttir í Grafningi

Smíði á réttum í Grafningi er í fullum gangi. Gerð var ný vegtenging til að auka öryggi vegfaranda. Reiknað er með að réttir verði notaðar 14. september.

m.  Veggir í Félagsheimili

Búið er að loka yfir göt í vesturvegg félagsheimilis og einangra hann. Vonast er til að þessi aðgerð komi í veg fyrir leka og kuldabrú sem hefur eyðilagt vegginn að innan. Einnig var komið fyrir nýju sjónvarpi á veggnum þannig að kaffistofan nýtist nú sem fundarsalur og hægt er að vera með kynningar og smærri fundi í kaffistofunni.

 Aðrar framkvæmdir sem fara þarf yfir í veitunefnd.

n.  Sorpmál – Útboð

Ákveðið hefur verið að skoða útboð með Bláskógabyggð í sorphirðu. Málið er á fyrstu stigum útfærslu.

o.  Grenndarstöðvar

Steinar kynnti núverandi grenndarstöðvar í sveitarfélaginu og fyrirhugaðar staðsetningar á fleiri grenndarstöðvum. Ljóst er að núverandi heimilissorp gámar verða fjarlægðir með haustinu. Almenn ánægja er með verkefnið og hafa gámaplön haldist að mestu hrein síðan verkefnið hófst.

p.  Verkefni haustsins – Færsla á trjám

Rætt var um að færa aspir við Sundlaug og Borgarbraut gegnt gamla leikskólanum að tjaldsvæði til að auka skjól þar og minnka ónæði af laufum og rótum í sundlaug.

q.  Deiliskipulag á Borg

Nýtt deiliskipulag fyrir Borgarsvæðið er í vinnslu. Gerð verður lóð fyrir dælustöð milli áhaldahúss og Borgarbrautar. Einnig verður parhúsalóðum sunnanmegin í Hólsbraut breytt í einbýlishúsalóðir og lóðum við Hraunbraut verða breytt í par- eða raðhúsalóðir. Í kjölfarið verða byggingarskilmálar skýrari og ítarlegri. Með þessum breytingum er vonast til að lóðirnar verði eftirsóknarverðari fyrir hugsanlega kaupendur.

r.  Stækkun á íþróttamiðstöð

Farið yfir hugmyndir um stækkun á íþróttamiðstöð.

Vatnsveita

Yfirlit yfir helstu framkvæmdir hingað til 2020

a.  Bjarkarlind - staða á framkvæmdum

Ræktunarsambandið mun bora þriðju holuna í september eftir fyrirmælum ÍSOR.

b.  Dælubrunnur við Búrfellsveg

Brunnurinn er pantaður og í framleiðslu, búið að sækja um heimtaug og kaupa dælu og efni.

c.  Tenging við Reykjalund

Verki lokið.

d.  Snæfoksstaðir

Ekki er reiknað með að klára þetta verk þar sem ekki er búið að klára deiliskipulag á svæðinu.

e.  Eftirlitskerfi

Búið er að fá tilboð í eftirlitskerfi frá Samey og Raftákn.

Önnur verk

f.  Bjarkarborgir – vatnslögn

Vatnslögn var bætt við verk til að hægt sé að tengja Bjarkarborgir frá Borg. Lögð var ø110 mm lögn með hitaveitunni.

g.  Endurnýjun í Búrfelli

Endurnýja þarf vatnslagnir í Búrfelli þar sem vart hefur verið við leka. Búið er að taka saman kostnað og lagnaleið. Líklega verður beðið með verkið þar til næsta vor. Lögnin liggur núna undir Búrfellsvegi og þarf því að færast.

h.  Starfsleyfi og innra eftirlit

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur krafist þess að innra eftirlit veitunnar verði klárað. Ragnar sér um það og verður í samskiptum við heilbrigðiseftirlitið. Einnig er ljóst að fleiri sýnatökur verði en áður úr veitunni vegna stækkunar.

i.  Sverun lagna í kerhrauni

Athuga þarf í fjárhagsáætlun næsta árs að svera lagnir í Kerhrauni vegna mikillar uppbyggingar á svæðinu.

j.  Miðlunargeymar í seyðishóla

Verkið er í skoðun. Athuga þarf leyfismál og lagnaleiðir í haust og setja í fjárhagsáætlun. Tankarnir myndu geta jafnað álag á Búrfellsveitu og þar með getur þjónustusvæði stækkað.

k.  Sameiginleg vatnsveita uppsveita í fljótsbotnum

Búið er að funda með uppsveitum um sameiginlega vatnsveitu frá fljótsbotnum. Ragnar mun taka saman gögn frá GOGG og senda á starfshóp.

l.  Mögulegar vatnsveitur í sveitarfélaginu

Leggja þarf vinnu í kostnaðargreiningu á vatnsveitu úr öðrum vatnsbólum í sveitarfélaginu eftir því hvernig gengur að fá vatn í Björk og hvort af sameiginlegri vatnsveitu verður.

m.  Vatnsveita í Grafningi

Hugmyndir eru uppi um vatnsveitu í Grafningi. Ragnar mun skoða málið frekar og athuga kostnað og ræða við landeigendur.

n.  Borhola í Grafningi

Sveitarfélagið á hlut í borholu í Grafningi. Skilmálar fylgja hlutnum og ákveðið hefur verið að selja hlutann.

 

Hitaveita

1.  Endurnýjun í Höskuldslæk

Verki lokið.

2.  Lögn í Bjarkarborgir

Verki miðar vel, stefn á að ljúka verkinu um miðjan september.

3.  Hraðastýringar og stjórnkerfi í Vaðnesi

Reiknað er með að fara í verkið um miðjan September. Hefur tafist vegna anna rafvirkja.

4.  Gamla kerfið í hraunborgum

Efni í verkið er klárt og farið verður í verkið um miðjan september.

5.  Ýmis smáverk

6.  Öflun á heitu vatni – Staða  verks.

Farið yfir hugmyndir um frekari öflun á heitu vatni.

Getum við bætt efni síðunnar?