Fara í efni

Skólastefna

Grímsnes- og Grafningshreppur starfrækir einn sameinaðan leik- og grunnskóla, Kerhólsskóla á Borg, fyrir nemendur frá 12 mánaða aldri og upp í 10. bekk.
Skólastefnu sveitarfélagsins í heild sinni má finna hér til hliðar á síðunni undir ítarefni.

Gildi Kerhólsskóla „Gleði, jákvæðni og virðing“ eru lögð til grundvallar í skólastarfinu.
Í Kerhólsskóla er inngildandi skólastarf, skóli margbreytileikans, og tekur námshvatning mið af þroska hvers einstaklings. Gott samstarf er milli leik- og grunnskóladeildar. Samkennsla árganga, Grænfánastarf, útinám, árshátíðarundirbúningur og nemendaferðir einkenna og setja svip á skólastarfið. Kerhólsskóli tekur þátt í stefnu sveitarfélagsins um heilsueflandi samfélag. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðað nám, umhverfismennt og listsköpun. Í leikskóladeildinni er meðal annars starfað eftir hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæði og læra börn að mestu í gegnum leikinn.
Leikskóladeild Kerhólsskóla er einnar deildar leikskóli með rými fyrir um 35 börn. Leikskóladeildin er opin frá kl. 7:45 - 16:15 alla virka daga, 11 mánuði á ári.
Í grunnskóladeild Kerhólsskóla hefur fjöldi nemenda verið breytilegur milli ára. Frá stofnun skólans hefur verið kennt í samkennslu og teymiskennslu. Samkennslueiningar ráðast af samsetningu nemendahópsins hverju sinni. Oftast er um að ræða samkennslu tveggja til þriggja árganga og er þá jafnan horft til hvers skólastigs fyrir sig.
Skólaakstur er fyrir nemendur sem búa annars staðar í sveitarfélaginu en á Borg. Skóladagurinn hefst klukkan 8:15 og honum lýkur klukkan 14:10 alla daga nema föstudaga, þá daga lýkur kennslu klukkan 11:55. Tvisvar sinnum í viku lýkur kennslu hjá nemendum á yngsta stigi fyrr en hjá nemendum á mið- og unglingastigi. Þá daga fara þeir nemendur í frístund til klukkan 14:10. Kerhólsskóli starfrækir frístund fyrir nemendur í 1. til 4. bekk að loknum skóladegi til klukkan 16:15 alla daga.
Skóladagar eru 180 á skólaárinu og hefst skólahald í lok ágúst og lýkur í byrjun júní. Allt fæði á skólatíma er gjaldfrjálst í bæði leik- og grunnskóladeild og sömuleiðis námsgögn.

Síðast uppfært 23. nóvember 2021
Getum við bætt efni síðunnar?