Útskýringar á álagningarseðli
Á álagningarseðli má finna ýmis gjöld sem geta samanstaðið af eftirfarandi liðum:
- Fasteignaskatti
- Lóðarleigu
- Seyrulosunargjaldi
- Vatnsgjaldi
- Sorphirðugjaldi
- Sorpeyðingargjaldi
Það er misjafnt hvaða gjöld fasteignaeigendur greiða sem tengjast fasteigninni þeirra og fer það alfarið eftir þjónustunni sem þeir kaupa af sveitarfélaginu hvaða liðir eru á álagningarseðli.
Fasteignaskattur er skattur sem lagður er á fasteignir í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og tekur álagningarhlutfall fasteignaskatts mið af nýtingu húsnæðisins. Sé fasteign nýtt til ferðaþjónustu ber að skattleggja eign með fasteignum sem falla undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Þetta er skattur ekki þjónustugjald. Skatturinn er meðal annars notaður til að greiða til Brunavarna Árnessýslu og Almannavarna, skatturinn fer einnig í sameiginleg verkefni sveitarfélaga s.s. söfn, Umhverfis- og tæknisvið þar sem skipulags- og byggingarfulltrúar starfa. Skatturinn fer einnig í samlag um seyru sem sveitarfélagið er í með Uppsveitunum, Flóahrepp og Ásahrepp þar sem seyran úr sveitarfélögunum er unnin sem áburður og nýtt við uppgræðslu í samvinnu við Landgræðslu Ríkisins. Jafnframt fer skatturinn í að halda úti skrifstofu sveitarfélagsins, sundlaug og íþróttamiðstöð.
Vatnsgjald er þjónustugjald sem innheimt er af sveitarfélaginu fyrir kaldavatnsnotkun frá vatnsveitu sveitarfélagsins. Gjaldið á að standa undir rekstri veitnanna.
Sorphirðugjald er þjónustugjald sem þeir sem eru með sorpílát greiða. Samanber grátunna/græntunna/blátunna/brúntunna.
Gjald vegna reksturs gámasvæðis og gjald vegna reksturs grenndarstöðva eru þjónustugjöld sem fasteignaeigendur greiða og skal standa undir rekstri á grenndarstöðvum, gámasvæði og almennri meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu.
Seyrulosunargjald er þjónustugjald sem er rukkað árlega en rotþrær í sveitarfélaginu eru hreinsaðar á þriggja ára fresti. Þetta gjald stendur undir hreinsun á rotþróm og holræsum á þriggja ára fresti.
Heitt vatn er svo innheimt sér og fær sá sem kaupir heitt vatn af sveitarfélaginu reikning ársfjórðungslega.