Jafnréttisáætlun
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 fjalla um jafnrétti kynjanna. Er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum samfélagssviðum.
Jafnrétti felur m.a. í sér að:
• Konur og karlar hafi jöfn áhrif í samfélaginu – Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.
• Efnahagslegt jafnræði sé milli kvenna og karla – Konur og karlar eiga að hafa sömu möguleika til menntunar, launavinnu og fjárhagslegs sjálfstæðis. Vinna skal gegn launamisrétti og annarri mismunum á grundvelli kyns á vinnumarkaði.
• Jafna skiptingu umönnunar- og heimilisstarfa – gera þarf bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Konur og karlar eiga að bera sömu ábyrgð á heimilisstörfum og hafa sömu möguleika á að annast sína nánustu og þiggja umönnun.
• Breyta hefðbundnum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum - Margar af þeim hefðbundnu kynjaímyndum og staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla sem eru ríkjandi í samfélaginu koma í veg fyrir að konur og karlar geti notið hæfileika sinna og atorku til fulls.
Segja má að jafnrétti kynjanna þýði að kynin hafi í samanburði við hvort annað til ráðstöfunar og umráða:
• Jafnmikið af fjármagni og jafnmikil efnahagsleg völd.
• Jafnmikil völd.
• Jafnmikla vinnu á sinni könnu, bæði launaða og ólaunaða.
• Jafnmikinn frítíma.
• Njóti jafnmikillar virðingar.
• Jafngóða heilsugæslu.
• Jafnmikla þekkingu.
• Jafnmikið rými.
• Jafnmikla viðurkenningu.
Jafnrétti snýst þannig um að jafna aðgang að gæðum. Mikilvægt jafnréttismál er að útrýma kynbundnu ofbeldi og klámvæðingu. Jöfn staða kvenna og karla er grundvallaréttur og jöfn þátttaka kvenna og karla í ákvörðunartöku er forsenda lýðræðislegs þjóðfélags.
Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er kveðið á um að sveitarfélög skipi jafnréttisnefndir og geri jafnréttisáætlanir með framkvæmdaáætlun. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fer með jafnréttismál sveitarfélagsins og mun hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára, þar sem m.a. kemur fram hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðum ásamt framkvæmdaáætlun um það hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins.
Hlutverk og skyldur sveitarfélagsins er margþætt og skuldbindur sveitarfélagið sig til að vinna að jafnræði á þremur meginsviðum:
• Grímsnes- og Grafningshreppur sem stjórnvald.
• Grímsnes- og Grafningshreppur sem atvinnurekandi.
• Grímsnes- og Grafningshreppur sem þjónustuveitandi.
Framkvæmd
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps ber ábyrgð á jafnréttisáætlun sveitarfélagsins. Starfsmaður sveitarstjórnar er sveitarstjóri sem skal vera til ráðgjafar í málaflokknum jafnt fyrir starfsmenn sveitarfélagsins og íbúa þess. Jafnréttisáætlun skal kynnt öllum stjórnendum, starfsmönnum sveitarfélagsins og kjörnum fulltrúum.
Jafnréttisáætlunin gildir frá 1. júní 2019 – 1. desember 2023.