Fara í efni

Fasteignaskattur

Fasteignaskattur er skattur sem lagður er á fasteignir í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og tekur álagningarhlutfall fasteignaskatts mið af nýtingu húsnæðisins. Sé fasteign nýtt til ferðaþjónustu ber að skattleggja eign með fasteignum sem falla undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Þetta er skattur ekki þjónustugjald. Skatturinn er meðal annars notaður til að greiða til Brunavarna Árnessýslu og Almannavarna, skatturinn fer einnig í sameiginleg verkefni sveitarfélaga s.s. söfn, Umhverfis- og tæknisvið þar sem skipulags- og byggingarfulltrúar starfa og í samlag um seyru sem sveitarfélagið er í með Uppsveitunum, Flóahrepp og Ásahrepp þar sem seyran úr sveitarfélögunum er unnin sem áburður og nýtt við uppgræðslu í samvinnu við Landgræðslu Ríkisins. Skatturinn fer einnig í það að halda úti skrifstofu sveitarfélagsins, sundlaug og íþróttamiðstöð.

Hvað er fasteignaskattur?
Fasteignaskattur eru skattar sem allir fasteignaeigendur þurfa að greiða. Hann er innheimtur af sveitarfélögum og leggst á allar fasteignir innan sveitarfélagamarka sveitarfélagsins. Fasteignaskattur er reiknaður á fasteignir sem ákveðið hlutfall af fasteignamati þeirra og er misjafnlega hár eftir sveitarfélögum en er þó ávallt innan ákveðins ramma. Sveitarstjórn skal ákveða fyrir lok árs skatthlutfall næsta árs. 

Öllum fasteignum er skipt í nokkra skattflokka fasteignaskatts:

  • · A-flokkur allt að 0,5% (hámark 0,6%)af fasteignamati Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.  

  • · B-flokkur 1,32% af fasteignamati ásamt lóðarréttindum Sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn.  

  • · C-flokkur allt að 1,32% (hámark 1,65%) af fasteignamati ásamt lóðarréttindum Allar aðrar fasteignir, s.s. iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu. 
  • · O-flokkur er undanþeginn fasteignaskatti Kirkjur og bænahús íslensku þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, safnahús að því leyti sem þau eru ekki rekin í ágóðaskyni og hús erlendra ríkja.

Ákvörðun sveitarstjórna um álagningu er byggð á ofangreindum skattflokkum. Einnig er ákvörðun um framlag úr Jöfnunarsjóði byggð á þessum skattflokkum, svo mikilvægt er að þetta sé rétt skráð fyrir allar matseiningar. Sveitarstjórnum er heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt og /eða önnur þjónustugjöld sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sveitarstjórn er skylt að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, t.d. um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.

Verði ágreiningur um gjaldstofn skal vísa honum til úrskurðar [Þjóðskrár Íslands]. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla. 

Fasteignamat samanstendur af húsmati eignar og lóðarhlutamati eignar (lóðarhlutamat er fasteignamat lóðarhluta eignar). Álagningarstofninn er fenginn frá Þjóðskrá Íslands 31. desember ár hvert auk þess sem fasteignaskattur leggst á nýjar lóðir og ný mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðarmótum eftir að þau eru skráð og metin í Fasteignaskrá. Fasteignaskattur fellur niður næstu mánaðamót eftir að mannvirki er afskráð í Þjóðskrá Íslands.

Fjöldi gjalddaga fasteignagjalda:
Fjárhæðir að 25.000 eru með einn gjalddaga 1. maí, 25.001-90.000 eru með 5 gjalddögum með fyrsta gjalddaga 1. mars og síðasta 1. júlí og 90.001 og yfir verði með 8 gjalddögum með fyrsta gjalddaga 1. mars og síðasta 1. október.

Síðast uppfært 21. mars 2023
Getum við bætt efni síðunnar?