Fara í efni

Ásgrímsleiðin.

Ásgrímsleiðin er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Listasafns Árnesinga og Listasafns Íslands. Ásgrímur var fæddur og uppalinn í Flóanum og hafði umhverfi bernskuheimilisins sterk áhrif á hann og listsköpun hans. Ásgrímur var vikapiltur í Húsinu á Eyrarbakka um tíma og þar fékk hann sína fyrstu vatnsliti. Rætur Listasafns Árnesinga má rekja til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur, frænku Ásgríms, og tveggja sona hennar sem færðu Árnesingum sjötíu listaverk eftir helstu listamenn þess tíma. Nítján þessara verka sem Bjarnveig og synir hennar gáfu, eru eftir Ásgrím Jónsson. Ásgrímur ánafnaði Listasafni Íslands verk sín og heimili, Hús Ásgríms er opið almenningi.

Ásgrímsleiðin er í raun margþætt. Upphaf leiðarinnar getur verið í Hveragerði, á Eyrarbakka eða í Reykjavík.

https://listasafnarnesinga.is/hveragerdi/asgrimsleidin/

Gestir leiðarinnar geta valið hvar þeir byrja og henni má jafnvel skipta á tvo daga. Leiðin samanstendur af listasýningunni Hornsteini á Listasafni Árnesinga í Hveragerði, sýningunni Drengurinn, fjöllin og Húsið á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka, þaðan liggur leiðin meðfram ströndinni í austurátt í Gegnum Stokkseyri og upp Gaulverjabæjarveginn. Ásgrímur hvílir í Gaulverjabæjarkirkjugarði, þar er hægt að stoppa og ganga að leiðinu. Þegar haldið er áfram upp veginn þá sést fjallahringurinn vel sem fóstraði sveininn Ásgrím. Frá veginum er hægt að horfa í átt að bænum (eða bæjarstæðinu) sem er nú löngu horfinn en klettarnir sem Ásgrímur taldi vera álfakirkju sjást greinilega. Hús Ásgríms á Bergstaðastræti 74 er varðveitt af Listasafni Íslands og þar er í dag sýning á heimili hans og verkum. Upplagt er að heimsækja Hús Ásgríms áður en Ásgrímsleiðin er farinn eða í kjölfar þess.

Verkefnið er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Getum við bætt efni síðunnar?