Vetrarfrí fjölskyldunnar - Kirkjubæjarklaustur
KIRKJUBÆJARKLAUSTUR - SKAFTÁRHREPPUR
klaustur.is
Skaftárhreppur er hluti af Kötlu jarðvangi, UNESCO jarðvangur sem einkennist af tíðri eldvirkni í bland við jöklaumhverfi. Kirkjubæjarklaustur, í daglegu tali nefnt Klaustur, er miðsvæðis í Skaftárhreppi og þaðan liggja leiðir til allra átta fyrir fjölskylduna á ferðalagi um Suðurland. Á Kirkjubæjarklaustri er stunduð verslun og er þar margvísleg þjónusta við íbúa og ferðamenn. Frá Kirkjubæjarklaustri er stutt í nokkrar þekktustu náttúruperlur á Íslandi eins og Jökulsárlón, Skaftafell, Lakagíga og Landmannalaugar.
Upplýsingamiðstöð, Skaftárstofa, er staðsett í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Þar er kvikmyndin Eldmessan (15 mín) sýnd gestum á því tungumáli sem þeir óska eftir. Mosasýning stendur uppi og margt fleira fróðlegt. Þar er líka skemmtilegur stígur frá Skaftárstofu að sundlauginni. Á stígnum eru þrautir og fróðleikur ætlaður börnum um náttúruna í Vatnajökulsþjóðgarði og er stígurinn kallaður Krakkastígur. Vetraropnun er virka daga frá 9:00 til 15:00.
Söfn/sögustaðir/sýningar
- Í Skaftárstofu býðst gestum að skoða sýninguna "Mosar um mosa frá mosum til mosa" og horfa á heimildarmyndina Eldmessa án endurgjalds en það er stutt en áhrifarík heimildarmynd um Skaftárelda og áhrif þeirra.
Útivist – opin áhugaverð svæði
- Ástarbrautin á Klausturheiði – um 5 km stikuð hringleið.
- Dverghamrar – skammt austan við Foss á Siðu, eru sérkennilegar stuðlabergs klettaborgir. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti.
- Fjaðrárgljúfur – skammt vestan Klausturs er eitt stórbrotnanasta nátturuundur landsins. Fjaðrá fellur þar fram af heiðarbrúninni í hrikalegu og sérkennilegu móbergsgljúfri sem er á náttúruminjaskrá.
- Kirkjugolf – skammt austan Klausturs er sérkennilegur jökul- og brimsofinn stuðlabergsflötur, samansettur af endum lóðréttra blágrýtisstuðla. Kirkjugólfið er friðlýst náttúruvætti.
- Systrastapi – klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra.
Afþreying
- Fjársjóðir úr náttúru Skaftárhrepps: Í torfbænum við Hæðargarðsvatn í nágrenni Kirkjubæjarklausturs eru skúffur fylltar með sjálfbærum fjársjóðum úr náttúru Skaftárhrepps. Hægt er að kaupa sérmerkt glerílát á öllum helstu sölustöðum sveitarfélagsins og setja í það fjársjóði úr skúffunum að eigin vali og hanna þannig sinn eigin minjagrip.
- Ratleikur um Klaustur: Fjölskylduvænn og skemmtilegur ratleikur á Kirkjubæjarklaustri. Hlaðið gjaldfrjálst niður Locatify Smartguide í gegnum App Store eða Google play.
- Snjallleiðsagnir: Upplifðu Skaftáreldana með lifandi snjallleiðsögn. Leiðsögn með 26 stuttum frásögnum um Skaftáreldana, móðuharðindin og afleiðingar þeirra í Skaftárhreppi. Hlaðið gjaldfrjálst niður Locatify Smartguide í gegnum App Store eða Google play.
Sund
- Sundlaugin á Kirkjubæjarklaustri – tilvalinn staður til að koma og æfa í rólegu og þægilegu umhverfi í tækjasalnum, sundlaug, vaðlaug og heitur pottur. Vetraropnun: opið mánudaga - laugardaga frá kl. 11–20 og sunnudaga frá kl. 15-20.