Fara í efni

Sveitarstjórn

424. fundur 24. janúar 2018 kl. 09:00 - 12:15 Stjórnsýsluhúsið Borg
Sveitarstjórn
  • Gunnar Þorgeirsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Hörður Óli Guðmundsson
  • Sigrún Jóna Jónsdóttir
  • Guðmundur Ármann Pétursson
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir

1.    Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. desember 2017.  

Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. desember 2017 liggur frammi á fundinum.

 
2.      Fundargerðir.

a)      Fundargerð 43. fundar atvinnumálanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 8. janúar 2018.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

b)     Fundargerð 67. fundar fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 15. janúar 2018. Fundargerðin lögð fram til kynningar.

c)      Fundargerð 147. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 21. desember 2017.

Mál nr. 5, 6, 7, 8, 23, 24 og 25 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 147. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dags. 21. desember 2017. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 5: 1712018 - Villingavatn lnr 170947 og 170952: Sameining lóða: Kæra til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Fyrir liggur bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál, dags. 21. nóvember 2017 þar sem kynnt er kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að synja um sameiningu tveggja frístundalóða úr landi Villingavatns. Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að senda gögn varðandi málið til úrskurðarnefndarinnar.

Mál nr. 6: 1712006 - Farbraut 16 lnr 169479 og Farbraut 16A lnr 172955: Farbraut 16: Sameining lóða.
Lögð fram að nýju umsókn Maríu Hauksdóttur, dags. 13. desember 2017 um sameiningu á tveimur 2.500 m2 lóðum, Farbraut 16 og 16A. Engin aðkoma er að lóð 16A nema í gegnum lóð 16.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við sameiningu lóðanna þar sem lóðirnar tvær liggja upp að hvor annarri auk þess sem ekki er til staðar aðkoma að lóð 16A, þ.e. lóð sem upphaflega var hluti af lóð með aðkomu af Finnheiðarvegi.

Mál nr. 7: 1709036 - Leyndarholt lnr. 224673: Nýbyggingar: Deiliskipulag.
Fyrir liggur að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að deiliskipulagi sem nær til 7,5 ha spildu úr landi Brjánsstaða sem kallast Leyndarholt. Stofnað hefur verið lögbýli á landinu og samkvæmt deiliskipulagstillögunni er þar gert ráð fyrir byggingu íbúðarhús, hesthúss og skemmu. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Mál nr. 8: 1712024 - Gráholtsbraut 4 lnr 211614: Öndverðarnes: Þakform sumarhúss: Fyrirspurn.
Fyrir liggur fyrirspurn Inga Hlyns Sævarssonar og Guðbjargar Helgu Birgisdóttur, dags. 13. desember 2017 um hvort að heimilt verði að fá samþykkt frístundahús á lóðina Gráholtsbraut 4 í Öndverðarnesi með 2 gráðu þakhalla. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að þakhalli sé á bilinu 14-60 gráður. Sveitarstjórn telur að forsenda útgáfu byggingarleyfis sé að deiliskipulagi svæðisins verði breytt á þann veg að leyfilegur þakhalli verði á bilinu 0-60 gráður. Að mati sveitarstjórnar er slík breyting óveruleg og samþykkir hana samhljóða skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Við skilmála bætist einnig að á húsum sem eru með minni þakhalla en 14 gráður að þá má vegghæð ekki vera hærri.

Mál nr. 23: 1712011 - Vernd og endurheimt votlendis: Álit Sambands íslenskra sveitarfélaga og skipulagsmálanefndar: Til kynningar.
Lagt fram til kynningar bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 4. desember 2017 þar sem tilkynnt er um bókun stjórnar Sambandsins um vernd og endurheimt votlendis. Kemur þar m.a. fram að sveitarstjórnir eru hvattar til að kynna sér þau tækifæri sem kunna að felast í endurheimt votlendis til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika í íslenskri náttúru. Bókun skipulagsnefndar lögð fram til kynningar.

Mál nr. 24: 1712028 - Aðalskipulag Rangárþings Ytra 2016-2028: Umsagnarbeiðni.
Lögð fram til umsagnar tillaga að endurskoðun Aðalskipulags Rangárþings ytra 2016-2028.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við aðalskipulagstillöguna með fyrirvara um að fara þarf yfir að sveitarfélagamörk séu í samræmi við afmörkun markanna í aðalskipulagi aðliggjandi sveitarfélaga. Bókun skipulagsnefndar lögð fram til kynningar.

Mál nr. 25: 1712002F - Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 17- 69.       
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 13. desember 2017.

d)     Fundargerð 148. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 11. janúar 2018.

Mál nr. 1, 18 og 19 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 148. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dags. 11. janúar 2018. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 1: 1708079 - Árvegur 4 lnr 199082, 8 lnr 199084 og 10 lnr 210319: Kringla II: Sameining lóða, stofnun lögbýlis: Deiliskipulagsbreyting.
Fyrir liggur erindi eigenda lóða 1 til 12 við Árveg úr landi Kringlu þar sem óskað er eftir að skipulagi svæðisins verði breytt á þann veg að lóðirnar breytist úr frístundahúslóðum í lögbýlislóðir. Þá er einnig óskað eftir að lóðir nr. 1 og 3 verði sameinaðar og einnig lóðir 4, 8 og 10. Forsenda þessa að breyta megi lóðunum í lögbýli er að bæði aðal- og deiliskipulaginu verði breytt. Ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi er vísað til ákvörðunar sveitarstjórnar. Skipulagsnefnd mælir þó ekki með slíkri breytingu þar sem uppbygging á svæðinu er hafin, óvist að núverandi sumarhús standist kröfur byggingarreglugerðar um íbúðarhús og ólíklegt að vegir innan svæðisins henti til að þjónusta svæðið allt árið um kring og óvissa um veghald.

Sveitarstjórn hafnar því að aðalskipulagi svæðisins verði breytt.

Mál nr. 18: 1801027 - Drög að lagafrumvarpi um lögheimili.
Lagt fram til kynningar frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um lögheimili og aðsetur. Að mati skipulagsnefndar eru ákvæði um að heimila megi skráningu lögheimilis í frístundahúsum varhugaverð og í ósamræmi við ákvæði gr. 6.2. lið h í skipulagsreglugerð um að föst búsetu í frístundabyggð sé óheimil. Þetta opið ákvæði felur líka sér ákveðna hættu á ósamræmi í ákvarðanatöku milli sveitarfélaga varðandi hvenær skynsamlegt sé að leyfa lögheimilisskráningu í frístundahúsum og hvaða forsendur lagðar eru til grundvallar leyfisveitingu. Þá skapast einnig ákveðin hætta á að ákvarðanir um að heimila lögheimili í frístundabyggð byggist á persónulegum og fjárhagslegum högum viðkomandi umsækjenda. Varðandi heimild til að skrá lögheimili í iðnaðar- og atvinnuhúsnæði að þá er ákveðin hætta á að verið sé að minnka kröfur varðandi það hvað telst viðunandi íbúðarhúsnæði. Í dag er mikil vöntun á húsnæði fyrir starfsmenn og með því að rýmka reglur með þessum hætti er jafnvel verið að réttlæta nýtingu óviðunandi húsnæðis fyrir starfsmenn og koma í veg fyrir að atvinnurekendur komi sér upp almennilegu húsnæði fyrir starfsmenn. Skipulagsnefnd leggst alfarið gegn ákvæðum um lögheimilisskráningu í frístunda- og iðnaðarhúsnæði. Bókun skipulagsnefndar lögð fram til kynningar.

Mál nr. 19: 1801001F - Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 18- 70.       
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 3. janúar 2018.

e)      Fundargerð 48. fundar stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs., 11. janúar 2018.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

f)       Fundargerð oddvita vegna reksturs Seyrustaða á Flúðum, 20. desember 2017.

Mál nr. 2 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð oddvita vegna reksturs Seyrustaða á Flúðum, dags. 20. desember 2017. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 2: Samstarfssamningur um sameiginlegan seyrurekstur.
Fyrir liggja drög að samkomulagi milli sveitarfélaganna Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Flóahrepps, Ásahrepps og Bláskógabyggðar um að standa sameiginlega að hreinsun, verkun og förgun seyru.  Markmiðið er að endurvinna seyru á þann hátt að hún teljist til hreinsaðar seyru skv. skilgreiningu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Þá er tilgangurinn einnig að standa sameiginlega að afsetningu seyrunnar á skilgreind svæði í samráði við landeigendur og Landgræðslu ríkisins á grundvelli samnings þar um. Þá er einnig tilgangurinn að standa sameiginlega að hreinsun seyru á rotþróm og hreinsimannvirkjum sem heyra undir sveitarfélagin, þ.e. aðallega rotþróm við sumarbústaði, íbúðarhús og eignir sveitarfélaganna. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög og felur oddvita / sveitarstjóra að undirrita samninginn.

g)      Fundargerð 25. fundar Almannavarnarnefndar Árnessýslu, 18. desember 2017.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 
3.    Borg í sveit 2018.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að færa viðburðinn Borg í sveit frá seinasta laugardegi í maí til fyrsta laugardag í júní, ár hvert. Viðburðurinn Borg í sveit 2018 verður því 2. júní.

 
4.        Viðbragðsáætlun Almannavarna, Samfélagsleg áföll – langtímaviðbrögð Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur viðbragðsáætlun Almannavarna vegna samfélagslegra áfalla, langtímaviðbrögð Grímsnes- og Grafningshrepps. Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins til næsta fundar.

 
5.        Lífeyrissjóðurinn Brú.
Fyrir liggur „samkomulag“ um uppgjör sem Bandalag háskólamanna, BSRB og Kennarasamband Íslands annars vegar og Fjármála- og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar gera um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Markmið samkomulagsins er að samræma lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði, að aldurstenging réttinda verði grundvallarregla kerfisins og að lífeyristökualdur skuli hækkaður til að stuðla að sjálfbærni kerfisins. Skuldbinding sveitarfélagsins í jafnvægissjóð er rúmlega 24 milljónir, í lífeyrisaukasjóð rúmlega 44 milljónir og rúmlega 4,7 milljónir í varúðarsjóð. Samtals er skuldbindingin tæplega 73 milljónir, auk skuldbindinga vegna byggðasamlaga sem sveitarfélagið er aðili að. Þann 3. janúar 2018 er sveitarfélaginu sent „samkomulagið“ með eindaga þann 31. janúar 2018 og framlengt til 15. febrúar 2018.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Lífeyrissjóðsins Brúar þar sem ekki lá fyrir fjárhagsleg skuldbinding sveitarfélagsins í krónum talið fyrr en 3. janúar 2018 og umrædd skuldbinding skuli gjaldfærð á árinu 2017. Ekki liggur fyrir sundurliðun á skuldbindingunni sem hlýtur að vera forsenda þeirrar niðurstöðu sem sveitarfélagið fær. Jafnframt eru gerðar athugasemdir við að innheimtir séu rúmlega 3 milljarðar á landsvísu, 4,7 milljónir hjá Grímsnes- og Grafningshreppi, í varúðarsjóð. Ekki liggur fyrir hvort þeirra fjármuna sé þörf og er algerlega fráleitt að lífeyrissjóðurinn liggi með þessa fjármuni í allt að 20 ár ef til þess kemur að þeirra sé þörf. Nær væri að innheimta þessa upphæð þegar og ef til þess kemur að hennar sé þörf.

Sveitarstjórn gerir athugasemdir við vinnubrögð Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. sveitarfélaganna að sambandið geti skuldbundið sveitarfélög landsins um 40 milljarða án þess að nokkurt sveitarfélag hafi samþykkt slíkar skuldbindingar formlega. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur a.m.k. aldrei samþykkt fyrir sitt leyti að heimila sambandinu né öðrum að skuldbinda sveitarfélagið fyrir tugum milljóna króna. Ekki er að neinu leyti hugsað um hvort sveitarfélögin hafi greiðslugetu fyrir svona skuldbindingum og ótrúlegt að sett skuli reglugerð sem undanskilur þessa skuld við skuldahlutfall sveitarfélaga þar sem 150% reglan hefur verið ítrekuð við fjármálastjórn sveitarfélaganna.

Sveitarstjórn ítrekar kröfu sína að sundurliðun skuldarinnar liggi fyrir áður en til greiðslu kemur. Sveitarstjóra falið að undirbúa lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

 
6.        Minnisblað frá oddvita, Gunnari Þorgeirssyni vegna 100 ára afmælis Kvenfélags Grímsneshrepps.
Fyrir liggur minnisblað frá oddvita, Gunnari Þorgeirssyni, dags. 17. janúar 2018 þar sem lagt er til að sveitarfélagið veiti Kvenfélagi Grímsneshrepps styrk til ritunar sögu félagsins í tilefni af 100 ára afmæli í apríl 2019. Lagt er til að styrkurinn nemi 3 millj. sem greiðist í tvennu lagi, í júní 2018 og apríl 2019. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að umræddur styrkur verði veittur. 

7.    Bréf frá Þjóðskrá Íslands vegna skráningarinnar „óstaðsettur í hús“.
Fyrir liggur bréf frá lögmanni Þjóðskrár Íslands, Indriða B. Ármannssyni, dagsett 22. desember 2017 vegna athugasemda sveitarstjórnar um að Þjóðskrá Íslands skrái einstaklinga „óstaðsetta í hús“ milli sveitarfélaga. Jafnfram hefur sveitarstjórn óskað eftir leiðréttingu á þeim skráningum sem Þjóðskrá hefur gert. Þjóðskrá Íslands hafnar beiðni sveitarstjórnar um leiðréttingu á umræddum skráningum. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kæra ákvörðun Þjóðskrár til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

 
8.        Bréf frá Þjóðskrá Íslands vegna beiðni sveitarfélagsins um endurmat á jarðhitahlunnindum Nesjavalla og vatnsréttindum virkjananna.
Fyrir liggur bréf frá lögmanni Þjóðskrár Íslands, Helgu Bogadóttur, dagsett 22. desember 2017 þar sem tilgreint er að málsmeðferð í erindi sveitarfélagsins frá 8. mars 2017 muni tefjast. Sveitarstjórn óskaði eftir endurmati á jarðhitahlunnindum Nesjavalla og vatnsréttindum virkjananna í umræddu erindi. Bréfið lagt fram til kynningar.

 
9.        Bréf frá Þjóðskrá Íslands þar sem kynnt er breytt fasteignamat sumarhúss við Hagavík.
Fyrir liggur afrit af bréfi frá Þjóðskrá Íslands til eiganda Hagavíkur, dagsett 16. janúar 2018 þar sem kynnt er breytt fasteignamat eignarinnar. Bréfið lagt fram til kynningar.

 
10.    Tölvupóstur frá oddvita Bláskógabyggðar vegna aukinnar vatnstöku Bláskógabyggðar úr Fljótsbotnum.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Helga Kjartanssyni, oddvita Bláskógabyggðar, dags. 6. desember 2017 þar sem greint er frá undirbúningi að aukinni vatnstöku Bláskógabyggðar í Fljótsbotnum. Jafnframt er óskað eftir vitneskju nágrannasveitarfélaganna um áhuga þeirra á að tengjast vatnsveitunni. Sveitarstjóra / oddvita falið að ræða við fulltrúa Bláskógabyggðar um framhald málsins.

 
11.    Bréf frá Landgræðslu ríkisins vegna verkefnisins „Endurheimt og varðveisla votlendis á Íslandi – lykilhlutverk sveitarfélaga“.
Fyrir liggur bréf frá Árna Bragasyni, landgræðslustjóra Landgræðslu ríkisins, dagsett 12. desember 2017 þar sem kynnt er verkefnið „Endurheimt og varðveisla votlendis á Íslandi – lykilhlutverk sveitarfélaga“. Bréfið lagt fram til kynningar.

 
12.    Beiðni Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um umsögn að drögum að frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur.
Fyrir liggur beiðni Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um umsögn að drögum að frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur. Bréf sveitarstjórnar, dagsett 15. janúar 2018 lagt fram til staðfestingar.

 
13.    Beiðni Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um kosningar til sveitarstjórnar (kosningaaldur), 40. mál.
Fyrir liggur beiðni Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um kosningar til sveitarstjórnar (kosningaaldur), 40. mál. Frumvarpið lagt fram til kynningar.

  

Til kynningar
Sorpstöð Suðurlands.  Fundargerð  262. stjórnarfundar 14.12 2017.
SASS.  Fundargerð  527. stjórnarfundar 07.12 2017.
Samband íslenskra sveitarfélaga.  Fundargerð 855. stjórnarfundar, 15.12 2017.
Afrit af umsögn stjórnar SASS vegna draga að frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur.
Samantekt umræðna frá 20. ársfundi Umhverfisstofnunar, náttúruverndarnefnda sveitarfélaga og forstöðumanna náttúrustofa sem haldin var 8. nóvember 2017.
Tölvupóstur frá Önnu G. Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 16. janúar 2018 um skýrslu Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins
á haustfundi 2017.
Hjálparsveitin Tintron, ársreikningur 2016.
Hjartaheill Velferð, málgagn og fréttabréf Hjartaheilla, 2. tbl. 29. árg. 2017.
-liggur frammi á fundinum-.

Getum við bætt efni síðunnar?