Fara í efni

Sveitarstjórn

492. fundur 21. október 2020 kl. 10:00 - 12:00 Fjarfundarbúnaður
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir í fjarfundarbúnaði
  • Björn Kristinn Pálmarsson í fjarfundarbúnaði
  • Smári Bergmann Kolbeinsson í fjarfundarbúnaði
  • Ingibjörg Harðardóttir í fjarfundarbúnaði
  • Bjarni Þorkelsson í fjarfundarbúnaði
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir


1.  Fundargerðir

a)      Fundargerð 53. fundar atvinnunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 24. september 2020.

Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 7. fundargerð atvinnunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 24. september 2020.

Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 1: Gerð fjárhagsáætlunar 2021.

Atvinnumálanefnd leggur til að haldið verði áfram með Borg í sveit með nokkuð hefðbundnu sniði. Skipulagning hefst í mars og auglýsingar viðburða í apríl og maí. Stefnt er á tónleika eða skemmtun í félagsheimilinu í lok dags.

Atvinnmálanefnd leggur til að haldið verði áfram með þjónustudagatalið en þó með öðrum hætti heldur en venjulega. Breyta því í þjónustuskrá sem verði í líkingu við Hvatarblaðið. Búið til á skrifstofu og dreift á heimilin og helstu staði 1.-2. á ári. Auglýsingar væru þá seldar á mun lægra verði og allar jafn stórar. Þessi skrá væri svo gefin út t.d. í janúar og maí með Hvatarblaðinu. Með því að gefa skrána út tvisvar á ári væri hægt að uppfæra hana og setja inn viðburði fyrir sumarið ásamt því að taka út þá aðila sem sjá sér ekki hag í að vera með allt árið.  Atvinnumálanefnd leggur til að samráðsfundur atvinnumálanefnda uppsveita verði haldinn aftur og þá í janúar/febrúar til að skoða stöðuna eftir covid breytingar. Einnig hafa opinn íbúafund í september þar sem fyrirtæki geta kynnt sig og rætt málin.

Atvinnumálanefnd leggur til að skoðuð verði vel hugmyndin um kynningarefni fyrir sveitarfélagið í appi. Stuðst væri við Locatify appið sem nokkur sveitarfélög hafa tekið upp. Mögulega væri hægt að búa til uppsveitaapp í samstarfi við önnur sveitarfélög til að dreifa kostnaði.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa málinu til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar.

 b)     Fundargerð 203. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 14. október 2020.

 Mál nr. 10, 11, 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19 og 26 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 203. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 14. október 2020. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 10: 2009085 - Heydalir Hæðarenda 1A L200229; Byggingarleyfi; Íbúðarhús; Fyrirspurn.

Lögð er fram fyrirspurn frá Birgi Sigurfinnssyni er varðar 4,3 ha land úr jörðinni Hæðarenda í Grímsnesi. Í fyrirspurninni felst beiðni um heimild fyrir byggingu íbúðarhúss til heilsárs búsetu að undangenginni grenndarkynningu án deiliskipulags.

Sveitarstjórn telur að skilgreining bygginga- og framkvæmdaheimilda innan lóðarinnar sé í öllum tilfellum háð gerð deiliskipulags innan hennar. Hins vegar er mögulegt að stakar framkvæmdir geti verið grenndarkynntar samkv. 44. gr. skipulagslaga samhliða vinnslu deiliskipulags fyrir lóðina eftir beiðni landeiganda.

Mál nr. 11: 2009015 - Öndverðarnes 1 L168299; Frístundasvæðið Kambshverfi; Hlíðarhólsbraut 2 til 20; Deiliskipulagsbreyting.

Lögð er fram umsókn frá Öndverðarnes ehf. vegna breytinga á deiliskipulagi Öndverðarnesi 1. Í breytingunni felst að lóðir vestan Hlíðarbólsbrautar nr. 2-20 snúast um 2.2 gráður svo að þær liggi samsíða Hlíðarhólsbraut. Stærðir lóða haldast óbreyttar. Enn fremur er gert ráð fyrir 20 metra ræmu milli lóða 18 og 20 fyrir frárennslislagnir.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta málinu. Skipulagsfulltrúa falið að hafa samráð við umsækjanda vegna tilfærslu lóðanna.

Mál nr. 12: 2009076 - Eyvík 2 L168241; Eyvík 3; Stofnun lóðar.

Lögð er fram umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar f.h. eigenda, dags. 18. september 2020, er varðar stofnun lóðar fyrir fyrirhugað íbúðarhús á bæjartorfu Eyvíkurbæja úr landi Eyvíkur II L168241. Óskað er eftir að stofna 5.153 fm lóð sem fengi staðfangið Eyvík 3. Aðkoma að lóðinni er um veg sem liggur á mörkum Eyvíkur og Eyvíkur II.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða erindið með fyrirvara um grenndarkynningu á því að á lóðinni verði byggt íbúðarhús, samþykki eigenda aðliggjandi landeigna á hnitsettri afmörkun sem og samþykki fyrir aðkomu að lóðinni eins og hún er sýnd á lóðablaðinu. Þá er ekki gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Smári Bergmann Kolbeinsson vék sæti við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 13: 2009092 - Nesjar L170898; Réttarháls 9; Breyting á stærð og heiti lóðar.

Lögð er fram umsókn frá Einari S. Ingólfssyni er varðar breytta stærð og heiti lóðarinnar Nesjar L170898. Eftir breytingu fær lóðin staðfangið Réttarháls 9 og stærð hennar breytist úr 1.000 fm. í 3.334 fm skv. nákvæmari mælingu. Fyrir liggur samþykki lóðarhafa lóðar merkt nr. 10 L170889, á hnitsetningu lóðarinnar, á meðfylgjandi lóðablaði sem og áður samþykkt lóðablað dags. 26.01.2018 fyrir afmörkun Réttarháls 8.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða erindið. Ekki er gerð athugasemd við afmörkun lóðarinnar, heitið samkvæmt fyrirliggjandi umsókn né staðfestingu landskipta samkvæmt 13. gr. jarðalaga.

Mál nr. 14: 1909031 - Kringla 4 L227914; Frístundabyggð; Deiliskipulag.

Lagðar eru fram athugasemdir frá eigendum lóða innan aðliggjandi sumarhúsasvæðis að Kringlu lóðar Árvegar 26-52. Engar athugasemdir bárust frá viðkomandi aðilum á auglýsingatíma skipulagsins. Í athugasemdum felst m.a. að gerðar eru athugasemdir er varðar umferð að fyrirhuguðu svæði muni fara um vegstæði sem liggur hjá lóðum viðkomandi. Óskað er eftir því að notaður verði annar akvegur inn á svæði Kringlu 4. Athugasemdirnar byggja á þeim forsendum að kaup viðkomandi á núverandi svæði hafi verið gerð með það að leiðarljósi að þeirra lóðir væru endalóðir og að þar væri ró og næði gagnvart bílaumferð sem mun nú breytast með gríðarlegu gegnumstreymi bíla um svæðið með fyrirhugaðri skipulagsbreytingu. Lagðar eru til aðrar leiðir að vegtenginu inn á Kringlu 4. Að auki eru gerðar athugasemdir við misræmi á milli deiliskipulaga og er talið eðlilegt að skilmálar verði samræmdir.

Sveitarstjórn telur ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við athugasemdum vegna deiliskipulags Kringlu 4 að loknum athugasemdafresti skipulagsins. Að mati sveitarstjórnar hefði lóðarhöfum viðkomandi lóða mátt vera ljóst að umrætt svæði Kringu 4 væri skilgreint sem frístundasvæði innan aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps og að þar mætti því búast við uppbyggingu frístundalóða til framtíðar. Innan deiliskipulags frístundasvæðis Kringlu II virðist að auki ekki vera gert ráð fyrir því að samliggjandi vegir eigi að enda í botnlanga. Sveitarstjórn telur skynsamlegt að samnýta vegi innan slíkra svæða og að það sé öllum í hag gagnvart kostnaði við viðhald vega innan frístundasvæða. Ekki er talið að umferð um svæðið sé svo hröð og þung að verulegt ónæði verði til vegna þess. Sveitarstjórn bendir á að viðkomandi deiliskipulag var að auki kynnt á þremur mismunandi stigum málsins þar sem lýsing deiliskipulagsins var kynnt frá 23.10.19 - 13.11.19, tillaga deiliskipulagsins var kynnt frá 27.11.19 - 18.12.20 og loks var tillagan auglýst með athugasemdafresti til 30.7.2020. Sveitarstjórn telur því að málsaðilar hafi haft töluvert svigrúm til að koma á framfæri athugasemdum á meðan á kynningarferli skipulagsins stóð. Sveitarstjórn vill hvetja málsaðila til þess að sameinast um stofnun sumarhúsafélags innan svæðisins sem taki á sameiginlegum hagsmunum landeigenda og lóðarhafa og leggi til breytingar á deiliskipulagi verði komist að samkomulagi um slíkt. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að deiliskipulagið taki gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda.

Mál nr. 15: 2009103 - Hrossakrókar L168261; Úr landi Miðengis; Deiliskipulag.

Lögð er fram umsókn frá Benedikt Gústavssyni er varðar nýtt deiliskipulag að Hrossakrókum L168261. Í deiliskipulaginu felst skilgreining á sumarhúsalóð og beitarhólfi auk byggingarheimilda innan svæðisins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins. Skipulagsfulltrúa falið að óska uppfærðra gagna og annast samskipti við hönnuð og umsækjanda.

Mál nr. 16: 2010012 - Minni-Borg lóð B L198597; Lóðir skipulagðar; Deiliskipulagsbreyting.

Lögð er fram umsókn frá Minniborgum ehf. er varðar breytingu á deiliskipulagi Minni-Borgar lóð B. Í breytingunni felst að átta byggingarreitir sem eru skilgreindir í núverandi skipulagi verða skilgreindir sem lóðir. Byggt hefur verið á öllum reitunum.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.

Mál nr. 17: 2001063 - Neðan-Sogsvegar 4 L169505, 4A, 4B L169507 og 4C; Lagfæring og breytt afmörkun lóða; Deiliskipulagsbreyting.

Lagðar eru fram athugasemdir lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A er varðar breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Umrædd deiliskipulagsbreyting hefur tekið gildi en athugasemdir lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A snúa að legu byggingarreitar á aðliggjandi lóð, Neðan-Sogsvegar 4. Gerð er athugasemd við að umrædd deiliskipulagsbreyting hafi ekki verið grenndarkynnt lóðarhöfum lóðar 4A en í henni fólst stofnun lóðar á svæðinu. Um leið voru skilgreindir byggingarreitir í 10 metra fjarlægð frá lóðarmörkum. Gerð er athugasemd við að byggingarreitur innan lóðar 4 nái yfir svæði sem stendur töluvert hærra en bústaður á lóð 4A og að það geti verið veruleg ógnun við friðhelgi, truflun og sjónmengum við hús þeirra og verönd. Óskað er eftir því að viðkomandi deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi og nýtt deiliskipulag unnið sem tekur tillit til athugasemda er varðar byggingarreit.

Sveitarstjórn telur að ástæða sé til að bregðast við athugasemdum málsaðila út frá þeim forsendum að lega byggingarreits um viðkomandi hluta lóðar 4 liggur töluvert hærra í landi en lóð 4A. Nýting reitsins á þessu svæði gæti því haft töluverð áhrif á lóð 4A m.t.t. skuggavarps og friðhelgis frá því sem fyrir er. Enginn byggingarreitur var skilgreindur á lóðinni fyrir breytingu þar sem lóðin var þegar byggð og hefði því bygging á viðkomandi hluta lóðarinnar verið í öllum tilfellum háð niðurstöðu grenndarkynningar ef ekki hefði komið til skipulagsbreytingar sem fyrirfórst að grenndarkynna lóðarhöfum lóðar 4A. Núverandi sumarhús lóðar 4 er að auki í töluverðri fjarlægð frá umræddu svæði og telur sveitarstjórn í raun litlar líkur til þess að hentugt sé að byggja á nýjum stað innan lóðarinnar svo langt frá núverandi bústaðarstæði. Auk þess er byggingarreitur lóðarinnar rúmur þrátt fyrir þessar takmarkanir og myndi því hafa lítil sem engin hamlandi áhrif á lóðarhafa gagnvart byggingarheimildum innan lóðarinnar. Sveitarstjórn mælist til þess að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi og byggingarreitur minnkaður sem nemur umræddu svæði. Skipulagsfulltrúa falið að ljúka málunu og skal það fá málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Niðurstaða sveitarstjórnar og skipulagsbreyting skal grenndarkynnt lóðarhafa lóðar 4 og honum gefin kostur á andmælum.

Mál nr. 18: 1709092 - Heiðarbrún 2-10 í landi Bjarnastaða 1: Landbúnaðarsvæði með lögbýlisrétti: Aðalskipulagsbreyting.

Lögð er fram tillaga að breyttu aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Áður hefur verið kynnt lýsing aðalskipulagsbreytingar, engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Í tillögunni felst breyting á landnotkun stakrar lóðar í jaðri frístundasvæði F51a. Svæðið breytist úr frístundasvæði í landbúnaðarsvæði. Fyrirliggjandi svæði er óbyggt og liggur að landbúnaðarlandi. Umfang breytingar hefur minnkað frá áður kynntri lýsingu verkefnisins. Samhliða er unnin breyting á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu aðalskipulagsbreytingar til auglýsingar í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftir að tillagan hefur verið kynnt í samræmi við 30. gr. skipulagslaga og eftir að samþykkt skipulagsstofnunnar fyrir auglýsingu hennar liggur fyrir. Berist athugasemdir við tillöguna á kynningartíma skal hún tekin til afgreiðslu á nýjan leik.

Mál nr. 19: 2010030 - Heiðarbrún 10; Bjarnastaðir II; Breytt heiti og skilmálabreyting; Deiliskipulagsbreyting.

Lögð er fram umsókn frá Guðrúnu Sigríði Sigurðardóttur er varðar breytingu á deiliskipulagi Bjarnarstaða við Heiðarbrún. Í breytingunni felst að lóð Heiðarbrúnar 10 verður að Bjarnastöðum II þar sem heimilt verður að byggja íbúðarhús og útihús.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingu á deiliskipulagi og verði auglýst samhliða tillögu að breyttu aðalskipulagi innan svæðisins.

Mál nr. 26: 2010001F - Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 20 - 128.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 7. október 2020.

 c)      Fundargerð nefndar oddvita/sveitarstjóra (NOS) í yfirstjórn velferðarmála í Árnesþingi, 2. október 2020.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða gjaldskrá 2021 fyrir Velferðarþjónustu Árnesþings.

 d)     Fundargerð nefndar oddvita/sveitarstjóra (NOS) í yfirstjórn velferðarmála í Árnesþingi, 7. október 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 e)      Fundargerð fundar Oddvitanefndar UTU, 6. október 2020.

      Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 f)       Fundargerð fundar lögreglustjóra með bæjar- og sveitarstjórum, 6. október 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 g)      Fundargerð fundar lögreglustjóra með bæjar- og sveitarstjórum, 13. október 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 h)     Fundargerð 17. fundar stjórnar Byggðasafn Árnesinga, 5. október 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 i)       Fundargerð 197. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga, 6. október 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 j)       Fundargerð Framkvæmdaráðs Almannavarna Árnessýslu, 28. september 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 k)     Fundargerð 562. fundar stjórnar SASS, 2. október 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2.  Grenndarstöðvar í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Oddviti fór yfir stöðu verkefnisins til þessa. Almenn ánægja hefur verið með grenndarstöðvarnar og flokkun í sumarhúsahverfum hefur aukist mikið. Rætt var um framhald verkefnisins og ræddar mögulegar staðsetningar fyrir fleiri grenndarstöðvar.

 3.  Úrskurður nr. 58/2020 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fyrir liggur úrskurður frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem kærð var ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 28. apríl 2020 um að fjarlægja skuli stöðuhýsi af lóðinni Lerkigerði 2 í Mýrarkotslandi og að gerð skuli grein fyrir öðru húsi á lóðinni eða það fjarlægt einnig. Niðurstaða Úrskurðarnefndarinnar er að málinu verði vísað frá nefndinni.

Lagt fram til kynningar.

4.  Aðalfundur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings 2020.

Fyrir liggur fundarboð vegna aðalfundar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings sem haldinn verður fimmtudaginn 22. október n.k. í fjarfundarbúnaði. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Ingibjörg Harðardóttir verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.

5.  Aðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga 2020.

Fyrir liggur fundarboð vegna aðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn verður fimmtudaginn 5. nóvember n.k. í fjarfundarbúnaði. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Ása Valdís Árnadóttir verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.

6.  Tölvupóstur frá stjórn Rangárbakka, þjóðaleikvangs íslenska hestsins ehf., vegna aðalfundar félagsins þann 3. nóvember n.k.

Fyrir liggur fundarboð vegna aðalfundar Rangárbakka, þjóðarleikvangs íslenska hestsins ehf. sem haldinn verður þriðjudaginn 3. nóvember n.k. í Rangárhöllinni á Hellu. Einnig verður boðið upp á að fundarmenn geti sótt fundinn í gegnum fjarfundarbúnað. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Bjarni Þorkelsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.

7.  Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem vakin er athygli á frestum vegna fjárhagsáætlana sveitarfélaga fyrir árið 2021.

Fyrir liggur bréf frá Jóhönnu Sigurjónsdóttur, sérfræðingi á skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála hjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 15. október 2020, þar sem vakin er athygli á því að frestir sveitarfélaga til að leggja fram og afgreiða fjárhagsáætlanir verði lengdir með vísan til þeirrar óvissu sem sveitarfélög standa frammi fyrir vegna Covid-19 faraldursins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela oddvita að óska eftir fresti vegna fjárhagsáætlunar ársins 2021.

8.  Minnisblað frá Sigurði Ármanni Snævarr, sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, um forsendur fjárhagsáætlana 2021-2024.

Fyrir liggur minnisblað frá Sigurði Ármanni Snævarr, sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. október 2020, um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaganna 2021-2024 .

Minnisblaðið lagt fram til kynningar.

9.  Bréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga þar sem óskað er eftir útkomuspá fyrir fjárhagsárið 2020 samhliða fjárhagsáætlun fyrir árið 2021.

Fyrir liggur bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 9. október 2020, þar sem óskað er eftir útkomuspá fyrir fjárhagsárið 2020 samhliða fjárhagsáætlun fyrir árið 2021.

Bréfið lagt fram til kynningar.

10.  Bréf frá Hildi Jónsdóttur, f.h. Soroptimistaklúbbs Suðurlands, varðandi verkefnið Sigurhæðir.

Fyrir liggur bréf frá Hildi Jónsdóttur f.h. Soroptimistaklúbbs Suðurlands varðandi verkefnið Sigurhæðir, dags. 14. október 2020, þar sem óskað er eftir undirbúningsstyrk vegna verkefnisins, sem og að verkefninu verði veitt fast fjárframlag á komandi fjárhagsáætlunum.

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og felur oddvita að afla frekari upplýsinga.

11.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar um umsögn á frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, 14. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

12.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar um umsögn á frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttismála, 15. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

13.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar um umsögn á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði (breytt kynskráning), 21. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

14.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar um umsögn á frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (skipt búseta barns), 11. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

Getum við bætt efni síðunnar?