Fara í efni

Sveitarstjórn

500. fundur 03. mars 2021 kl. 13:00 - 14:45 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Bjarni Þorkelsson
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir.

1.  Fundargerðir

a)      Fundargerð 212. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 24. febrúar 2021.

Mál nr. 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20, 21, 22, 23 og 30 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 212. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 24. febrúar 2021. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 14: 1811018 - Sogsvirkjanir; H20 og H22; Breytt landnotkun; Aðalskipulagsbreyting.

Lögð er fram lýsing aðalskipulagsbreytingar vegna Sogsvirkjana. Í aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020, falla stöðvarnar þrjár og háspennulína að þeim og frá undir landnotkun iðnaðarsvæðis. Í aðalskipulagsbreytingunni er reiknað með að svo verði áfram og þar verði einnig gerð grein fyrir opnum svæðum, stofnanasvæðum, íbúðarsvæðum, golfvelli, hverfisverndarsvæði og svæðum á náttúruminjaskrá. Í aðalskipulagsbreytingunni er almenn stefna og markmið varðandi Sogsvirkjanir og umhverfi þeirra óbreytt frá núverandi aðalskipulagi, þar sem um er að ræða í meginatriðum nánari og nákvæmari útfærsla á því sem fyrir er á svæðunum.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 15: 2102044 - Jarðvarmanýting í landi Króks; Umsögn.

Lögð er fram greinargerð með tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu er varðar jarðvarmavirkjun í landi Króks í Grafningi. Lagt fyrir skipulagsnefnd til kynningar og álitsgerðar vegna umsagnar sveitarfélagsins um málið.

Sveitarstjórn telur að umrædd framkvæmd sé ekki þess eðlis að teljast háð mati á umhverfisáhrifum. Staðsetning hennar er á þegar röskuðu svæði við hlið háspennumasturs í grennd við önnur sambærileg orkunýtingarsvæði. Lagnarleiðir frá framkvæmdinni geti farið meðfram vegum sem liggja um svæðinu nú þegar. Framkvæmdasvæðið raskast varanlega en á því svæði er fábreyttur gróður og fuglalíf samkvæmt skýrslunni. Sveitarstjórn bendir þó á að framkvæmdin er í töluverðri nálægð við Grændal sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tilnefnt í B-hluta náttúruminjaskrár vegna vistgerða á landi og ferksvatnsvistgerða þar sem nýting orkuvinnslu er talin til helstu ógna og að friða þurfi svæðið fyrir orkuvinnslu. Í samræmi við framlagða tilkynningarskýrslu er þá vandséð að umrædd framkvæmd muni hafa áhrif á það svæði nema hugsanlega með sjónrænum hætti. Sérstaklega er tiltekið innan skýrslunnar að mannvirki verði lágstemmd og sýnileika þeirra verði haldið í lágmarki. Út frá núverandi markmiðum aðalskipulags er ekki gert ráð fyrir mannvirkjagerð innan svæðisins nema með mjög takmörkuðum hætti.

Mál nr. 16: 2102030 - Hlíð (L170821); umsókn um byggingarleyfi; véla- og verkfærageymsla.

Fyrir liggur umsókn Vals Arnarssonar f.h. K.J. ehf., móttekin 10.02.2021, um byggingarleyfi til að byggja 378 m2 véla- og verkfærageymslu á jörðinni Hlíð L170821 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru í næsta nágrenni við svæðið en umsækjandi sjálfur telur sveitarstjórn ekki þörf á grenndarkynningu vegna málsins og vísar því til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Mál nr. 17: 2102039 - Stóra-Borg lóð 13 (L218057); umsókn um byggingarleyfi; gistihús - kúluhús með svefnlofti.

Fyrir liggur umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar f.h. Ögmundar Gíslasonar, móttekin 11.02.2021, um byggingarleyfi til að byggja 66,4 m2 gistihús/kúluhús með svefnlofti á lóðinni Stóra-Borg lóð 13 L218057 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að afgreiðslu málsins verði frestað á meðan skipulagsbreytingar á lóðinni eru í vinnslu.

Mál nr. 18: 2102052 - Selhólsvegur 10 (L169406); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður á tveimur hæðum að hluta.

Fyrir liggur umsókn Pálmars Kristmundssonar f.h. Helga R. Ólafssonar og Bjarneyjar Harðardóttur, móttekin 15.02.2021, um byggingarleyfi til að byggja 237,8 m2 sumarbústað á tveimur hæðum að hluta til á sumarbústaðalóðinni Selhólsvegur 10 L169406 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Sveitarstjórn telur nauðsynlegt að grenndarkynna útgáfu byggingarleyfis fyrir húsinu þar sem há mænishæð þess geti mögulega haft grenndaráhrif. Engir skilmálar eru settir fram innan deiliskipulags er varðar hámarkshæð mænishæðar bygginga. Að auki mælist sveitarstjórn til þess að skipting lóðarinnar á grundvelli deiliskipulags verði kláruð áður en byggingarleyfi verði afgreitt. Að því loknu og berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Mál nr. 19: 2007038 - Sólheimar (L168279); umsókn um byggingarleyfi; baðhús.

Fyrir liggur umsókn Helga Más Halldórssonar f.h. Sólheima ses., móttekin 15.07.2020, um byggingarleyfi til að byggja 84 m2 baðhús/þjónustuhús á jörðinni Sólheimar L168279 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að þar sem heildarendurskoðun deiliskipulags á svæðinu er í vinnslu fái framlögð umsókn málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru í næsta nágrenni við svæðið en umsækjandi sjálfur telur nefndin ekki þörf á grenndarkynningu vegna málsins og vísar því til afgreiðslu byggingafulltrúa.

Mál nr. 20: 2010070 - Krókur L170822; Gufuaflsvirkjun á Folaldahálsi; Skilgreining iðnaðarsvæðis; Aðalskipulagsbreyting.

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna gufuaflsvirkjunar á Folaldahálsi í landi Króks L170822 eftir kynningu. Í breytingunni felst skilgreining iðnaðarsvæðis á Folaldahálsi fyrir gufuaflsvirkjun. Raforkuframleiðsla er áætluð allt að 3,9 MW sem nýtt verður fyrir sumarhúsabyggð og mögulega aðra starfsemi í landi Króks. Umsagnir bárust á kynningartíma tillögunnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta málinu þar til niðurstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum liggur fyrir.

Mál nr. 21: 2010071 - Krókur L170822; Gufuaflsvirkjun á Folaldahálsi; Skilgreining iðnaðarsvæðis; Deiliskipulag.

Lögð er fram tillaga deiliskipulags vegna Gufuaflsvirkjunar á Folaldahálsi í landi Króks L170822 eftir kynningu. Innan deiliskipulags er gert ráð fyrir þremur borholum ásamt gufuskilju, gufuháf ásamt gufulögnum og öðrum búnaði gufuaflsvirkjunar auk stöðvarhúss og kæliturna. Gert er ráð fyrir því að 11 kV jarðstrengur verði lagður um 7 km leið að bænum Króki. Raforkuframleiðsla er áætluð allt að 3,9 MW. Umsagnir bárust á kynningartíma tillögunnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta málinu þar til niðurstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum liggur fyrir.

Mál nr. 22: 2002001 - Þórisstaðir land L220557; Landbúnaðarsvæði breytt í verslunar- og þjónustusvæði; Aðalskipulagsbreyting.

Lögð er fram umsókn frá Birgi Leó Ólafssyni og Rögnu Björnsdóttur er varðar breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Í breytingunni felst að breytt landnotkun landbúnaðarsvæðis í verslunar- og þjónustusvæði innan lóðar Þórisstaða land L220557. Innan svæðisins er ætlunin að rísi þyrping gistihúsa með tilheyrandi þjónustumannvirkjum.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 23: 2008058 - Lokastígur 12 L193682; Ásabraut 4D og 6C; Breytt stærð lóðar.

Lögð er fram umsókn frá Lofti Magnússyni og Erlu Guðlaugu Sigurðardóttir er varðar breytingu á deiliskipulagi í landi Ásgarðs sem tekur til Ásabrautar 1-40 og Lokastígs 1-10 samkvæmt fylgibréfi.

Sveitarstjórn áréttar að við breytingar á deiliskipulagi verða ekki sjálfkrafa til breytingar á mörkum lóða innan fasteignaskrár eða þinglýsingabóka. Slíkar breytingar gerast ekki án viðeigandi lóðargagna með samþykki hlutaðeigandi lóðarhafa og aðliggjandi lóða. Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og vísar því til úrvinnslu skipulagsfulltrúa í samráði við vinnsluaðila deiliskipulagsins og lóðarhafa.

Mál nr. 30: 2102002F – Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 21-137.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 17. febrúar 2021.

 b)     Fundargerð 4. fundar starfshóps um sameiginlega vatnsveitu Uppsveita, 16. febrúar 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 c)      Fundargerð fundar lögreglustjóra með bæjar- og sveitarstjórum, 24. febrúar 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 d)     Fundargerð 44. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 29. janúar 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 e)      Fundargerð 567. fundar stjórnar SASS, 5. febrúar 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2.  Beiðni um rekstrarstyrk vegna rekstrarársins 2021 frá Samtökum um kvennaathvarf.

Fyrir liggur bréf frá Brynhildi Jónsdóttur f.h. Samtaka um kvennaathvarf, dagsett 10. febrúar 2021 þar sem óskað er eftir styrk til reksturs samtakanna árið 2021 að fjárhæð kr. 100.000. 

Sveitarstjórn hafnar erindinu samhljóða.  

 

3.  Tilkynning til hluthafa í Límtré Vírnet ehf. um eigendaskipti að hlutum.

Fyrir liggur bréf frá Límtré Vírnet ehf., dagsett 17. febrúar 2021 þar sem tilkynnt er um kaup Stefáns Árna Einarssonar á um 0,66% alls hlutafjár félagsins. Af þessu tilefni er sveitarfélaginu tilkynnt að það eigi forkaupsrétt að áður nefndum hlutum.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að forkaupsréttur Grímsnes- og Grafningshrepps verði ekki nýttur.

4.  Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um breytingu á reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015.

Fyrir liggur tölvupóstur frá Eiríki Benónýssyni hjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsettur 23. febrúar 2021, þar sem tilkynnt er að settar hafi verið í auglýsingu breytingar á reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015. Einnig eru lögð fram fylgiskjöl sem sýna breytingarnar.

Bréfið lagt fram til kynningar.

5.  Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 61/2021, „Kosningar til Alþingis“.

Fyrir liggur að birt er til samráðs frá dómsmálaráðuneytinu mál nr. 61/2021, frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

6.  Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um málefni innflytjenda (móttaka flóttafólks og innflytjendaráð), 452. mál.

Fyrir liggur beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um málefni innflytjenda (móttaka flóttafólks og innflytjendaráð), 452. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

7.  Beiðni Atvinnuveganefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um matvæli (sýklalyfjanotkun), 140. mál.

Fyrir liggur beiðni Atvinnuveganefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um matvæli (sýklalyfjanotkun), 140. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 8.  Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um hafnalög (EES-reglur, gjaldtaka, rafræn vöktun), 509. mál.

Fyrir liggur beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um hafnalög (EES-reglur, gjaldtaka, rafræn vöktun), 509. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 9.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (kristinfræðikennsla), 141. mál.

Fyrir liggur beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (kristinfræðikennsla), 141. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 10.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um áfengislög (sala á framleiðslustað), 504. mál.

Fyrir liggur beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um áfengislög (sala á framleiðslustað), 504. mál.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps styður framkomið frumvarp, enda mun það hafa jákvæð áhrif á minni brugghús og styrkja rekstrargrundvöll þeirra, auk þess sem það mun stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni.

11.  Beiðni Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um stjórnskipunarlög (kosningaaldur), 188. mál.

Fyrir liggur beiðni Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um stjórnskipunarlög (kosningaaldur), 188. mál.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps styður ekki við frumvarp til laga um stjórnskipunarlög (kosningaaldur). Sveitarstjórn telur ekki rétt að aðskilja kosningarétt og kjörgengi og telur því að kosningaréttur og kjörgengi eigi að fylgja sjálfrœðisaldri og kosningaaldur verði því áfram 18 ár við kosningar eins og verið hefur.

Getum við bætt efni síðunnar?