Fara í efni

Sveitarstjórn

503. fundur 21. apríl 2021 kl. 09:00 - 15:05 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Bjarni Þorkelsson
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir.

Oddviti leitar afbrigða.

Samþykkt samhljóða

a)       2102075 - Minni-Borg lóð B L198597; 14 byggingareitir verði lóðir; Deiliskipulagsbreyting.

  1.  Fundargerðir.

a)      Fundargerð 8. fundar veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 9. nóvember 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

b)      Fundargerð 9. fundar veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 23. nóvember 2020.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

c)       Fundargerð 10. fundar veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 1. mars 2021.

Mál nr. 6 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 6: Tengingar hitaveitu 2021.

Farið var yfir stöðu á tengingum hitaveitunnar og breytingar á borholudælu sem hafa skilað árangri. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að heimila aftur nýtengingar hitaveitu í þeim hverfum sem hitaveita er nú þegar til staðar.

d)      Fundargerð 11. fundar veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 26. mars 2021.

Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 1: Verð í aðalhönnun á viðbyggingu íþróttamiðstövar.

Fyrir liggja þrjú tilboð í verkið, frá Arkís kr. 3.980.698, Pro-Ark kr. 4.950.000 og Teiknistofunni Tröð kr. 2.948.000. Bjóðendur voru metnir út frá reynslu í svipuðum verkefnum og eftir yfirferð ferilskráa leggur veitunefnd til að samþykkja tilboð frá Arkís. Arkís hefur mesta reynslu af svipuðum verkefnum og notast við BIM í hönnun.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gengið verði til samninga við Arkís. Oddvita / sveitarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.

e)       Fundargerð 215. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 15. apríl 2021.

Mál nr. 15, 16, 17, 18, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26, 27 og 36 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 215. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 15. apríl 2021. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 15: Tjarnarhólar; Útivistar og göngusvæði; Deiliskipulag -  (1910010).

Fyrir liggur deiliskipulagsuppdráttur vegna Tjarnarhóla í Grímsnes- og Grafningshreppi eftir auglýsingu. Athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og var afgreiðslu málsins frestað á 204. fundi skipulagsnefndar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Brugðist hefur verið við athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna málsins á fullnægjandi hátt að mati sveitarstjórnar. Deiliskipulagið mun taka gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 16: Neðan-Sogsvegar 4 L169505; Norðurkot; Minnkun á byggingarreit; Deiliskipulagsbreyting; Kæra til ÚUA -  (2103089).

Lögð er fram stjórnsýslukæra til kynningar er varðar deiliskipulagsbreytingu sem tekur til Neðan-Sogsvegar 4 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að svara kærunni í samráði við lögmann sveitarfélagsins, Óskar Sigurðsson hrl.

Mál nr. 17: Nesvegur 8 L205647; Þakhalli og aukahús; Deiliskipulagsbreyting -  (2103084).

Fyrir liggur umsókn frá Ólafi Vigfússyni og Maríu Önnu Clausen, dags. 19. mars 2021  er varðar breytingu á deiliskipulagi við Nesveg við Höskuldslæk í landi Vaðness. Í breytingunni felst að þakhalli gestahúss verði heimilaður 0-45° og að gestahús/aukahús megi vera allt að 40 fm.

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins.

Mál nr. 18: Leynir L230589; Miðengi; 8 frístundahúsalóðir; Deiliskipulag -  (2103106).

Fyrir liggur umsókn frá Viðhaldsfélaginu ehf. og Stefáni Páli Jónssyni, dags. 26. mars 2021  er varðar deiliskipulagningu frístundahúsalóða innan landsins Leynir L230589 úr landi Miðengis. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir 8 frístundahúsalóðum að stærðinni frá 5.948 fm til 7.491 fm.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi með fyrirvara um lagfæringu gagna er varðar brunavarnir og götuheiti. Málið verður auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggja fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

Mál nr. 19: Suðurkot L168285; Suðurkot 1; Stofnun lóðar -  (2103069).

Fyrir liggur umsókn Auðar Ólafsdóttur, dags. 14. mars 2021 er varðar stofnun 9.072,6 fm lóðar úr landi Suðurkots L168285. Í umsókninni felst stofnun lóðar í kringum fasteignina Suðurkot (á lóðarblaði nefnd Suðurkot 1) svo umsækjandi geti gengið frá eignaskiptum á fasteigninni.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða stofnun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn. Ekki eru gerðar athugasemdir við staðfestingu landskipta skv. 13. jarðalaga.

Mál nr. 20: Hestur lóð 132 L168638; Hækkun hámarkshæðar; Deiliskipulagsbreyting -  (2103107).

Fyrir liggur umsókn frá Sigurði Ágústi Hjartarsyni, dags. 26. mars 2021 er varðar breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis að Hesti. Í breytingunni felst hækkun á hámarkshæð bygginga í 4,40 metra. Núverandi deiliskipulagsskilmálar svæðisins er varðar hámarks hæð segja: Hæð útveggja frá gólfi upp í efri brún sperru skal mest vera 3,40 m. Þakhalli skal vera frjáls.

Sveitarstjórn telur að skilmálar er varðar hámarkshæð bygginga innan skipulagssvæðisins séu óljósir og vill að hámarks mænishæð verði skilgreind innan deiliskipulagssvæðisins.

Sveitarstjórn hafnar fyrirliggjandi umsókn en felur skipulagsfulltrúa að annast gerð skilmálabreytinga í samráði við sumarhúsafélag svæðisins.

Mál nr. 21: Miðborgir - Miðengi; Frístundabyggð; Flóttaleið; Fyrirspurn -  (2103109).

Lögð er fram fyrirspurn vegna flóttaleiðar frá frístundasvæði Borgarleyni – Miðborgum að Biskupstungnabraut. Fyrir liggur samþykki frá stjórn Skógræktarfélagsins vegna nýtingar á vegi.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við skilgreiningu flóttaleiðar frá svæðinu og leggur til að unnin verði óveruleg breyting á deiliskipulagi þar sem gert verði grein fyrir flóttaleiðinni. Leitað verði umsagnar og samráðs við Vegagerðina vegna málsins.

Mál nr. 22: Grýluhraun 1, 3 og 5; Farborgir; Sameining lóða; Kæra til ÚUA -  (2012008).

Lagður er fram úrskurður ÚUA vegna synjunar á sameiningu lóða að Grýluhrauni 1, 3 og 5 í landi Farborgar.

Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að annast samskipti við umsækjendur um endurupptöku málsins á grundvelli úrskurðar ÚUA.

Mál nr. 23: Kiðjaberg lóðir 108, 109, 110, 111 við Kamba; Leiðrétting; Deiliskipulagsbreyting -  (2101063).

Fyrir liggur deiliskipulagsbreyting vegna leiðréttingar á lóðarmörkum lóða Kiðjabergs 108, 109, 110 og 111 við Kamba eftir grenndarkynningu. Athugasemir bárust við breytinguna eftir að athugasemdafresti lauk auk þess sem athugasemdir bárust áður við breytingu er varðar stækkun á byggingarreit á lóð 110 sem sameinaðist viðkomandi máli. Athugasemdir lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi deiliskipulagsbreytingu eftir grenndarkynningu. Sveitarstjórn telur að viðkomandi breyting sé í takt við þinglýst gögn lóða á svæðinu og felur embætti Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. setja út mörk lóða sem athugasemdir snúa að. Sveitarstjórn telur jafnframt að stækkun byggingarreitar á lóð 110 hafi ekki för með sér grenndaráhrif fyrir lóð 111 og eru því ekki gerðar athugasemdir við þá breytingu. Deiliskipulagið mun taka gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og verður sent Skipulagsstofnun til varðveislu. Skipulagsfulltrúa falið að kynna þeim sem gerðu athugasemdir niðurstöðu sveitarstjórnar og kæruleiðir.

Mál nr. 24: Úlfljótsvatn L170830; Gróðursetning; Framkvæmdaleyfi -  (2104005).

Fyrir liggur umsókn frá Skógræktarfélagi Ísland, dags. 31. mars 2021 er varðar framkvæmdaleyfi. Í framkvæmdinni felst skógrækt á 171 ha í Úlfljótslandi. Fyrirhugað er að nýta svæðið sem útivistarsvæði. Gert er ráð fyrir að gróðursetja 430 þúsund trjáplötur af ýmsum tegundum í samræmi við umsókn.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða heimild til skipulagsfulltrúa fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda aðalskipulags sveitarfélagsins er varðar skógrækt á opnum svæðum. Samkvæmt lögum um mat á umverfisáhrifum nr. 106/200 1. viðauka lið 1.07 er gert ráð fyrir því að nýræktun skóga á allt að 200 ha svæði sem breyti fyrri landnotkun sé tilkynningarskyld í C flokki. Sveitarstjórn telur framlögð gögn uppfylla skilyrði er varðar tilkynningarskyldu málsins vegna umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

Mál nr. 25: Lundaeyjarsund 4 L168718; Skilmálar; Stálvirki; Deiliskipulagsbreyting -  (2104009).

Fyrir liggur umsókn frá Huldu Ólafsdóttur, dags. 29. mars 2021 er varðar breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar innan Hraunborga í Grímsnesi. Í breytingunni felst að krafa um að hús skuli byggð úr timbri verði felld út úr skipulagsskilmálum og gert verði ráð fyrir því að byggja megi hús úr stálvirki einnig.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að heimilt verði að byggja úr timbri, stáli eða öðrum léttum byggingarefnum innan deiliskipulagsins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi. Leitast verði við að kynna breytinguna sérstaklega fyrir sumarhúsafélagi svæðisins sé það til staðar á svæðinu.

Mál nr. 26: Hraunkot (L168252); tilkynningarskyld framkvæmd; fjarskiptamastur -  (2103091).

Fyrir liggur umsókn Gauta Þorsteinssonar, f.h. Mílu ehf. að setja upp fjarskiptamastur og skáp á jörðina Hraunkot L168252 í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir fjarskiptamastri á viðkomandi svæði innan gildandi deiliskipulags fyrir Hraunkot og telur því sveitarstjórn nauðsynlegt að unnin verði breyting á deiliskipulaginu þar sem gert sé ráð fyrir byggingarreit og/eða lóð fyrir umsótt mastur innan svæðisins. Málið verði grenndarkynnt þegar lagfærð gögn berast embætti UTU í samræmi við bókun sveitarstjórnar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar og eftir að breyting hefur tekið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild stjórnartíðinda skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Mál nr. 27: Stangarbraut 20 L202435; Breyting á byggingareit; Deiliskipulagsbreyting -  (2011059).

Fyrir liggur deiliskipulagsbreyting vegna Stangarbrautar 20, L202435 eftir grenndarkynningu. Málið var afgreitt á 214. fundi skipulagsnefndar þar sem málinu var hafnað eftir grenndarkynningu vegna athugasemda frá lóðarhöfum lóðar Stangarbrautar 18. Nú hefur umsækjandi fest kaup á lóð Stangarbraut 18 sbr. meðfylgjandi afsal og falla því framkomnar athugasemdir niður að beiðni hins nýja eiganda. Málið tekið til afgreiðslu á nýjan leik eftir grenndarkynningu, engar aðrar athugasemdir bárust á kynningartíma deiliskipulagsbreytingar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi deiliskipulag eftir grenndarkynningu. Brugðist hefur verið við athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna málsins. Deiliskipulagið mun taka gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 36: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 21-140.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 7. apríl 2021.

f)       Fundargerð nefndar oddvita/sveitarstjóra í yfirstjórn velferðarmála í Árnesþingi (NOS), 14. apríl 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

g)      Fundargerð 1. fundar vinnuhóps um uppbyggingu hjúkrunarheimilis í uppsveitum Árnessýslu, 16. febrúar 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar

2.  Viðauki við fjárhagsáætlun 2021.

Fyrir liggur viðauki við fjárhagsáætlun 2021.

Færðar eru 15 milljónir á milli liða innan fjárhagsáætlunar vegna aukins kostnaðar við skipulagsvinnu í sveitarfélaginu, m.a. vegna iðnaðarlóða, aðal- og deiliskipulagsvinnu sveitarfélagsins og deiliskipulagsvinnu fyrir golfvöllinn og svæðið þar í kring.

Fengið hefur verið tilboð í áætlaðar fjárfestingar sveitarfélags við hreinsimannvirki í Ásborgum og munu fjárfestingarnar kosta 10 milljónum meira en áætlun gerir ráð fyrir. Jafnframt kom upp bilun í vatnsveitu sveitarfélagsins um páskana sem áætlað er að  kosta muni 4 milljónir. Þessar fjárhæðir eru settar í viðauka við fjárhagsáætlun ársins. Ekki er gert ráð fyrir lántöku vegna þessa heldur verður þessi viðbót tekin af handbæru fé sveitarfélagins

3.  Minnisblað og starfslýsing vegna verkefnastjóra Heilsueflandi samfélags.

Fyrir liggur að sveitarstjórn hefur samhljóða ákveðið að afturkalla stjórnvaldsákvörðun sína um áframhaldandi þátttöku í samstarfi um verkefnastjóra heilsueflandi samfélags með uppsveitum. Vegna breytinga á starfsmannamálum sveitarfélagsins hefur sveitarstjórn ákveðið að auglýsa eftir heilsu- og tómstundafulltrúa í 75 – 100% starf nú í vor sem mun sjá um verkefnastjórn fyrir heilsueflandi samfélag, starf eldri borgara og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni í sveitarfélaginu. Oddvita og sveitarstjóra falið að ræða við samstarfssveitarfélögin um framhaldið og sameiginleg verkefni

4.  Drög að gjaldskrá byggingarfulltrúa UTU.

Fyrir liggja drög að gjaldskrá byggingarfulltrúa UTU. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög.

Gert var fundarhlé milli kl. 11:00 og 13:00

5.  Samþykkt um fráveitur í Grímsnes- og Grafningshreppi, fyrri umræða.

Fyrir liggur samþykkt um fráveitur í Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn vísar samþykktinni til annarrar umræðu.

6.  Tilboð í verkið „Endurnýjun lagnar að Björk“.

Fyrir liggur niðurstaða verðkönnunar í endurnýjun hitaveitulagnar að Björk. Þrjú tilboð bárust, frá Jóni Ingileifssyni ehf. kr. 8.025.500, Ólafi Jónssyni kr. 7.345.330 og Suðurtak ehf. kr. 5.892.500. Kostnaðaráætlun í verkið hljóðaði upp á kr. 7.990.000. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka lægsta tilboði, frá Suðurtak ehf. Oddvita falið að undirrita samninginn.

 7.  Samningur um hirðingu túna sveitarfélagsins í landi Stóru-Borgar.

Fyrir liggur að tún sveitarfélagsins í landi Stóru-Borgar voru í mars s.l. auglýst til afnota sumarið 2021 með möguleikum á framlengingu. Ein í umsókn barst frá Antoníu Helgu Guðmundsdóttur og liggja fyrir drög að samningi við hana um hirðingu túnanna.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög og felur sveitarstjóra / oddvita að undirrita samninginn.

8.  Úrskurður nr. 128/2020 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fyrir liggur úrskurður frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 128/2020 þar sem kærð var ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. maí 2020 um beiðni um leiðréttingu á deiliskipulagi fyrir frístundahúsasvæði í landi Ásgarðs.

Eigandi lóðarinnar að Þórsstíg 3 óskaði eftir því með tölvupósti 9. maí 2020 að leiðrétt yrði það sem hann taldi vera skipulagsmistök í landi Ásgarðs. Lögmaður sveitarfélagsins svaraði erindi viðkomandi fyrir hönd sveitarfélagsins þann 22. maí 2020. Lóðareigandi beindi kæru til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis sem síðan framsendi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kæruna með bréfi 4. desember 2020. Með úrskurði nefndarinnar 30. mars s.l. var kærumálinu vísað frá. Í niðurlagi úrskurðarins er vísað til þess að sveitarstjórn eigi eftir að taka lokaákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga vegna málsins.

Af þeim sökum tekur sveitarstjórn fram að lóðareigandi er ósáttur við að ekki sé samræmi milli tilgreiningu á lóðarstærð í afsalsgerningi hans og Búgarðs ehf. frá árinu 2001 annars vegar og í deiliskipulagi svæðisins hins vegar. Fyrrgreind lóð er úr jörðinni Ásgarði í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í nóvember árið 1997 var samþykkt deiliskipulag fyrir frístundabyggðina á jörðinni Ásgarði og voru þá afmarkaðar lóðir við götur sem heita Þórsstígur og Óðinsstígur. Skipulagið var unnið af Búgarði ehf., eiganda jarðarinnar Ásgarðs.

Búgarður ehf. seldi síðan lóðir úr landinu. Þann 20. febrúar 1999 seldi félagið lóðina að Þórsstíg 1 til Þórólfs Magnússonar. Samkvæmt afsali viðkomandi aðila var lóðin tilgreind 10.000 fermetrar að stærð en í þágildandi deiliskipulagi var stærð lóðar tilgreind 7.650 fermetrar. Búgarður ehf. seldi beiðanda síðan lóðina að Þórsstíg 3 þann 16. apríl 2001. Samkvæmt afsalinu var lóðin tilgreind 10.000 fermetrar að stærð en samkvæmt þágildandi deiliskipulagi var lóðin tilgreind 8.000 fermetrar. Síðar seldi Búgarður ehf. líka fleiri lóðir þar sem stærð lóða var tilgreind stærri í afsali en í þágildandi deiliskipulagi, sbr. t.d. sölu á lóðinni Óðinsstígur 7 árið 2004 en sú lóð var í afsali sögð 10.000 fermetrar en tilgreind stærð í þágildandi deiliskipulagi var 7.200 fermetrar. Ekki virðist hafa verið óskað eftir breytingu á þágildandi deiliskipulagi, hvorki af hálfu Búgarðs ehf. né lóðarhafa. Þá leiðir af dómaframkvæmd að kaupanda er skylt að kynna sér gildandi skipulag fyrir kaup.

Samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins eignuðust nýir eigendur Búgarð ehf. árið 2005 og vann félagið tillögu að nýju deiliskipulagi sem samþykkt var sama ár. Náði deiliskipulagið yfir hluta þess svæðis sem áður hafði verið skipulagt og var þar m.a. gert ráð fyrir breytingu á nokkrum þegar stofnuðum frístundahúsalóðum við Óðinsstíg og Þórsstíg. Þau gögn sem eldra skipulagið var unnið eftir voru ekki eins nákvæm og síðar urðu aðgengileg og voru lóðir t.d. ekki hnitsettar. Þetta breyttist með nýrri deiliskipulagstillögu sem unnið var ofan á upprétta hnitsetta loftmynd. Við gerð nýs deiliskipulags árið 2005 virðist sem landeigandi hafi ekki unnið með réttar upplýsingar hvað varðar afmörkun nokkurra lóða miðað við það sem hann hafði áður lýst í afsalsgerningum. Á því ber landeigandi sjálfur ábyrgð.

Eins og fyrr greinir hefur samkvæmt þessu ekki verið samræmi milli tilgreindrar stærðar í afsalsgerningum Búgarðs ehf. og gildandi deiliskipulags og í eftirfarandi nýju deiliskipulagi. Að mati sveitarstjórnar er hér því fyrst og fremst um að ræða mál sem varðar samskipti viðkomandi lóðareigenda og Búgarðs ehf. Hafi fasteign ekki þá eiginleika sem samið var um, þ.e. er ekki að þeirri stærð eða afmörkun sem tilgreint er í eignarheimild viðkomandi, þá er það mál sem seljandi þarf að leysa úr gagnvart kaupanda.

Skipulag á svæðinu var unnið af viðkomandi landeiganda samkvæmt heimild í skipulagslögum og þó að sveitarstjórn hafi samþykkt deiliskipulagstillögu viðkomandi landeiganda þá getur það ekki breytt eignarheimild einstaks lóðareiganda á svæðinu eða skapað sveitarfélaginu ábyrgð á ráðstöfun Búgarðs ehf. á sínum lóðum í gegnum tíðina.

Með vísan til framangreinds hafnar sveitarstjórn samhljóða beiðni eiganda lóðarinnar að sveitarfélagið „leiðrétti skipulagsvillu“ fyrir Þórsstíg 3. Lóðareiganda er bent á að leita til viðsemjanda síns, Búgarðs ehf., hvað umkvörtunarefni hans varðar.

9.  Tölvupóstur frá Yfirfasteignamatsnefnd þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins vegna kæru til nefndarinnar í máli  nr. 4/2021, Ásabraut 40.

Fyrir liggur tölvupóstur frá Yfirfasteignamatsnefnd, dags. 9. apríl 2021 þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins vegna kæru til nefndarinnar í máli  nr. 4/2021, Ásabraut 40.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að senda inn umsögn og gæta hagsmuna sveitarfélagsins.

10.  Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Lagt fram til kynningar.

11.  Vegaúttekt.

Fyrir liggja glærur frá kynningarfundi Ólafs Guðmundssonar frá 13. apríl 2021, þar sem farið var annars vegar yfir vegaúttekt sem gerð var í sveitarfélaginu árið 2016 og hins vegar mögulega vegaúttekt árið 2021.

Sveitarstjórn vísar málinu til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.

12.  Bréf frá Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjón ásamt minnisblaði um mögulega tilhögun á uppsetningu myndavéla í almannarými og véla sem búnar eru til númeralesturs.

Fyrir liggur bréf frá Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjón, dagsett 9. apríl 2021 ásamt minnisblaði um mögulega tilhögun á uppsetningu myndavéla í almannarými og véla sem búnar eru til númeralesturs. Bréfið lagt fram til kynningar.

13.  Vöktun Þingvallavatns.

Fyrir liggja árlegar niðurstöður úr verkefninu „Vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns, gagnaskýrsla fyrir árið 2020“. Skýrslan ásamt fylgigögnum lögð fram til kynningar.

14.  Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni þar sem kallað er eftir upplýsingum um stöðu fjármála sveitarfélaga.

Fyrir liggur bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, dagsett 13. apríl 2021 þar sem kallað er eftir upplýsingum um stöðu fjármála sveitarfélaga. Bréfið lagt fram til kynningar.

15.  Birt til umsagnar frá Fjármála- og efnahagsráðuneyti mál nr. 99/2021, „Stafrænt Ísland - stefna um stafræna þjónustu“.

Stefnan lögð fram til kynningar.

16.  Birt til umsagnar frá Forsætisráðuneyti mál nr. 95/2021, „Drög að reglugerð um Jafnréttisráð - samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna“.

Reglugerðin lögð fram til kynningar.

17.  Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030, 645. mál.

Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.

 18.  Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015-2026, 705. mál.

Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.

 19.  Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um staðsetningu vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands, 707. mál.

Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.

 20.  Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi), 708. mál.

Sveitarstjórn ítrekar fyrri bókun sína frá 3. febrúar s.l. og felur oddvita að skila inn umsögn við frumvarpið í samræmi við umræður á fundinum.

 21.  Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku), 709. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 22.  Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana., 712. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 23.  Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur), 713. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 24.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála (öflun sakavottorðs), 715. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

25.  Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um grunnskóla og framhaldsskóla (fagráð eineltismála), 716. mál.

Frumvarpið lagt fram til kynningar.

26.  Önnur mál.

a)         2102075 - Minni-Borg lóð B L198597; 14 byggingareitir verði lóðir; Deiliskipulagsbreyting.

Lögð er fram að nýju umsókn frá Minni Borgum ehf. er varðar breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Í deiliskipulagsbreytingunni felst að skilgreindar eru lóðir í kringum 14 byggingarreiti sem fyrir eru innan deiliskipulagsins. Engar byggingar hafa verið byggðar innan umræddra byggingarreita. Óskað er eftir því að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

 

Getum við bætt efni síðunnar?