Fara í efni

Sveitarstjórn

520. fundur 02. febrúar 2022 kl. 09:00 - 11:55 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir í fjarveru Bjarna Þorkelssonar
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ása Valdís Árnadóttir

Oddviti leitar afbrigða.

Samþykkt samhljóða
a) Fundargerð umræðufundar um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sem þjóni sveitarfélögum á landsbyggð, 26. janúar 2022.
b) Beiðni um námsvist utan lögheimilissveitarfélags.

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 232. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 26. janúar 2022.

Mál nr. 17, 18, 19, 20, 21, 22, 23 og 29 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 232. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 26. janúar 2022. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 17: Krókur L170822; Gufuaflsvirkjun á Folaldahálsi; Skilgreining iðnaðarsvæðis; Aðalskipulagsbreyting – (2010070).
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna gufuaflsvirkjunar á Folaldahálsi í landi Króks L170822 eftir auglýsingu. Í breytingunni felst skilgreining iðnaðarsvæðis á Folaldahálsi fyrir gufuaflsvirkjun. Raforkuframleiðsla er áætluð allt að 3,9 MW sem nýtt verður fyrir sumarhúsabyggð og mögulega aðra starfsemi í landi Króks. Umsagnir og athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsins. Athugasemdir og umsagnir lagðar fram ásamt samantekt á svörum og viðbrögðum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu og að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 18: Krókur L170822; Gufuaflsvirkjun á Folaldahálsi; Skilgreining iðnaðarsvæðis; Deiliskipulag – (2010071).
Lögð er fram tillaga deiliskipulags vegna Gufuaflsvirkjunar á Folaldahálsi í landi Króks L170822 eftir auglýsingu. Innan deiliskipulags er gert ráð fyrir þremur borholum ásamt gufuskilju, gufuháf ásamt gufulögnum og öðrum búnaði gufuaflsvirkjunar auk stöðvarhúss og kæliturna. Gert er ráð fyrir því að 11 kV jarðstrengur verði lagður um 7 km leið að bænum Króki. Raforkuframleiðsla er áætluð allt að 3,9 MW. Umsagnir bárust á auglýsingatíma deiliskipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt á svörum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 19: Mýrarkot land L200465; Mýrarkot Gerði; Breytt heiti lóðar – (2201029).
Lögð er fram umsókn frá Guðjóni Hermannssyni er varðar breytt heiti landsins Mýrarkots land L200465. Óskað er eftir að landið fái heitið Mýrarkot Gerði.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við breytt staðfang úr Mýrarkot land í Mýrarkot Gerði.

Mál nr. 20: Klausturhólar L168258; Bæjartorfa; Deiliskipulag – (2201053).
Lögð er fram umsókn frá Þórleifu Hoffmann Gunnarsdóttur er varðar nýtt deiliskipulag sem tekur til bæjartorfunnar að Klausturhólum L168258. Í deiliskipulaginu felst skilgreining byggingarheimilda á 7 lóðum og 8 byggingarreitum. Innan svæðisins er m.a. gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsa, skemma og hesthúss.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins. Sveitarstjórn mælist til þess að staðföng innan svæðisins verði skilgreind og að tekið verði tillit til staðfanga sem þegar eru til staðar á svæðinu.

Mál nr. 21: Öndverðarnes; Réttarhólsvegur 46; Deiliskipulag – (2201042).
Lögð er fram umsókn frá Sigurði H. Sigurðssyni er varðar nýtt deiliskipulag að Réttarhálsvegi 46 innan jarðar Öndverðarness L168299. Í deiliskipulaginu felst skilgreining á 3000 fm lóð ásamt byggingarheimildum fyrir íbúðarhús og geymslu allt að 300 fm í heild sinni.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

Mál nr. 22: Kiðjaberg lóð 90, L168955; Deiliskipulagsbreyting – (2201021).
Lögð er fram umsókn frá Bergþóri Jóhannssyni er varðar breytingu á deiliskipulag frístundasvæðis að Kiðjabergi. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit lóðar Kiðjabergs lóð 90 L168955. Samkvæmt umsókn er fyrirhuguð bygging nýs húss á lóðinni utan núverandi byggingarreits. Halda eigi núverandi húsi eftir sem gestahúsi á lóðinni. Bent er á að byggingarreitir í nýrri deiliskipulögum eru oftast að þeirri stærð sem hér er farið fram á.
Sveitarstjórn synjar samhljóða umsókn um breytingu á deiliskipulagi og bendir á að á lóðinni er skráð 53,7 fm sumarhús og 18 fm geymsla. Samkvæmt skilmálum deiliskipulags er heimild fyrir geymsluhúsi/gestahúsi að 40 fm auk frístundahúss innan lóðar. Fyrrgreindar fyrirætlanir eru því umfram byggingaheimildir gildandi deiliskipulags óháð legu byggingarreits.

Mál nr. 23: Kerhólar svæði A, B og C; Frístundabyggð; Endurskoðað deiliskipulag – (2201063).
Lögð er fram umsókn frá Kerhrauni, félagi sumarhúsaeigenda er varðar deiliskipulag sem tekur til Kerhóla svæðis A, B og C. Gildandi deiliskipulag fyrir Kerhraun var staðfest 17. nóvember 1999. Gerðar hafa verið nokkrar breytingar á deiliskipulaginu síðan það tók gildi. Tillagan er sett fram sem nýtt deiliskipulag og tekur til allra þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á upprunalegu deiliskipulagi svæðisins. Með gildistöku þessa deiliskipulags falla úr gildi öll ákvæði eldra deiliskipulags. Tilgangur skipulagsgerðarinnar er að uppfæra eldra skipulag í samræmi við núgildandi lög og skilgreina helstu bygginga- og framkvæmdaskilmála innan svæðisins með skýrum hætti.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

Mál nr. 29: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 22-157.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 19. janúar 2022.
Fundargerð UTU

b) Fundargerð 32. fundar stjórnar Bergrisans, 20. september 2021.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

c) Fundargerð 33. fundar stjórnar Bergrisans, 24. nóvember 2021.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

d) Fundargerð 34. fundar stjórnar Bergrisans, 10. janúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

e) Fundargerð 14. fundar um svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið, 10. desember 2021.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

f) Fundargerð 308. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, 18. janúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

g) Fundargerð 905. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 14. janúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

2. Samþykkt um stjórn og fundarsköp Grímsnes- og Grafningshrepps.
Lögð fram til fyrri umræðu samþykkt um stjórn og fundarsköp Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn vísar samþykktinni til annarrar umræðu.

3. Stýrihópur vegna gerðar loftslagsstefnu og innleiðingu á heimsmarkmiðum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að setja saman stýrihóp vegna gerðar loftslagsstefnu og innleiðingar á heimsmarkmiðum og mun hópurinn starfa út kjörtímabilið.
Hópinn skipa Guðrún Ása Kristleifsdóttir heilsu- og tómstundafulltrúi og er hún jafnframt verkefnastjóri, Björn Kristinn Pálmarsson, Smári Bergmann Kolbeinsson og Guðný Helgadóttir.

4. Samfélagsstefna Grímsnes- og Grafningshrepps 2022 – 2024.
Lögð fram Samfélagsstefna Grímsnes- og Grafningshrepps 2022 – 2024.
Sveitarstjórn vísar Samfélagsstefnunni til kynningar og umræðna hjá nefndum sveitarfélagsins. Heilsu- og tómstundafulltrúa sveitarfélagsins falið að boða til fundar með nefndum og fara yfir stefnuna. Þegar nefndirnar hafa fjallað um stefnuna þá kemur hún aftur fyrir sveitarstjórn.

5. Húsnæðisáætlun Grímsnes- og Grafningshrepps 2022.
Lögð fram húsnæðisáætlun Grímsnes- og Grafningshrepps 2022. Áætlunin var unnin á rafrænum grunni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar. -
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi húsnæðisáætlun fyrir Grímsnes- og Grafningshrepp 2022.
Húsnæðisáætlun

6. Gjaldskrá lykla og lása að hliðum í frístundabyggðum.
Fyrir liggur ný gjalskrá fyrir lykla og lása að hliðum í frístundabyggðum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að hver lás sé seldur á kostnaðarverði kr. 23.000 og hver lykill kosti kr. 1.750.

7. Skýrsla KPMG vegna mats á fjárhagslegum áhrifum skv. 66. grein sveitarstjórnarlaga um miklar fjárfestingar.
KPMG var falið sem aðila ótengdum Grímsnes- og Grafningshreppi að meta áhrif viðbyggingar við Íþróttamiðstöðina á Borg á fjárhag sveitarfélagsins í samræmi við 66. gr. sveitarstjórnarlaga.
Fyrir liggur skýrsla KPMG þar sem gerð er grein fyrir kostnaðaráætlun og forsendum hennar, áhrifum á fjárhag sveitarfélagsins til lengri tíma og áhrifum af rekstrarkostnaði viðbyggingarinnar.
Í skýrslunni kemur fram að fjárfesting vegna viðbyggingar sé veruleg á tímabilinu 2022-2023 ásamt öðrum fjárfestingum á árunum 2022-2025 og eru fjármagnaðar með lántökum og eigin fé, þannig að skuldsetning og afborganir aukast. Niðurstaða KPMG er að samkvæmt áætlun mun handbært fé frá rekstri standa undir afborgunum lána á árunum 2022-2025. Miðað við fjárhagsáætlun 2022-2025 muni sveitarfélagið standast fjárhagsleg viðmið EFS um samspil framlegðar og skuldahlutfalls ásamt viðmið um jafnvægisreglu fyrir utan tímabilið 2020-2022. Þá er niðurstaða KPMG að fjárhagsstaða sveitarfélagsins sé sterk og gangi áætlanir þess eftir þá er útlit fyrir að sveitarfélagið geti staðið við skuldbindingar sínar.
Lagt fram til kynningar.
Skýrsla KPMG

8. Bréf frá Hestamannafélagi Uppsveitanna.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Svavari Jóni Bjarnasyni fyrir hönd starfsstjórnar Hestamannafélags Uppsveitanna, dagsettur 27. janúar 2022 þar sem óskað er eftir fundi með stjórnendum Grímsnes- og Grafningshrepps til þess að ræða áframhaldandi samstarf.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela oddvita og varaoddvita að vinna málið áfram.
Bréf frá Hestamannafélagi Uppsveitanna

9. Erindi frá Bjarna Guðmundssyni fyrir hönd stjórnar SASS um afstöðu til þess að sveitarfélögin á Suðurlandi stofni og reki sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Bjarna Guðmundssyni framkvæmdstjóra Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, dagsettur 18. janúar 2022 fyrir hönd stjórnar SASS þar sem stjórnin óskar eftir að hugmynd um sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar verði tekin til umfjöllunar hjá sveitarstjórnum og jafnframt er óskað eftir afstöðu sveitarstjórna til málsins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að stjórn Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (NOS) verði falið að fjalla um málið og kanna vilja sveitarfélaga til samstarfs um umdæmisráð barnaverndar.
Bréf frá stjón SASS

10. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um aðgengisfulltrúa sveitarfélaga og fjárstuðning til úrbóta í aðgengismálum.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Karli Björnssyni framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsettur 19. janúar 2022 þar sem minnt er á að þann 7. maí 2021 var undirrituð samstarfsyfirlýsing sambandsins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, félags- og barnamálaráðuneytis og Öryrkjabandalags Íslands, um átak sem felur í sér hvatningu til sveitarfélaga um að vinna markvisst að úrbótum í aðgengismálum í samræmi við stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Ragnar Guðmundsson verði aðgengisfulltrúi sveitarfélagsins.
Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

11. Beiðni um styrk til Styrktarfélags Klúbbsins Stróks.
Fyrir liggur bréf frá Fjólu Einarsdóttur forstöðumanni Styrktarfélagsins klúbbsins Stróks, dagsett 20. janúar 2022 þar sem óskað er eftir styrk vegna starfsemi klúbbsins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að styrkja félagið um 50.000.- krónur.
Styrktarbeiðni

12. Bréf frá umboðsmanni barna um mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn.
Fyrir liggur bréf frá Salvöru Nordal umboðsmanni barna, dagsett 28. janúar 2022 þar sem hún hvetur sveitarfélög til þess að virða rétt barna til þátttöku og áhrifa og til að innleiða að fullu ákvæði Barnasáttmálans í allri framkvæmd og ákvarðanatöku á vettvangi þeirra.
Bréfið lagt fram til kynningar.
Bréf frá umboðsmanni barna

13. Bréf frá Sigurði Á. Snævarr um frestun gildistöku reglugerðar nr. 230/2021 um eitt ár.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Sigurði Á. Snævarr, dagsettur 25. janúar 2022 um frestun gildistöku reglugerðar nr. 230/2021 um eitt ár.
Lagt fram til kynningar.

14. Eigendaskipti að hlutum í Límtré Vírnet.
Fyrir liggur bréf frá stjórn Límtré-Vírnets ehf. dagsett 20. janúar 2022 þar sem tilkynnt er að Bingo ehf hafi ákveðið að selja alla hluti sína í Límtré Vírnet ehf. Um er að ræða alls 48.125.000 hluti að nafnvirði 1 kr. hver hlutur, sem jafngilda 35,30% af heildarhlutafé félagsins. Samkvæmt samþykktum félagsins hafa aðrir hluthafar félagsins forkaupsrétt að hlutunum í réttu hlutfalli við hlutafjáreign.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að falla frá forkaupsrétti sveitarfélagsins á hlutunum.
Bréf frá stjórn Límtré-Vírnets ehf

15. Stöðuskýrsla nr. 18 frá uppbyggingarteymi félags- og atvinnumála vegna Covid-19.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Maríu Ingibjörgu Kristjánsdóttur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 21. janúar 2022, þar sem kynnt er 18. stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19.
Skýrslan lögð fram til kynningar.
Stöðuskýrsla

16. Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um almannavarnir (almannavarnastig o.fl.), 181. mál.
Fyrir liggur beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarpi til laga um almannavarnir (almannavarnastig o.fl.), 181. mál.
Frumvarpið lagt fram til kynningar.
Til umsagnar

17. Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál, 20. mál.
Fyrir liggur beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál, 20. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.
Til umsagnar

18. Beiðni Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara, 12. mál.
Fyrir liggur beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn tillögu til þingsályktunar um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara, 12. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.
Til umsagnar

19. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 15/2022, „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 (leiðrétting o.fl.)“.
Fyrir liggur að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 15/2022, „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 (leiðrétting o.fl.)“.
Lagt fram til kynningar.

20. Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 20/2022, „Útlendingalög“.
Fyrir liggur að Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 20/2022, „Útlendingalög“.
Lagt fram til kynningar.

21. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 21/2022, „Frumvarp um breytingu á lögum nr. 78/2002 um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar“.
Fyrir liggur að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 21/2022, „Frumvarp um breytingu á lögum nr. 78/2002 um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar“.
Lagt fram til kynningar.
Frumvarp

22. Önnur mál.

a) Fundargerð umræðufundar um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sem þjóni sveitarfélögum á landsbyggðinni, 26. janúar 2022.
Lögð fram fundargerð umræðufundar um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sem þjóni sveitarfélögum á landsbyggðinni dagsettur 26. janúar 2022. Í samræmi við niðurstöðu fundarins stefna HMS og sambandið að því að boða til stofnfundar húsnæðissjálfseignarstofnunar (HSES) sem starfi í framangreindum tilgangi. Ráðgert er að fundurinn verði þriðjudaginn 15. febrúar kl. 13 og að fundurinn verði fjarfundur.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Smári Bergmann Kolbeinsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.

b) Beiðni um námsvist utan lögheimilissveitarfélags.
Fyrir liggur beiðni frá Reykjavíkurborg um námsvist utan lögheimilissveitarfélags vegna tveggja nemenda, annars vegar í leikskóladeild og hins vegar í grunnskóladeild fyrir tímabilið 1. febrúar til loka skólaársins 2021-2022
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða námsvistina.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl: 11:55

Getum við bætt efni síðunnar?