Fara í efni

Sveitarstjórn

522. fundur 02. mars 2022 kl. 09:00 - 11:40 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir í fjarveru Bjarna Þorkelssonar
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ása Valdís Árnadóttir

Oddviti leitar afbrigða.
Samþykkt samhljóða
a) Umboð oddvita.

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 234. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 25. febrúar 2022.
Mál nr. 11, 12, 13, 14, 15 og 27 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 234. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dagsett 25. febrúar 2022. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 11: Neðan-Sogsvegar 14 L169341; Gestahús; Niðurrif; Frestun; Fyrirspurn – 2111077.
Lagt er fram erindi er varðar beiðni um frestun ákvörðunar um niðurrif gestahúss á lóð Neðan-Sogsvegar 14 L169341.
Ein af forsendum á útgáfu byggingarleyfis fyrir nýju húsi á lóðinni var sú að eldra húsið sem um ræðir yrði fjarlægt af lóðinni. Sveitarstjórn synjar því samhljóða beiðni um frestun ákvörðunar um niðurrif gestahúss á lóð Neðan-Sogsvegar 14 og mælist til þess að húsið verði fjarlægt innan árs.

Mál nr. 12: Úlfljótsvatn L170830; Frístundabyggð; Skilgreining lóða og byggingarreita; Deiliskipulagsbreyting – 2202007.
Lögð er fram umsókn frá SFR-stéttarfélagi í almannaþjónustu vegna nýs deiliskipulags sem tekur til frístundabyggðar við Úlfljótsvatns L170830. Í dag er í gildi deiliskipulagsuppdráttur frá árinu 1993. Deiliskipulag frístundabyggðar við Úlfljótsvatn, dagsett 16.6.1993. Á því skipulagi var gert ráð fyrir alls 26 húsum, 25 sumarhúsum og svo Úlfljótsskála sem áður var þjónustumiðstöð. Við gildistöku þessa skipulags fellur úr gildi eldra skipulag og uppdrættir. Innan skipulagsins er gert ráð fyrir heimild fyrir uppbyggingu allt að 29 bygginga, frístundahús og þjónustuhús auk leiksvæða og aðstöðu fyrir tjaldsvæði.
Sveitarstjórn telur að lóðarstærðir og byggingarskilmálar innan deiliskipulagsins samræmist ekki stefnu eða markmiðum gildandi aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps með fullnægjandi hætti. Sveitarstjórn frestar því afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að annast samskipti við hönnuð deiliskipulagsins.

Mál nr. 13: Mosfell 168267 L168267; Endurheimt votlendis; Framkvæmdarleyfi – 2202026.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi frá Landgræðslunni í landi Mosfells L168267. Í framkvæmdinni felst endurheimt á fyrrum votlendi í landi Mosfells. Svæðið er um 50 ha að stærð og skiptist í tvö svæði. Fyrirhugað er að fylla upp í/stífla um 3.665 metra af skurðum. Áhersla verður lögð á að vanda til verka, þjappa efninu vel ofan í skurðstæðið svo að fyllingar skolist ekki til og að öryggi manna og dýra sé gætt. Eins á að taka til hliðar gróður úr skurðum og ofan af ruðningum til að þekja yfirborð rasksvæða og flýta þannig fyrir uppgræðslu þeirra. Verkið verður unnið með beltagröfu og einungis notaðir gamlir ruðningar og efni á endurheimtarsvæðinu til að fylla upp í skurðina.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis vegna endurheimtar á votlendi svæðisins sem umsóknin tekur til og samþykkir að framkvæmdaleyfið verði kynnt á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 auk þess sem leitað verði umsagnar Vegagerðarinnar.

Mál nr. 14: Kothólsbraut 24 L202220; Nýtingarhlutfall; Fyrirspurn – 2202034.
Lögð er fram fyrirspurn frá Rúnari Inga Guðjónssyni er varðar Kothólsbraut 24 í Öndverðarnesi. Óskað er eftir því að B-rými verði ekki talið með í nýtingarhlutfalli Kothólsbrautar 24 því ekki hefur verið brugðist við fyrirvara Skipulagsstofnunar um að skilmálar um nýtingarhlufall hafi verið yfirfarnir innan gildandi deiliskipulags fyrir svæðið.
Sveitarstjórn telur að umrædd skilgreining á nýtingarhlutfalli hafi einnig átt við árið 2006 þegar deiliskipulag svæðisins tók gildi. Líkt og fram kemur í tilkynningu Skipulagsstofnunar um málið var viðkomandi skilgreining á nýtingarhlutfalli felld út úr byggingarreglugerð árið 2013 en tekin aftur upp innan skipulagsreglugerðar árið 2016. Að mati sveitarstjórnar tekur því umræddur fyrirvari til þess að ekki hafi verið sérstaklega tilgreint innan deiliskipulagsáætlana á milli áranna 2013-2016 að B-rými skyldu ekki teljast til nýtingarhlutfalls lóða. Sveitarstjórn mælist til þess að farið verði að skilmálum deiliskipulags og kröfum skipulagsreglugerðar.

Mál nr. 15: Umsögn GOGG um breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022; Umsagnarbeiðni – 2202053.
Lögð er fram beiðni um umsögn vegna breytinga á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022. Í breytingunni felst skilgreining á verslunar- og þjónustusvæði fyrir Bæjargil og land Húsafells 1.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við framlagða breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar.

Mál nr. 29: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 22-159.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 16. febrúar 2022.

b) Fundargerð nefndar oddvita/sveitarstjóra í yfirstjórn velferðarmála í Árnesþingi (NOS), 15. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

c) Fundargerð 1. fundar seyrustjórnar, 1. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

d) Fundargerð 35. fundar stjórnar Bergrisans, 31. janúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

e) Fundargerð 36. fundar stjórnar Bergrisans, 15. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

f) Fundargerð 49. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 11. febrúar 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð

2. Erindi frá Birni Snorrasyni og Ingibjörgu Harðardóttur eigendum jarðarinnar Bjarkar II um breytta vegtengingu um svokallaðan vatnsveg.
Fyrir liggur erindi frá Birni Snorrasyni og Ingibjörgu Harðardóttur eigendum jarðarinnar Bjarkar II, dagsett 24. febrúar 2022, um breytta vegtengingu um svokallaðan vatnsveg sem liggur að vatnslind sveitarfélagsins í landi Bjarkar I.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela Ragnari Guðmundssyni umsjónarmanni framkvæmda og aðveitna að skoða nýja vegtengingu, meta kosti hennar og galla ásamt því að kostnaðarmeta verkefnið. Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins.
Ingibjörg Harðardóttir vék sæti við afgreiðslu málsins.
Ný vegtenging
Núverandi vegtenging

3. Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar nr. 13/2021.
Lagður fram til kynningar úrskurður yfirfasteignamatsnefndar frá 24. febrúar 2022 í máli nr. 13/2021 vegna kæru eigenda Oddsholts 53, Grímsnes- og Grafningshreppi, um álagningu fasteignaskatta.
Úrskurður

4. Afrit af bréfi frá Þjóðskrá Íslands þar sem kynnt er breytt fasteignamat sumarbústaðar við Finnheiðarveg 15.
Lagt fram til kynningar afrit af bréfi frá Þjóðskrá Íslands til eiganda eigna að Finnheiðarvegi 15, dagsett 16. febrúar 2022 þar sem kynnt er breytt fasteignamat eignarinnar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að óska eftir rökstuðningi frá Þjóðskrá Íslands fyrir breyttu fasteignamati.
Bréf frá Þjóðsskrá Íslands

5. Íbúaskrá Grímsnes- og Grafningshrepps frá 1. desember 2021.
Lögð fram til kynningar íbúaskrá Grímsnes- og Grafningshrepps frá 1. desember 2021 frá Þjóðskrá Íslands. Samkvæmt íbúaskránni var íbúafjöldi sveitarfélagsins 530 þann 1. desember 2021.

6. Bréf frá Lögfræðistofu Reykjavíkur fyrir hönd Svanfríðar Sigurþórsdóttur og Birki Grétarssonar vegna skipulagsbreytingar – Bjarnastaðir I, Básar, Heiðarbrún 10.
Fyrir liggur bréf frá Lögfræðistofu Reykjavíkur fyrir hönd Svanfríðar Sigurþórsdóttur og Birki Grétarssonar, dagsett 9. febrúar 2022, vegna skipulagsbreytingar – Bjarnastaðir I, Básar, Heiðarbrún 10.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins að svara bréfinu í samráði við lögmann sveitarfélagsins, Óskar Sigurðsson hrl.
Bréf frá Lögfræðisstofu Reykjavíkur

7. Samráðs- og upplýsingafundir með sveitarstjórnarmönnum til undirbúnings stefnumótunarvinnu á landsþingi sambandsins í september 2022.
Lagt fram til kynningar upplýsingar um samráðs- og upplýsingafundi með sveitarstjórnarmönnum til undirbúnings stefnumótunarvinnu á landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga í september 2022.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að öllum kjörnum fulltrúum standi til boða að taka þátt í fundunum.
Samráðs- og upplýsingafundir með sveitarstjórnarmönnum

8. Stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar fyrir landsbyggðina.
Fyrir liggur að áhugi er á meðal margra sveitarfélaga á landsbyggðinni að koma sameiginlega á fót húsnæðissjálfseignarstofnun. Hlutverk hennar verður að eiga og reka almennar íbúðir á landsbyggðinni ásamt því að stuðla að frekari uppbyggingu íbúða á á þeim stöðum þar sem skortur á leiguhúsnæði.
Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í að stofna fyrirhugaða húsnæðissjálfseignarstofnun með fjórum atkvæðum. Ingibjörg Harðardóttir greiðir atkvæði á móti.
Sveitarstjórn samþykkir að Smári Bergmann Kolbeinsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á framhaldsstofnfundi sem haldinn verður þann 4. mars n.k.
Stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar fyrir landsbyggðina 

9. Aðalfundur Samorku 2022.
Fyrir liggur bréf frá framkvæmdastjóra Samorku, dagsett 14. febrúar 2022, um að aðalfundur Samorku verði haldinn í Norðurljósasal Hörpu þriðjudaginn 15. mars 2022.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Smári Bergmann Kolbeinsson og Ragnar Guðmundsson verði fulltrúar sveitarfélagsins á fundinum.
Aðalfundur Samorku 2022.

10. Beiðni Innviðaráðuneytisins um umsögn vegna beiðni um undanþágu vegna fjarlægðar frá vegi Neðan-Sogsvegar 61.
Fyrir liggur beiðni Innviðaráðuneytisins, dagsett 14. febrúar 2022, um umsögn sveitarfélagsins vegna beiðni um undanþágu vegna fjarlægðar frá vegi Neðan-Sogsvegar 61.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að undanþága er varðar fjarlægð frá vegi verði samþykkt.
Beiðni Innviðaráðuneytisins um umsögn

11. Bréf til sveitarstjórna frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna almenns eftirlits með fjármálum sveitarfélaga á árinu 2022.
Lagt fram til kynningar bréf til sveitarstjórna frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dagsett 21. febrúar 2022, vegna almenns eftirlits með fjármálum sveitarfélaga á árinu 2022.
Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

12, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 39/2022, „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011“.
Fyrir liggur að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 39/2022, „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011“.
Lagt fram til kynningar.

13. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 42/2022, „Breyting á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar“.
Fyrir liggur að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 42/2022, „Breyting á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar“.
Lagt fram til kynningar.

14. Önnur mál.
a) Umboð oddvita
Sveitarstjórn staðfestir að oddviti hafi haft umboð á kjörtímabilinu til að undirrita samninga og skjöl fyrir hönd sveitarfélagsins, s.s. lóðarleigusamninga, kaupsamninga, afsöl, o.fl., og muni hafa það umboð út kjörtímabilið.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl: 11:40.

Getum við bætt efni síðunnar?