Fara í efni

Sveitarstjórn

539. fundur 18. janúar 2023 kl. 09:00 - 12:00 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
  • Þorkell Þorkelsson í fjarveru Dagnýjar Davíðsdóttur
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir

Oddviti leitar afbrigða.

Samþykkt samhljóða.

a) Fundargerð aukafundar Héraðsnefndar Árnesinga bs., 10. janúar 2023.

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 252. fundar skipulagsnefndar UTU, 11. janúar 2023.
Mál nr. 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19 og 26 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 252. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 11. janúar 2023.
Mál nr. 12, Snæfoksstaðir (L168278); byggingarheimild; fjarskiptamastur – 2301005.
Fyrir liggur umsókn Gautar Þorsteinssonar fyrir hönd Nova hf. með umboð landeiganda, móttekin 21.12.2022 um byggingarheimild til að reisa 8m fjarskiptamastur á jörðinni Snæfoksstaðir (L168278) í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um grenndarkynningu. Málið verði kynnt lóðarhöfum Kolgrafarahólsvegar 2, 4 og 6 og Austurheiðarvegar 8, L169527.
Mál nr. 13, Borg þéttbýli; Verslunar-, þjónustu- og íbúðalóðir við Miðtún; Deiliskipulag. – 2210039.
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi sem tekur til þéttbýlisins að Borg í Grímsnesi. Um er að ræða 6 nýjar verslunar- og þjónustulóðir þar sem á fjórum er heimild fyrir íbúðum á efri hæð. Í skilgreiningu á miðsvæði kemur fram að gera megi ráð fyrir blöndu af verslun og þjónustu og einnig íbúðum, aðallega á efri hæðum húsa. Æskilegt er að atvinnustarfsemi geti þróast innan svæðisins í bland við íbúðabyggð. Starfsemi á lóðunum getur verið af ýmsum toga og skal horft til skilgreiningar á miðsvæði og markmiða þessa skipulags þegar mat er lagt á það hvaða starfsemi hentar innan reitsins. Má þar nefna gistiheimili, veitinga- og menningartengdan rekstur, litlar verslanir með áherslu á framleiðslu úr héraði, handverksiðnað, smærri verkstæði, gallerí o.fl. Einnig er gert ráð fyrir eldsneytissölu og hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Skipulagstillagan var kynnt frá 1.12.22 - 22.12.22 engar athugasemdir bárust á kynningartíma skipulagsins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur fyrir gerð deiliskipulagstillögunnar liggja fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins
Mál nr. 14, Minni-Bær beitiland L168265; Breyting landnotkunar; Fyrirspurn – 2301010.
Lögð er fram fyrirspurn vegna Minni-Bæjar beitilands, L168265. Í fyrirspurninni felst að óskað er eftir því að unnin verði óveruleg breyting á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps sem tekur til viðkomandi lands með þeim hætti að frístundasvæði breytist í landbúnaðarsvæði L3.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við framlagða fyrirspurn og leggur til að unnin verði óveruleg breyting á aðalskipulagi sem tekur til viðkomandi landspildu með fyrirvara um skriflegt samþykki landeigenda aðliggjandi landeigna.
Mál nr. 15, Álfaskeið L233749; Framkvæmdarleyfi – 2301012.
Lögð er fram umsókn frá Skógarálfum ehf. um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á landi Álfaskeiðs. Óskað er eftir áframhaldandi framkvæmdarleyfi til viðbótar gróðursetningar á 57,7 ha. Nú þegar er búið er að gróðursetja í um 75 ha sem búið er að veita framkvæmdarleyfi fyrir. Áætlunin gerir ráð fyrir því að gróðursett verði í samtals í 132,7 ha sbr. meðfylgjandi ræktunaráætlun.
Við gildistöku nýs aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps kemur fram undir almennum skilmálum er varðar skógræktar- og landgræðslusvæði, að skógrækt er heimil á landbúnaðarlandi í flokkum L2 og L3 og skjólbeltarækt er heimil alls staðar í byggð. Viðkomandi svæði fellur undir þá landnýtingu. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að málið verði grenndarkynnt með sambærilegum hætti og fyrra framkvæmdaleyfi sem gefið var út vegna skógræktar í umræddu landi.
Mál nr. 16, Grænahlíð opið svæði L233882; Veglagning; Framkvæmdarleyfi – 2212095.
Lögð er fram beiðni frá Brúarholti ehf. er varðar framkvæmdaleyfi fyrir veglagningu í landi Grænuhlíðar. Framkvæmdin byggir á gildandi deiliskipulagi svæðisins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr.123/2010 þar sem allar helstu forsendur leyfisins koma fram innan gildandi deiliskipulags Grænuhlíðar.
Mál nr. 17, Brúarey 3 L225702; Úr sumarhúsi í íbúðarhús; Deiliskipulagsbreyting – 2212092.
Lögð er fram umsókn frá Ara Sigurðssyni er varðar breytingu á deiliskipulagi að Brúarey 3, L225702. Í breytingunni felst að gert verði ráð fyrir íbúðarhúsi í stað frístundahúss innan deiliskipulags.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagðar breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt innan deiliskipulagssvæðisins.
Mál nr. 18, Brekkur 8 L225993 og Brekkur 9 L219238; Stækkun bygg.reita; Deilisk.breyting – 2212069.
Lögð er fram umsókn um óverulega breytingu á deiliskipulagi Efri-Brúar sem tekur til lóða Brekkur 8, L225993 og Brekkur 9, L219238. Í breytingunni felst að byggingarreitir beggja lóða eru skilgreindir í 10 metra fjarlægð frá innbyrðis lóðarmörkum á milli lóðanna. Lóðirnar eru í eigu sama aðila.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagðar breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt sumarhúsafélagi svæðisins.
Mál nr. 19, Villingavatn L170953; Villingavatn L170831; Stækkun lóðar – 2212094.
Lögð fram umsókn Kjartans G. Jónssonar er varðar stækkun lóðarinnar Villingavatn L170953. Lóðin er í dag skráð 5.533 fm en verður 8.053 fm eftir stækkun. Stækkunin kemur úr jörðinni Villingavatn L170831.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við framlagða tillögu að stækkun lóðarinnar.
Mál nr. 26., Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 23 – 176 – 2212003F.
Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 23-176 lögð fram til kynningar.
b) Fundargerð 1. fundar vinnuhóps um Atvinnumálastefnu Uppsveitanna, 29. september 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
c) Fundargerð 2. fundar vinnuhóps um Atvinnumálastefnu Uppsveitanna, 10. nóvember 2022.                                                                                                                                  Fundargerðin lögð fram til kynningar.
d) Fundargerð aðalfundar Bergrisans bs., 15. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
e) Fundargerð 47. fundar stjórnar Bergrisans bs., 30. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
f) Fundargerð 48. fundar stjórnar Bergrisans bs., 19. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
g) Fundargerð 1. stjórnar Arnardrangs hses., 19. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
h) Fundargerð félagafundar Sorpstöðvar Suðurlands, 4. janúar 2023.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
i) Fundargerð 22. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis, 22. nóvember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
j) Fundargerð 23. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis, 15. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
k) Fundargerð 54. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 12. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
l) Fundargerð 916. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 14. desember 2022.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
m) Gullna hringborðið, fundur á Hakinu Þingvöllum, 23. nóvember 2022, minnisblað.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
2. Reglugerð Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggja drög að nýrri reglugerð fyrir Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps. Í nýrri reglugerð er m.a. skerpt á ákvæðum um staðsetningu tengigrindar og aðgengi starfsmanna veitunnar að inntaksrými.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög.
3. Viðmiðunarreglur fyrir Drekagil, frístundaheimili Kerhólsskóla.
Lagðar fram til staðfestingar viðmiðunarreglur fyrir Drekagil, frístundaheimili Kerhólsskóla.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða viðmiðunarreglurnar.
4. Starfsskrá frístundastarfs í Grímsnes- og Grafningshreppi vegna ársins 2023.
Lögð fram til staðfestingar starfsskrá frístundastarfs í Grímsnes- og Grafningshreppi vegna ársins 2023.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða starfsskrána.
5. Skipan fulltrúa í fjallskilanefnd.
Fyrir liggur að Antonía Helga Guðmundsdóttir hefur beðist lausnar frá störfum sem aðalmaður í fjallskilanefnd Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Guðrún S. Sigurðardóttir verði aðalmaður í stað Antoníu Helgu út kjörtímabilið 2022-2026. Antonía Helga Guðmundsdóttir verður jafnframt varamaður Guðrúnar. Sveitarstjórn leggur til að fjallskilanefnd geri tillögu að formanni nefndarinnar og felur sveitarstjóra að boða til fundar með fjallskilanefnd.
6. Erindi til sveitarstjórnar frá Örvari Hólmarssyni vegna Minniborga ehf.
Fyrir liggur erindi frá Örvari Hólmarssyni fyrir hönd Minniborga ehf., þar sem farið er þess á leit við sveitarstjórn að sveitarfélagið færi gjalddaga fasteignagjalda sem nú eru í vanskilum til 1. maí 2023.
Sveitarstjórn hafnar erindinu samhljóða og felur sveitarstjóra ásamt lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl., að svara erindinu.
7. Bréf frá Innviðaráðuneytinu er varðar barnaverndarþjónustu og umdæmisráð.
Lagt fram til kynningar bréf frá Innviðaráðuneytinu dagsett 13. desember 2022 vegna breytinga á barnaverndarlögum nr. 80/2002 sem fjalla um barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar. Í bréfinu er að finna leiðbeiningar til sveitarstjórna varðandi endurskoðun samþykkta um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga af þessu tilefni.
8. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í flokki II að Stapa Lóð 10 fnr 231-5676.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 16. desember 2022, um umsögn vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í flokki II að Stapa Lóð 10 fnr 231-5676.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II að Stapa lóð 10, fnr 231-5676 á þeim grundvelli að leyfisveitingin samræmist ekki heimildum gildandi deiliskipulags svæðisins.
Sveitarstjórn bendir á að heimildir aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 gera ráð fyrir að gististarfsemi geti verið á frístundasvæðum. Þó er gerð krafa um að gististarfsemi sé skilgreind í skilmálum gildandi deiliskipulags. Heimildir fyrir gististarfsemi innan deiliskipulags eru háðar því að fjöldi bílastæða innan lóðar sé fullnægjandi og að enginn lóðarhafi innan deiliskipulagssvæðisins leggist gegn starfseminni við breytingu á deiliskipulagi eða við gerð nýs deiliskipulags.
9. Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála, tilkynning um kæru mál nr. 147/2022.
Fyrir liggur tilkynning um kæru nr. 147/2022 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála þar sem kærð er stjórnsýsluleg „meðferð sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps í tengslum við stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélagsins og samþykktar breytingar á aðal- og deiliskipulagi sem brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, skipulagslögum og margvíslegum reglum stjórnsýslulaga.“
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela Vigfúsi Þór Hróbjartssyni skipulagsfulltrúa að svara kærunni í samráði við lögmann sveitarfélagsins Óskar Sigurðsson hrl.
10. Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála, tilkynning um kæru mál nr. 150/2022.
Fyrir liggur tilkynning um kæru nr. 150/2022 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um samþykkt á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar Kerhraun C88 (Hraunborg C88). Vegna framkominnar stöðvunarkröfur var farið fram á að úrskurðarnefndin fengi í hendur gögn er málið varðar fyrir 6. janúar s.l., Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi skilaði inn umbeðnum gögnum fyrir tiltekinn tíma.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela Vigfúsi Þór Hróbjartssyni skipulagsfulltrúa ásamt lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að svara kærunni fyrir hönd sveitarfélagsins.
11. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, bráðabirgðaúrskurður í máli nr. 150/2022.
Fyrir liggur bráðabirgðaúrskurður frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í mál nr. 150/2022 þar sem kærð var ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um samþykkt á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar Kerhraun C88 (Hraunborg C88), ásamt því að farið var fram á stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa. Bráðabirgðaniðurstaða nefndarinnar var að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar. Lagt fram til kynningar.
12. Stefnumótun Héraðsskjalasafns Árnesinga fyrir árin 2023-2028.
Lögð er fram til kynningar skýrsla um stefnumótun Héraðsskjalasafns Árnesinga fyrir árin 2023-2028. Sveitarstjórn þakkar starfsmönnum Héraðsskjalasafnsins vel unna og metnaðarfulla skýrslu um stefnumótun safnsins og tekur heilshugar undir þá framsýni sem þar kemur fram.
13. Sérdeild Suðurlands, Setrið, uppsögn á þjónustusamningi.
Fyrir liggur bréf frá fjölskyldusviði sveitarfélagsins Árborgar, dagsett 27. desember 2022 þar sem fram kemur að þjónustusamningi um sérdeild Suðurlands, Setrið er sagt upp.
Lagt fram til kynningar.
14. Tilkynning frá mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna sérdeildar Suðurlands.
Fyrir liggur bréf frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, dagsett 29. desember 2022, vegna þjónustusamnings um sérdeild Suðurlands vegna mögulegrar afturköllunar staðfestingar mennta- og barnamálaráðherra á reglum um innritun og útskrift nemenda vegna sérdeildar Suðurlands.
Lagt fram til kynningar.
15. Svæðisskipulag Suðurhálendis, ósk um umsögn um greinargerð og umhverfisskýrslu.
Fyrir liggur tölvupóstur frá svæðisskipulagsnefnd Suðurhálendis, dagsettur 13. janúar 2023, þar sem óskað er eftir umsögnum frá sveitarfélögum sem tilheyra Suðurhálendi fyrir 12. febrúar 2023.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við framlagða greinargerð og umhverfisskýrslu.
16. Aukaaðalfundur Bergrisans bs.
Fyrir liggur tölvupóstur, dagsettur 10. janúar 2023, frá Írisi Ellertsdóttur, verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks hjá Bergrisanum bs., þar sem kemur fram að stjórn Bergrisans hefur samþykkt að boða til aukaaðalfundar þann 20. febrúar næstkomandi klukkan 13-16.
Lagt fram til kynningar og sveitarstjóra falið að skila inn kjörbréfum í samræmi við bókun frá 527. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 1. júní 2022.
17. Skýrsla um stjórnsýslu og rekstur Bergrisans bs.
Fyrir liggur skýrsla um stjórnsýslu og rekstur Bergrisans bs.
Lagt fram til kynningar.
18. Önnur mál.
a) Fundargerð aukafundar Héraðsnefndar Árnesinga bs., 10. janúar 2023.
Lögð er fram til kynningar fundargerð aukafundar Héraðsnefndar Árnesinga bs. sem haldinn var 10. janúar 2023.
Einnig liggur fyrir bréf frá formanni framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar, Helga Kjartanssyni, dagsett 16. janúar 2023. Í bréfinu er óskað eftir samþykki sveitarstjórna sem að Héraðsnefndinni standa á kaupum og framkvæmdum og þeim lánsskuldbindingum sem þeim fylgja vegna kaupa á Hellismýri 8 í Sveitarfélaginu Árborg, fyrir starfsemi Héraðsskjalasafnsins.
Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.


Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 12:00.

Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?