Fara í efni

AUGLÝSING UM SKIPULAGSMÁL

AUGLÝSING UM SKIPULAGSMÁL

frekari upplýsingar má finna á vef UTU : SKIPULAGSAUGLÝSING SEM BIRTIST 13. JÚLÍ 2023

Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Samkvæmt 30. og 40.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar skipulags- og matslýsingar eftirfarandi aðalskipulagsbreytinga, tillaga aðalskipulagsbreytingar og tillaga nýs deiliskipulags.

1. Brúarhlöð; Skipulagslýsing; Deili- og aðalskipulagsbreyting - 2306093

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti á fundi sínum þann 29. júní 2023 að kynna skipulags- og matslýsingu sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016-2032 auk nýs deiliskipulags. Breytingin tekur til Brúarhlaða í Hrunamannahreppi. Aðalskipulagsbreytingin og deiliskipulagið nær yfir nýtt verslunar- og þjónustusvæði við Brúarhlöð, sunnan Skeiða- og Hrunamannavegar. Breytt landnotkun er innan jarðarinnar Brúarhlöð L234128. Stærð skipulagssvæðis er um 6 ha. Við Brúarhlöð er bílastæði þar sem ferðamenn stoppa og skoða gljúfur Hvítár. Landeigandi vill byggja upp þjónustu á staðnum, s.s. gistingu, veitingar, stækka bílastæði og byggja upp gönguleiðir um svæðið og út í eyjar í Hvítá þar sem gerð verða örugg útsýnissvæði. Heildarbyggingarmagn getur verið allt að 1000 m2.

2. Litla-Fljót 1 L167148; Verslunar- og þjónustusvæði; Skipulagslýsing - 2305081

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 5. júlí 2023 að kynna skipulagslýsingu sem tekur til breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins á landi Litla-Fljóts 1. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi felur í sér breytingu á landnotkunarflokki svæðisins yfir í verslun og þjónustu. Breyting verður gerð á greinagerð aðalskipulags og á uppdrætti. Á svæðinu hefur landeigandi uppi áform um að byggja allt að 20 lítil gistihús til útleigu í nokkrum áföngum. Aðkoma er um veginn Litla-Fljót. Fyrirhuguð gistihús verða á einni hæð. Viðfangsefni deiliskipulagsins er m.a. að afmarka lóðir og byggingarreiti ásamt því að skilgreina fyrirkomulag aðkomu og setja þau ákvæði sem ástæða er til í deiliskipulagi.

3. Bitra land L200842; Breytt landnotkun; Aðalskipulagsbreyting – 2302064

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum þann 28. mars 2023 að kynna skipulagslýsingu sem tekur til breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins innan Bitru lands, L200842. Alls er um að ræða um 43 ha lands sem nú er skilgreint sem landbúnaðarsvæði og um 21 ha lands frístundabyggð (F21). Í breytingunni felst að svæðið verði skilgreint landbúnaðarsvæði og um 5 ha verslunar- og þjónustusvæði. Markmiðið er m.a. að koma til móts við vaxandi eftirspurn þeirra sem vilja búa í dreifbýli og auka þannig fjölbreytni í búsetu. Gert er ráð fyrir að vinna deiliskipulag fyrir svæðið samhliða aðalskipulagsbreytingunni.

4. Reykholt; Verslunar- og þjónustusvæði; Skipulags- og matslýsing – 2306088 / 2306089

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 5. júlí 2023 að kynna skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 og deiliskipulags innan þéttbýlisins í Reykholti. Á Skólavegi 1 í Reykholti er starfrækt 40 herbergja hótel og er stefnan að stækka það í 120 herbergi á þremur hæðum. Gatan Tungurimi hefur verið hönnuð og var færð um 15 m til norðvesturs, landnotkun og lóðir umhverfis götuna eru aðlagaðar að breyttri legu hennar. Þá verður gamla leikskólanum á Reykholtsbrekku 4 breytt úr samfélagsþjónustu í verslunar- og þjónustusvæði og settir skilmálar fyrir lóðina í breyttu deiliskipulagi.

5. Útey 1 L167647; Skipulagslýsing; Aðalskipulagsbreyting – 2306076

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 5. júlí 2023 að kynna skipulagslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 og nýs deiliskipulags í landi Úteyjar. Frístundasvæði F32 og F37 verða stækkuð og afmörkun þeirra breytist. Þá verða sett inn tvö verslunar- og þjónustusvæði fyrir ferðaþjónustu. Samhliða verða felld út tvö efnistökusvæði. Í deiliskipulagi verður gerð nánari grein fyrir uppbyggingu m.a. lóðaskipan, byggingarskilmálum og öðrum ákvæðum í samræmi við breytt aðalskipulag.

6. Minni-Borg golfvöllur ÍÞ5 og Landbúnaðarsvæði L3, breytt landnotkun, nýtt íþróttasvæði og verslunar- og þjónustusvæði við Borg. Aðalskipulagsbreyting – 2303019

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi sínum þann 10. júlí 2023 að kynna tillögu aðalskipulagsbreytingar vegna breyttrar landnotkunar á svæði sunnan þjóðvegar við þéttbýlið að Borg í Grímsnesi. Breytingin tekur til skilgreiningar á verslunar- og þjónustusvæði innan núverandi golfvallarsvæðis þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir gistingu auk annarrar þjónustu við notendur golfvallarins. Að auki er skilgreint nýtt íþróttasvæði syðst á svæðinu sem tekur til uppbyggingar á hesthúsasvæði og aðstöðu fyrir hestaíþróttir.

7. Svínavatn 3 L232042; Íbúðarlóðir; Deiliskipulag – 2305076

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi sínum þann 29. júní 2023 að kynna tillögu nýs deiliskipulags sem tekur til lóðar Svínavatns 3, L232042. Innan deiliskipulagsins er gert ráð fyrir að skipta 5 ha landi í 2 lóðir, 3,5 ha og 1,5 ha á stærð og að þar geti risið 1 íbúðarhús á hvorri lóð og á þeirri stærri vinnuskemma og lítil gestahús til útleigu.

Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér auglýstar tillögur eftirfarandi deiliskipulagsáætlana:

8. Sunnuhlíð: íbúðarsvæði; Endurskoðun deiliskipulags – 2306086

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti á fundi sínum þann 29. júní 2023 að auglýsa tillögu að heildarendurskoðun deiliskipulags íbúðarsvæðis í landi Sunnuhlíðar, vestan núverandi þéttbýlis að Flúðum. Deiliskipulagið tekur til íbúðarsvæðis ÍB8, verslunar- og þjónustusvæðis VÞ5, iðnaðarsvæðis I3 og opins svæðis OP5 að hluta. Innan svæðisins er gert ráð fyrir fjölbreyttri íbúðarbyggð í formi einbýlishúsa, parhúsa og raðhúsa. Á verslunar- og þjónustureit er gert ráð fyrir heimild fyrir uppbyggingu gistiþjónustu. Á iðnaðarreit er gert ráð fyrir uppbyggingu hreinsivirkis fyrir svæðið og á opnum svæðum er gert ráð fyrir heimildum fyrir uppbyggingu göngu- og reiðstíga. Samhliða var samþykkt óveruleg breytingu á aðalskipulagi Hrunamannahrepps sem tekur til viðkomandi svæðis.

9. Hraunvellir L203194; Íbúðarlóðir, byggingarreitir gistihúsa og útihúsa; Deiliskipulag – 2306034

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum þann 21. júní 2023 að auglýsa tillögu nýs deiliskipulags sem tekur til Hraunvalla L203194. Fyrir er deiliskipulag í gildi innan svæðisins. Við gildistöku nýs deiliskipulags fellur eldra úr gildi. Í skipulaginu felst m.a. skilgreining lóða og byggingarreita fyrir íbúðarhús, útihús og gistihús.

10. Öndverðarnes 1 L168299; Neðan-Sogsvegar 1A og 1B; Deiliskipulag – 2305088

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi sínum þann 29. júní 2023 að auglýsa tillögu nýs deiliskipulags sem tekur til jarðar Öndverðarness 1. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir tveimur lóðum undir staðföngum Neðan-Sogsvegar 1A (9.946 fm) og 1B (13.479 fm). Skilgreindir eru byggingarreitir auk byggingarheimilda þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir frístundahús ásamt aukahúsum á lóð innan hámarksnýtingarhlutfalls 0,03.

Samkvæmt 32. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst niðurstaða sveitarstjórna vegna eftirfarandi aðalskipulagsbreytinga.

11. Sunnuhlíð: Breytt stærð ÍB 8 og VÞ5: Óveruleg breyting á aðalskipulagi – 2306092

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti á fundi sínum þann 29. júní 2023 tillögu óverulegrar aðalskipulagsbreytingar sem tekur til aðalskipulags Hrunamannahrepps 2016-2032. Breytingin er unnin í tengslum við endurskoðun deiliskipulags Sunnuhlíðar. Í breytingunni felst óveruleg innbyrðis tilfærsla landnotkunarfláka á óbyggðu svæði auk þess sem verslunar- og þjónustureitur VÞ5 minnkar á kostnað íbúðarsvæðis ÍB8 og opins svæðis OP5. Afmörkun VÞ5 breytist lítillega til norðurs inn á íbúðarsvæði á móti til að nýta betur landhalla innan svæðisins. Niðurstaða sveitarstjórnar tilkynnist hér með.

Samkvæmt 14. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst niðurstaða sveitarstjórna vegna útgáfu eftirfarandi framkvæmdaleyfis.

12. Klausturhólar gjallnámur L168965; Efnistaka Seyðishólum, náma E24; Framkvæmdaleyfi – 2302043

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi sínum þann 29. júní 2023 útgáfu framkvæmdaleyfis eftir grenndarkynningu sem tekur til efnistöku á efnistökusvæði E24 að Seyðishólum. Fyrirhugað er að taka 500.000 m3 af efni úr námunni á næstu 15 árum eða um 33.000 m3 á ári. Stærð námusvæðisins er 3,5 ha í dag og er áætlað að raskað svæði verði við áframhaldandi efnistöku í heild 4,4 ha. Við afgreiðslu leyfisins var lögð fram greinargerð unnin í samræmi við 10. og 12. gr. reglugerðar 772/2012 um framkvæmdaleyfi og 3. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 þar sem tiltekin eru helstu skilyrði vegna útgáfu leyfisins og gerð er rökstudd grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar.
Niðurstaða sveitarfélagsins er kæranleg til Úrskurðarnefndar Umhverfis- og auðlindamála, kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu ÚUA, www.UUA.is

Niðurstaða sveitarstjórnar tilkynnist hér með.

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma embættisins. Að auki er hægt að nálgast tillögur á vefslóðinni www.utu.is. Þá eru gögnin aðgengileg á heimasíðum sveitarfélaganna, www.blaskogabyggd.is, www.floahreppur.is, www.gogg.is, www.fludir.is og www.skeidgnup.is.

Mál 1 - 7 innan auglýsingar er skipulagsmál í kynningu frá 13. júlí 2023 með athugasemdafrest til og með 4. ágúst 2023.

Mál 8 - 10 innan auglýsingar eru skipulagsmál í auglýsingu frá 13. júlí 2023 með athugasemdafrest til og með 25. ágúst 2023.

Mál 11 – 12 eru tilkynningar um niðurstöðu sveitarstjórnar.

Athugasemdum og ábendingum skal skila skriflega á skrifstofu UTU Dalbraut 12, Laugarvatni eða með tölvupósti á netfangið skipulag@utu.is

Vigfús Þór Hróbjartsson
Skipulagsfulltrúi UTU

Síðast uppfært 13. júlí 2023
Getum við bætt efni síðunnar?