Fara í efni

Sveitarstjórn

545. fundur 19. apríl 2023 kl. 09:00 - 11:08 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 258. fundar skipulagsnefndar UTU, 12. apríl 2023.
Mál nr. 11, 12, 13, 14, 15, 16 og 24 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 258. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 12. apríl 2023.
Mál nr. 11; Villingavatn (L170971); byggingarheimild; gestahús - 2302022
Fyrir liggur umsókn Ásgerðar Þ. Bergset Ásgeirsdóttur, Bjargar Óskarsdóttur og Óskars Arnar Ásgeirssonar, móttekin 13.02.2023, um byggingarheimild fyrir 53 m2 gestahús á sumarbústaðalandinu Villingavatn L170971 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Samanlögð stærð núverandi frístundahúss og umsótt aukahúss á lóð fer umfram hámarksbyggingarmagn lóðar m.t.t. stefnumörkunar aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 þar sem segir að á lóðum sem eru minni en 1/3 ha geti heimilt byggingarmagn verið allt að 100 fm.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að synja umsókninni.
Mál nr. 12; Vaðnes; Frístundabyggð; 4. áfangi; Deiliskipulag - 2204055
Lögð er fram tillaga deiliskipulags er varðar stækkun frístundabyggðar í landi Vaðness eftir auglýsingu. Í tillögunni felst að gert er nýtt deiliskipulag sem tekur til hluta frístundasvæðis F26 skv. aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Innan deiliskipulagsins er gert ráð fyrir 65 sumarhúsalóðum á 54 hektara svæði. Athugasemdir og umsagnir bárust við kynningu málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess ásamt andsvörum umsækjanda.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að annast samskipti við málsaðila vegna athugasemda sem bárust vegna málsins.
Mál nr. 13; Borg þéttbýli; Verslunar-, þjónustu- og íbúðalóðir við Miðtún; Deiliskipulag. - 2210039
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi sem tekur til miðsvæðis (M1) innan þéttbýlisins að Borg í Grímsnesi eftir auglýsingu. Um er að ræða 6 nýjar verslunar- og þjónustulóðir þar sem á fjórum er heimild fyrir íbúðum á efri hæð. Í skilgreiningu á miðsvæði kemur fram að gera megi ráð fyrir blöndu af verslun og þjónustu og einnig íbúðum, aðallega á efri hæðum húsa. Æskilegt er að atvinnustarfsemi geti þróast innan svæðisins í bland við íbúðabyggð. Starfsemi á lóðunum getur verið af ýmsum toga og skal horft til skilgreiningar á miðsvæði og markmiða þessa skipulags þegar mat er lagt á það hvaða starfsemi hentar innan reitsins. Má þar nefna gistiheimili, veitinga- og menningartengdan rekstur, litlar verslanir með áherslu á framleiðslu úr héraði, handverksiðnað, smærri verkstæði, gallerí o.fl. Einnig er gert ráð fyrir eldsneytissölu og hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Brugðist hefur verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 14; Stangarlækur 2 L208879; Stangarlækur 2B; Færsla á byggingarreit og ný lóð; Deiliskipulagsbreyting - 2303051
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til deiliskipulags að Stangarlæk 2 L208879. í breytingunni felst að byggingareitur við íbúðarhús er stækkaður og færður u.þ.b. 7 m til norð-vesturs. Skilmálar vegna byggingarheimilda á byggingareit fyrir íbúðarhús breytast. Skilgreind er ný lóð norðan við íbúðarhús sem ber heitið Stangarlækur 2B.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt eiganda aðliggjandi lands.
Mál nr. 15; Hamrar 3 L224192; Fyrirspurn - 2304005
Lögð er fram fyrirspurn frá Þorsteini Garðarssyni fh. Gyðuborga ehf sem tekur til breyttrar skráningar veiðihúsa í landi Hamra 3 L224192. Óskað er eftir því að skráning húsanna breytist úr veiðihúsi í skála.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við breytta skráningu húsanna á grundvelli þeirra gagna sem fylgja með erindinu.
Mál nr. 16; Bíldsfell III L170818; Breyttar lóðastærðir; Fremriklettur og Fremriklettshagi; Deiliskipulagsbreyting – 2304012
Lögð er fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi sem tekur til Bíldsfells III L170818. Í breytingunni felst hliðrun á stærð lóða innan deiliskipulagsins þar sem lóðin Fremriklettshagi minnkar og lóðin Fremriklettur stækkar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. Mgr. 43. Gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem fyrir liggur samþykki nágranna og engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Ása Valdís Árnadóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Mál nr. 24. Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 23-182 – 2303004F
Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 23-182 lögð fram til kynningar.

b) Fundargerð 100. fundar stjórnar byggðasamlags UTU, 4. apríl 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 100. fundar stjórnar byggðasamlags UTU sem haldinn var 4. apríl 2023.

c) Fundargerð 52. fundar stjórnar Bergrisans bs., 17. febrúar 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 52. fundar stjórnar Bergrisans bs. sem haldinn var 17. febrúar 2023.

d) Fundargerð 53. fundar stjórnar Bergrisans bs., 17. mars 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 53. fundar stjórnar Bergrisans bs. sem haldinn var 17. mars 2023.

e) Fundargerð 54. fundar stjórnar Bergrisans bs., 3. apríl 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 54. fundar stjórnar Bergrisans bs. sem haldinn var 3. apríl 2023.

f) Fundargerð 4. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 17. apríl 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 4. fundar stjórnar Arnardrangs hses, sem haldinn var 17. apríl 2023.

g) Fundargerð 7. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu, 11. apríl 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 7. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu sem haldinn var 11. apríl 2023.

h) Fundargerð 204. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga, 29. mars 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 204. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga sem haldinn var 29. mars 2023.

i) Fundargerð stjórnar 24. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis, 28. mars 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 24. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis sem haldinn var 28. mars 2023.

j) Fundargerð aukafundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis, 28. mars 2023.
Lögð fram fundargerð aukafundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis sem haldinn var 28. mars 2023 ásamt minnisblaði um kostnað vegna verkefnisins. Taka þarf afstöðu til tillögu svæðisskipulagsnefndar og verkefnisstjórnar, annars vegar um hvort að vinnu við gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið verði lokið og hins vegar um skiptingu viðbótarkostnaðar sveitarfélaganna. Samkvæmt minnisblaðinu verður kostnaður Grímsnes- og Grafningshrepps samtals 906.977.- krónur sem greiðist eftirfarandi; 604.651.- kr. árið 2023 og 302.326.- kr. árið 2024.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðbótarkostnaðinn og að vinna við gerð svæðiskipulags fyrir Suðurhálendið verði kláruð. Útgjaldaukningin rúmast innan fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins.

k) Fundargerð 594. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, 24. mars 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 594. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem halinn var 24. mars 2023.

l) Fundargerð 921. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 30. mars 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 921. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 30. mars 2023.

2. Staðfangið Reykjanesvegur.
Síðustu ár hefur Þjóðskrá Íslands unnið ötullega að því að samræma húsaskrá og fasteignaskrá og hefur m.a. verið unnið að slíkri samræmingu í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í þeirri vinnu var einnig unnið að samræmdri skráningu staðfanga en staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu aðkomu að mannvirki, landeign eða annars áfangastaðar. Staðfang hefur bæði að geyma kerfisbundna lýsingu í orðum (t.d. miðað við gatnakerfi) sem og landfræðilegt hnit. Samkvæmt reglugerð um skráningu staðfanga nr. 577/2017 annast sveitarfélög nafngiftir, hafa umsjón með og bera ábyrgð á skráningu staðfanga innan staðarmarka sveitarfélaga.
Í Grímsnes- og Grafningshreppi er jörðin Reykjanes en henni hefur m.a. verið skipt upp í nokkrar lóðir og bera flestar þeirra heitið Reykjanes lóð og svo númer en slík heiti eru að mati sveitarstjórnar ekki nógu lýsandi og samræmast ekki reglugerð nr. 577/2017 um um skráningu staðfanga.
Þar sem lóðirnar liggja við svokallaðan Reykjanesveg og mynda einskonar hverfi þá samþykkir sveitarstjórn samhljóða að lóðir sem kenndar eru við Reykjanes sem áður höfðu nafnið Reykjanes lóð fái staðfangið Reykjanesvegur og númerin 2-14 miðað við þau númer sem lóðirnar hafa í dag.
Það er mat sveitarstjórnar að örnefnið Reykjanesvegur vísi í upprunaland og sé því fullgilt örnefni. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að Reykjanes L169598 (íþróttamiðstöðin) fá heitið Reykjanesvegur 15.
Við þetta verður eingöngu eitt staðfang sem ber nafnið Reykjanes og það er upprunaland áðurnefndra lóða með landeignanúmer 168274. Sveitarstjórn felur Vigfúsi Þór Hróbjartssyni skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

3. Erindi frá Jörundi Gaukssyni.
Fyrir liggur erindi og drög að yfirlýsingu frá Jörundi Gaukssyni fyrir hönd Gjögurtáar ehf., dagsett 15. apríl 2023 þar sem gerð er tillaga að vegtengingu við jörðina Lyngdal um jarðirnar Björk I og Björk II. Í erindinu er tekið fram að yfirlýsingin er gerð í samráði við eigendur jarðarinnar Bjarkar II. Jafnframt er tekið fram að eigandi jarðarinnar Lyngdals mun bera allan kostnað vegna framkvæmdarinnar.
Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið sem eigandi jarðarinnar Bjarkar I og samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram.

4. Aukaaðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga 2023.
Fyrir liggur fundarboð á aukaaðalfund Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn verður þann 21. apríl í fjarfundarbúnaði.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að tilnefna Björn Kristinn Pálmarsson sem sinn fulltrúa með atkvæðisrétt og Ásu Valdísi Árnadóttur til vara.

5. Boð á Aðalfund Rangárbakka, þjóðarleikvangs íslenska hestsins ehf.
Lagt fram til kynningar.

6. Úrskurður innviðaráðuneytisins í máli IRN22010914.
Fyrir liggur úrskurður innviðaráðuneytisins í máli IRN22010914. Á fundinn kom í fjarfundarbúnaði lögmaður sveitarfélagsins, Óskar Sigurðsson.
Vegna úrskurðarins tekur sveitarstjórn fyrir beiðni Ásdísar Drafnar Einarsdóttur um afslátt af fasteignaskatti árið 2021 af fasteign hennar að Kallholti 9, Öndverðarnesi. Fyrir liggur að umrædd fasteign er sumarhús og staðsett í skilgreindri frístundabyggð samkvæmt gildandi skipulagsáætlunum.
Samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins er veittur afsláttur af „fasteignaskatti íbúðarhúsa til fasteignaeigenda sem eru 67 ára og eldri eða 75% öryrkjar og eiga lögheimili í viðkomandi fasteign.“ Sveitarfélagið hafði áður synjað beiðni Ásdísar með vísan til þess að hún ætti ekki lögheimili í umræddri fasteign sem væri heldur ekki skráð sem íbúðarhús og þar af leiðandi væru skilyrði fyrir veitingu afsláttar ekki fyrir hendi. Ásdísi var tilkynnt um þessa niðurstöðu með tölvupósti 20. september 2021. Hún kærði synjunina til innviðaráðuneytisins, sem kvað upp fyrrnefndan úrskurð 9. janúar sl. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að synjun sveitarfélagsins hafi verið ólögmæt og virðist byggja á því að viðkomandi hafi lögheimili í sveitarfélaginu, þó að það sé ekki skráð í sumarhúsinu. Í forsendum úrskurðarins segir að eftir standi engu að síður að sveitarfélaginu beri að meta hvort Ásdís eigi rétt á lækkun fasteignaskatts, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Að því sögðu er beiðni hennar nú tekin fyrir öðru sinni.
Ásdís Dröfn uppfyllir aldursviðmiðið en þar sem umrædd fasteign er ekki skráð sem íbúðarhús eru skilyrði fyrir veitingu afsláttar ekki uppfyllt, óháð því hvort hún eigi lögheimili í sveitarfélaginu eða ekki.
Sveitarstjórn synjar samhljóða beiðni Ásdísar Drafnar Einarsdóttur um afslátt af fasteignaskatti árið 2021 af fasteign hennar að Kallholti 9, Öndverðarnesi.
Til viðbótar er eftirfarandi bókað:
Sveitarstjórn hefur aflað lögfræðiálits frá LEX lögmannsstofu vegna umrædds úrskurðar innviðaráðuneytisins. Þar kemur fram sú afstaða að forsendur og niðurstaða úrskurðarins standist ekki skoðun. Óheimilt er að skrá lögheimili í frístundabyggð og þar af leiðandi sé málefnalegt af sveitarfélaginu að takmarka afslátt fasteignaskatta við lögheimili. Þar að auki uppfyllir umrædd fasteign ekki skilyrði laga um að vera íbúðarhús.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að senda ráðuneytinu erindi þar sem greint er frá hinni nýju afgreiðslu málsins og jafnframt verða gerðar athugasemdir við forsendur og niðurstöður í úrskurðinum frá 9. janúar sl.

7. Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 81/2023, „Drög að útfærslu á tillögum um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu“.

Lagt fram til kynningar.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 11:08.

Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?