Fara í efni

Sveitarstjórn

554. fundur 18. september 2023 kl. 09:00 - 09:44 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 265. fundar skipulagsnefndar UTU, 13. september 2023.
Mál nr. 22, 23, 24, 25, 26, 27, 28, 29, 30, 31, 32, 33, 34, 35, 36 og 46 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 265. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 13. september 2023.
Mál nr. 22; Úlfljótsvatn L170830; Frístundabyggð; Skilgreining lóða og byggingarreita; Heildarendurskoðun deiliskipulags – 2202007
Lögð er fram deiliskipulagstillaga sem tekur til frístundabyggðar við Úlfljótsvatn L170830 eftir auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar. Í dag er í gildi deiliskipulagsuppdráttur, deiliskipulag frístundabyggðar við Úlfljótsvatn, dagsettur 16.6.1993. Í því skipulagi var gert ráð fyrir alls 26 húsum, 25 sumarhúsum og svo Úlfljótsskála sem áður var þjónustumiðstöð. Við gildistöku þessa skipulags fellur úr gildi eldra skipulag og uppdrættir. Í nýrri skipulagstillögu eru 26 frístundahús og svo Úlfljótsskáli eða samtals 27 byggingar. Húsum fjölgar því aðeins um eitt en heimilað byggingarmagn innan svæðisins eykst í takt við uppfærðar byggingarheimildir. Athugasemdir bárust við málið að hálfu Skipulagsstofnunar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Brugðist var við umsögn sem barst vegna málsins með fullnægjandi hætti innan uppfærðra deiliskipulagsgagna og samantektar á athugasemdum og viðbrögðum sem lögð eru fram við afgreiðslu málsins. Sveitarstjórn samþykkir einnig að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 23; Oddsholt 3 (L198837); byggingarheimild; sumarbústaður - 2308080
Fyrir liggur umsókn Friðriks Ólafssonar fyrir hönd Titas Ivanauskas, móttekin 28. ágúst 2023, um byggingarheimild fyrir 68,3 m2 sumarbústað á sumarbústaðalandinu Oddsholt 3 L198837 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Deiliskipulag er í gildi fyrir frístundasvæðið að Oddsholti en engir byggingarskilmálar eru skilgreindir innan þess.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa. Sveitarstjórn felur Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita að stilla upp skilmálum vegna byggingarheimilda fyrir hverfið í samráði við sumarhúsafélag svæðisins.
Mál nr. 24; Minni-Borg golfvöllur ÍÞ5 og Landbúnaðarsvæði L3; Breytt landnotkun, nýtt íþróttasvæði og verslunar- og þjónustusvæði við Borg; Aðalskipulagsbreyting - 2303019
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna breyttrar landnotkunar á svæði sunnan þjóðvegar við þéttbýlið að Borg í Grímsnesi eftir kynningu. Breytingin tekur til skilgreiningar á verslunar- og þjónustusvæði innan núverandi golfvallarsvæðis þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir gistingu auk annarrar þjónustu við notendur golfvallarins. Að auki er skilgreint nýtt íþróttasvæði syðst á svæðinu sem tekur til uppbyggingar á hesthúsasvæði og aðstöðu fyrir hestaíþróttir.
Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna ÍÞ5 og L3 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
Mál nr. 25; Hestur lóð 18; Byggingarreitur; Deiliskipulagsbreyting - 2308039
Lögð er fram umsókn um deiliskipulagsbreytingu sem tekur til lóðar Hests 18 innan frístundasvæðis á jörðinni Hesti. Í breytingunni felst að skilgreining byggingarreitar á lóðinni er skilgreind í 10 metra fjarlægð frá lóðarmörkum að hluta.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða, þ.e. 168529, 168527, 168539 og 168533.
Mál nr. 26; Lækjarbakki 13 L205931; Skilmálabreyting; Deiliskipulagsbreyting - 2308051
Lögð er fram umsókn um breytingu á byggingarskilmálum frístundasvæðis í landi Búrfells 1, svæði 1.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi og verði sérstaklega kynnt sumarhúsafélagi svæðisins. Skilmálar svæðisins verði eftirfarandi í samræmi við umsókn: Stærð sumarhúsa má vera allt að 180 fm. Samanlögð stærð aukahúss og frístundahúss má vera allt að 220 fm og er stærð aukahúss valfrjáls innan þess ramma. Nýtingahlutfall lóða er að hámarki 0,03.
Mál nr. 27; Írafossvirkjun L168922; Endurbætur útrásarrennu; Framkvæmdarleyfi - 2308058
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi frá Landsvirkjun vegna endurbóta á útrásarrennu við Írafossvirkjun.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Mál nr. 28; Vaðnes L168289; Efnistaka; Framkvæmdarleyfi - 2308081
Lögð er fram umsókn frá Páli Helga Kjartanssyni er varðar framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í landi Vaðness L168289.
Viðkomandi efnistaka er háð því að skilgreint verði efnistökusvæði á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps sem tilgreini um heimildir til efnistöku á gildistíma aðalskipulags.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að synja umsókn um framkvæmdaleyfi.
Mál nr. 29; Hagavíkurlaugar L198331; Ósk um aðalskipulagsbreytingu vegna borana og orkuvinnslu; Fyrirspurn – 2309029
Lögð er fram fyrirspurn frá Orkuveitu Reykjavíkur er varðar breytingu á aðalskipulagi er varðar skilgreiningu iðnaðarsvæðis í landi Hagavíkur.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagða fyrirspurn. Sveitarstjórn vill árétta að þar með sé ekki verið að heimila orkuöflun innan svæðis og mun fjalla sérstaklega um það þegar sú ósk liggur fyrir. Sveitarstjórn vísar í bókun sína frá 1. mars 2023 þar sem tekið er undir bókun Samtaka orkusveitarfélaga frá 17. febrúar þar sem sveitarfélög eru hvött til að staldra við í skipulagsmálum virkjana á meðan sanngjörn skipting auðlindarinnar verður fest í lög en slík vinna er nú þegar hafin.
Mál nr. 30; Vatnsholt L168290; Lambanes 1 og 2; Vatnsholtsvegur 6; Deiliskipulagsbreyting – 2308083
Lögð er fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi sem tekur til Vatnsholts í Grímsnesi. Í breytingunni felst að lóðir svæðisins hafa verið hnitsettar og eru nú afmarkaðar með hnitum og málsetningum. Breytingin tekur til lóða Lambanes lóð 1, Lambanes lóð 2 og Vatnsholtsvegar 6. Stæðir lóða Lambaness lóð 1 og Vatnsholtvegar 6 breytast ekki við hnitsetningu. Lóð Lambaness 2 stækkar frá samþykktu deiliskipulagi úr 13.200 fm í 14.403 fm. Tilgangur með deiliskipulagsbreytingu þessari er að aðlaga betur lóðirnar að þeim aðstæðum sem eru á staðnum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu. Mælst er til þess að byggingarreitir verði skilgreindir í 50 metra fjarlægð frá vatnsbakka en að gert verði grein fyrir að heimilt verði að byggja við núverandi byggingar eða endurreisa á fyrri grunni svo framarlega sem byggingar fari ekki nær vatni.
Mál nr. 31; Kaldárhöfði L168256; Könnunarholur og vinnsluholur; Framkvæmdaleyfi – 2308094
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi frá Grímsnes- og Grafningshreppi er varðar borun könnunar- og vinnsluhola í landi Kaldárhöfða L168256.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Mál nr. 32; Kiðjaberg L168257; Stækkun lóðar og byggingarreits; Óveruleg deiliskipulagsbreyting – 2308096
Lögð er fram umsókn um óverulega breytingu á deiliskipulagi er varðar stækkun lóðar og byggingarreits umhverfis vélaskemmu innan deiliskipulags Kiðjabergs.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Mál nr. 33; Álfadalur L236324; Neðra-Apavatn L168269; Skógrækt; Framkvæmdaleyfi – 2309002
Lögð er fram umsókn frá Skógálfum ehf. er varðar útgáfu framkvæmdaleyfis vegna skógræktar í Álfadal L236324 úr landi Neðra-Apavatns sbr. meðfylgjandi umsókn og ræktunaráætlun.
Sveitarstjórn bendir á að áður hafi verið veitt framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt á landi Álfabrekku (100 ha) og Álfaskeið (132,7 ha) sem eru samliggjandi viðkomandi landi Álfadals þar sem gert er ráð fyrir gróðursetningu á 90,7 ha svæði auk þess sem skilgreint skógræktarsvæði er á landi Álfhóls sem tekur til 25 ha svæðis. Að mati sveitarstjórnar er eðlilegast að horfa til þessara svæða sem heild og að samanlögð skógrækt á svæðinu öllu geti verið í heild allt að 350 ha. Við það telst verkefnið orðið tilkynningarskylt á grundvelli laga um umhverfismat framkvæmda- og áætlana nr. 111/2021, 1. viðauka gr. 1.04. Að auki liggur fyrir að gefin hafa verið út framkvæmdaleyfi á aðliggjandi landi Skógabrekku á 90 ha svæði. Sveitarfélagið hefur verið í samskiptum við Skipulagsstofnun vegna heimilda í tengslum við skógrækt og telur nauðsynlegt að fá álit Skipulagsstofnunar á því hvort horfa eigi til landsvæðisins í heild sinni eða hvers landssvæðis fyrir sig þegar skógræktarheimildir eru metnar tilkynningarskyldar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu framkvæmdaleyfis þar til niðurstaða Skipulagsstofnunar um matsskyldu verkefnisins liggur fyrir.
Mál nr. 34; Miðborgir í landi Miðengis; Byggingarmagn, breyttir skilmálar; Deiliskipulagsbreyting - 2309006
Lögð er fram umsókn er varðar breytingu á deiliskipulagi Miðborga í landi Miðengis. Í breytingunni felst aukning á byggingarheimildum innan svæðisins og niðurfelling hámarksstærðar gestahúsa.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi. Breytingin verði sérstaklega kynnt sumarhúsafélagi svæðisins.
Mál nr. 35; Öndverðarnes 2 lóð L170121; Selvíkurvegur 12 og 13; Skipting lóðar - 2308091
Lögð er fram umsókn er varðar skiptingu lóðarinnar Öndverðarnes 2 lóð L170121 í tvær lóðir skv. hnitsettum mæliblöðum. Gert er ráð fyrir að L170121 fái staðfangið Selvíkurvegur 12 (stærð 11.048,17 fm) og nýja lóðin Selvíkurvegur 13 (stærð 11.048,34 fm). Hnitsett afmörkun lóðarinnar hefur ekki áður legið fyrir en hún er í dag skráð 20.000 fm.
Sveitarstjórn telur að forsenda þess að hægt sé að taka afstöðu til uppskiptingar lóðarinnar sé að unnið verði deiliskipulag fyrir lóðina sem tekur m.a. til afmörkunar lóðarinnar, uppskiptingar hennar, byggingarreita og byggingarskilmála. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að synja skiptingu lóðarinnar þar til að deiliskipulag liggur fyrir.
Mál nr. 36; Vaðnes; Frístundabyggð; 4. áfangi; Deiliskipulag – 2204055
Lögð er fram tillaga deiliskipulags er varðar stækkun frístundabyggðar í landi Vaðness eftir auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar. Breytingar hafa verið gerðar á tillögunni vegna athugasemda sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar og hefur umfang tillögunnar minnkað umtalsvert. Í tillögunni felst að gert er nýtt deiliskipulag sem tekur til hluta frístundasvæðis F26 skv. aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Innan deiliskipulagsins er gert ráð fyrir 31 sumarhúsalóð á 24,7 hektara svæði. Athugasemdir bárust við gildistöku tillögunnar af hálfu Skipulagsstofnunar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins. Samhliða er lögð fram óveruleg breyting á deiliskipulagi 3. áfanga frístundabyggðar að Vaðnesi þar sem vegtenging að 4. áfanga er skilgreind.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Brugðist var við umsögn sem barst vegna málsins með fullnægjandi hætti innan uppfærðra deiliskipulagsgagna og samantektar á athugasemdum og viðbrögðum sem lögð eru fram við afgreiðslu málsins. Mælst er til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og að gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að óveruleg breyting á 3. áfanga deiliskipulags sem lögð er fram við afgreiðslu málsins fái málsmeðferð á grundvelli 2. og 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Breytingin taki gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda samhliða nýju deiliskipulagi fyrir 4. áfanga og verði send Skipulagsstofnun til varðveislu.
Mál nr. 46; Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 23-190 - 2308003F
Lögð er fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa nr. 23-190.
b) Fundargerð 10. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu, 5. september 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 10. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu sem haldinn var 5. september 2023.
c) Fundargerð 319. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, 7. september 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 319. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands sem haldinn var 7. september 2023.
d) Fundargerð 932. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 8. september 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 932. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 8. september 2023.
2. Bréf frá Innviðaráðuneytinu þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins um stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar Grímsnes- og Grafningshrepps um höfnun á beiðni kærenda um breytingu á gildandi aðalskipulagi hreppsins vegna lögheimilisskráningar þeirra á eigin heimili, IRN23090048.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Hrefnu Hallgrímsdóttur fyrir hönd Innviðaráðuneytisins, dags. 13. september 2023 þar sem tilkynnt er um stjórnsýslukæru. Einnig er óskað eftir gögnum og sveitarfélaginu gefinn kostur á að gera grein fyrir athugasemdum sínum vegna kærunnar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra ásamt lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að gæta hagsmuna sveitarfélagsins og vinna málið áfram.
3. Umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps um drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára.
Lögð fram til kynningar umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps þakkar fyrir það tækifæri að fá að senda inn umsögn varðandi drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára (hvítbók um húsnæðismál).
Sveitarfélagið er aðili að Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem hefur skilað inn umsögn og er sveitarstjórn í öllum atriðum sammála þeirri umsögn og gerir að sinni og þá sérstaklega kaflann um búsetufrelsi.
Sveitarstjórn ítrekar líka umsögn sína vegna grænbókar um skipulagsmál vegna búsetufrelsis þar sem segir:
„Í umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. desember 2022 um grænbók um sveitarstjórnarmál komu fram áhyggjur vegna notkunar á hugtakinu búsetufrelsi. Síðan þá er orðið skýrara að hugtakið eigi að endurspegla „þá sýn að lífsgæði fólks séu ekki síst fólgin í því að geta búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar sem er á landinu“ eins og segir í grænbók um skipulagsmál á blaðsíðu 8 og 9. Sveitarstjórn fagnar því að Innviðaráðuneytið fari enn lengra í útskýringum sínum á hugtakinu en í grænbókinni á blaðsíðu 9 segir; „Fjölbreytt íbúðasamsetning, nærþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgönguhátta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi. Með áherslu á búsetufrelsi er ekki verið að opna fyrir að fólk geti kosið sér búsetu utan þeirra svæða sem sveitarfélög skipuleggja fyrir íbúðabyggð“.
Hafa þarf í huga að skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum og sveitarstjórnum. Unnar eru skipulagsáætlanir fyrir hvert sveitarfélag og þar hafa sveitarstjórnir ákveðna landnotkunarflokka sem þær vinna með til ákvörðunar m.a. um búsetu og búsetufyrirkomulag og stýra þannig íbúa- og byggðarþróun í sínum skipulagsáætlunum. Sveitarfélögin fylgja eðlilega fyrirmælum skipulags- og mannvirkjalaga í þeim efnum sem og þeim reglum sem á þeim lögum byggja.“
Í ljósi þess að eftirfarandi atriði koma fram í drögunum:
-á blaðsíðu 8 segir „að skortur sé á sveigjanlegu húsnæði sem krefst minni skuldbindingar en íbúðarkaup“,
-á blaðsíðu 11 segir „Skapa þarf skilyrði til að öll hafi aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins“,
-á blaðsíðu 18 segir „Nýta atvinnuhúsnæði sem ekki hentar lengur sem slíkt en er staðsett nálægt innviðum íbúðabyggðar, svo sem skólum, og kæmi til greina að nýta til búsetu samræmist það áformum viðkomandi sveitarfélags“,
vill Grímsnes- og Grafningshreppur að það sé skýrt að skipulagsvaldið er hjá sveitarstjórnunum og að farið verði áfram að lögum um lögheimili eins og þau eru í dag.
4. Umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps um starfshóp um skattlagningu orkuvinnslu.
Lögð fram til kynningar umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um starfshóp um skattlagningu orkuvinnslu.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps þakkar fyrir það tækifæri að fá að senda inn umsögn varðandi endurskoðun á skattlagningu orkuvinnslu á Íslandi.
Grímsnes- og Grafningshreppur fagnar því að skattalegt umhverfi orkuvinnslu verði tekið til endurskoðunar. Sveitarstjórn telur að löngu tímabært er orðið að ráðast í endurskoðun löggjafar varðandi skattaumhverfi orkuvinnslu gagnvart sveitarfélögum.
Sveitarfélagið starfar innan Samtaka orkusveitarfélaga sem hefur skilað inn umsögn og og er sveitarstjórn í öllum atriðum sammála þeirri umsögn og gerir að sinni.
Grímsnes- og Grafningshreppur leggur jafnframt sérstaka áherslu á eftirfarandi:
Á heimasíðu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir í frétt um skipan starfshópsins: “Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að hefja skoðun á skattalegu umhverfi orkuvinnslu. Markmiðið er að skapa nýja skattalega umgjörð fyrir vinnsluna og kanna leiðir til að ávinningur vegna auðlindanýtingar, þ.m.t. vegna orkuframleiðslu, skili sér í ríkari mæli til nærsamfélaga og þeirra aðila sem fyrir áhrifum verða.“
Í heiti starfshópsins er þó eingöngu notast við orðið orkuvinnslu og leggur Grímsnes- og Grafningshreppur ríka áherslu á að fjalla þurfi einnig um flutning og dreifingu orkunnar.
Sveitarstjórn vísar í bókun sína frá 1. mars 2023 þar sem tekið er undir bókun Samtaka orkusveitarfélaga frá 17. febrúar þar sem segir
„Arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu þarf að skiptast með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagaðilar við orkuvinnslu. Tryggja þarf með lögum að nærumhverfið þar sem orkan á uppsprettu sína, njóti efnahagslegs ávinnings sem mun styrkja byggð þar sem orkan verður til um allt land. Það er sanngirnismál að orkuvinnslan skili sambærilegum tekjum í nærsamfélagið eins og öll önnur atvinnustarfssemi gerir. Einnig þarf að breyta raforkulögum til að tryggja að dreifikostnaður raforku sé sá sami í dreifbýli og þéttbýli.“
Sveitarstjórn ítrekar umsögn sína um 84/2023, „Valkostir og greining á vindorku. Skýrsla starfshóps“ þar sem segir: „Nærsamfélag orkuvinnslu á ekki og getur ekki fórnað sinni náttúru og auðlindum án þess að njóta sanngjarns ávinnings af orkuframleiðslunni. Skipta þarf tekjum nærsamfélagsins af orkuvinnslu milli þeirra er verða fyrir beinum áhrifum, óbeinum áhrifum og til nærsamfélags megin flutningskerfis raforku. Eðlilegt er að stærsti hlutinn fari til nærsamfélags er verður fyrir beinum áhrifum og nokkuð jöfn hlutföll séu milli þess svæðis er verður fyrir óbeinum áhrifum og til nærsamfélags flutningskerfisins“.
Sveitarstjórn vonast til að í umræðunni um mögulega aukningu á tekjum til sveitarfélaganna að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði alls ekki blandað inn í umræðuna um skattlagningu orkuvinnslu, útreikninga eða aðra umræðu um tekjur sveitarfélaga.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps er að sjálfsögðu reiðubúin til frekara samráðs og samtals um þau atriði sem fram koma í umsögn þessari.
5. Umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps um grænbók vegna skipulagsmála.
Lögð fram til kynningar umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um grænbók vegna skipulagsmála.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fagnar því að verið sé að vinna áfram að samstillingu á stefnumótun ríkis og sveitarfélaga með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt ítrekar sveitarstjórn skoðun sína, að það sé jákvætt að í innviðaráðuneytinu sé lögð rík áhersla á samhæfingu stefna og áætlana og að stefnur í málaflokkum ráðuneytisins verði fimm; byggðaáætlun, samgönguáætlun, landsskipulagsstefna, húsnæðisstefna og stefna í sveitarstjórnarmálum. Sveitarstjórn styður þá hugmyndafræði ráðuneytisins að til að ná sem bestum árangri verði stefnurnar settar fram með sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum þannig að málefnin myndi eina heild.
Í þeirri vinnu sem nú fer fram í tengslum við landsskipulagsstefnu er afar mikilvægt er að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt og á engan hátt skert.
Í umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. desember 2022 um grænbók um sveitarstjórnarmál komu fram áhyggjur vegna notkunar á hugtakinu búsetufrelsi. Síðan þá er orðið skýrara að hugtakið eigi að endurspegla „þá sýn að lífsgæði fólks séu ekki síst fólgin í því að geta búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar sem er á landinu“ eins og segir í grænbók um skipulagsmál á blaðsíðu 8 og 9. Sveitarstjórn fagnar því að Innviðaráðuneytið fari enn lengra í útskýringum sínum á hugtakinu en í grænbókinni á blaðsíðu 9 segir; „Fjölbreytt íbúðasamsetning, nærþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgönguhátta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi. Með áherslu á búsetufrelsi er ekki verið að opna fyrir að fólk geti kosið sér búsetu utan þeirra svæða sem sveitarfélög skipuleggja fyrir íbúðabyggð“.
Hafa þarf í huga að skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum og sveitarstjórnum. Unnar eru skipulagsáætlanir fyrir hvert sveitarfélag og þar hafa sveitarstjórnir ákveðna landnotkunarflokka sem þær vinna með til ákvörðunar m.a. um búsetu og búsetufyrirkomulag og stýra þannig íbúa- og byggðarþróun í sínum skipulagsáætlunum. Sveitarfélögin fylgja eðlilega fyrirmælum skipulags- og mannvirkjalaga í þeim efnum sem og þeim reglum sem á þeim lögum byggja.
Nýlega voru gerðar breytingar á skipulagslögum sem lúta að uppbyggingu raforkuinnviða þar sem tekin verður ein sameiginleg skipulagsákvörðun. Það má vel vera að slíkt einfaldi eitthvað en skipulagsvaldið er án efa hjá sveitarfélögunum og sveitarstjórnum sem vinna og lifa á því svæði sem þau hafa skipulagsvaldið yfir og því má áætla að viðkomandi aðilar séu líklega best til þess fallin að stýra skipulagsmálum á sínum svæðum.
Sveitarstjórn leggur þar af leiðandi mjög ríka áherslu á að tryggja þurfi aðkomu sveitarfélaga að vinnunni þegar skilgreina á þjóðhagslega mikilvæga innviði og eins við mótun á farvegi um stefnumörkun sem varðar sameiginlegar skipulagsákvarðanir um þjóðhagslega mikilvæga innviði.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps vill jafnframt koma því á framfæri að skoða þurfi í skipulagsmálum ítarlegri og/eða skýrari viðurlög vegna óleyfisframkvæmda og skýra heimildir skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa til að bregðast við þegar framkvæmt er í óleyfi.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps er að sjálfsögðu reiðubúin til frekara samráðs og samtals um þau atriði sem fram koma í umsögn þessari.
6. Bréf frá Innviðaráðuneytinu – Hvatning til sveitarstjórna um mótun málstefnu.
Fyrir liggur erindi frá Innviðaráðuneytinu, dagsett 5. september 2023, þar sem ráðuneytið hvetur sveitarstjórn til að ýta úr vör vinnu við málstefnu sveitarfélagsins sé slík stefna ekki fyrir hendi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að hefja vinnu við gerð málstefnu.
7. Erindi frá Björgvini Njáli Ingólfssyni vegna álits og fyrirmæla Innviðaráðuneytisins vegna gjaldskrár sundlaugar í sveitarfélaginu.
Fyrir liggur erindi frá Björgvini Njáli Ingólfssyni, dagsett 5. september 2023, þar sem óskað er svara við tveimur spurningum. Jafnframt er tekið fram í erindinu að undirritaður áskili sér rétt til að krefjast skaðabóta vegna þess tjóns sem ákvörðun sveitarfélagsins hefur haft í för með sér og vegna þess kostnaðar sem að undirritaður hefur haft af máli þessu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra ásamt lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að gæta hagsmuna sveitarfélagsins og svara erindinu.
8. Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2024-2027.
Lagt fram til kynningar minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. ágúst 2023 um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2024-2027.
9. Aukaaðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga.
Fyrir liggur fundarboð á aukaaðalfund Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn verður þann 19. september í fjarfundarbúnaði.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að tilnefna Björn Kristinn Pálmarsson sem sinn fulltrúa með atkvæðisrétt og Ásu Valdísi Árnadóttur til vara.
10. Skipun í nefndir Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur að Guðrún Helga Jóhannsdóttir hefur beðið um tímabundið leyfi sem aðalmaður í nefndum á vegum sveitarfélagsins, en hún hefur verið aðalmaður í skólanefnd og loftslags- og umhverfisnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Guðmundur Finnbogason komi inn sem aðalmaður fyrir Guðrúnu Helgu í eitt ár í skólanefnd og Sigríður Kolbrún Oddsdóttir komi inn sem aðalmaður í loftslags- og umhverfisnefnd í eitt ár. Guðrún Helga Jóhannsdóttir verður varamaður í báðum nefndum við breytingarnar.
11. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags 2023 - 2024.
Fyrir liggur beiðni frá Reykjavíkurborg um námsvist nemanda í Kerhólsskóla utan lögheimilissveitarfélags skólaárið 2023-2024.
Sveitarstjórn samþykkir beiðnina samhljóða og felur sveitarstjóra að ganga frá málinu.
12. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags 2023 - 2024.
Fyrir liggur beiðni frá Guðrúnu Helgu Jóhannsdóttur um námsvist tveggja sona hennar utan lögheimilissveitarfélags við Ásgarðsskóla, skóla í skýjunum skólaárið 2023-2024. Fyrir fund liggur rökstuðningur frá verkefnastjóra sérkennslu og sérkennara Kerhólsskóla um fyrirliggjandi umsókn þar sem mælt er með því að drengirnir fái að vera í íslenskumælandi skóla þann tíma sem þeir dvelja erlendis.
Sveitarstjórn samþykkir beiðnina samhljóða og að greiddur verði skólakostnaður samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga út skólaárið 2023 – 2024.
13. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags 2023 - 2024.
Fyrir liggur beiðni frá Bryndísi Ólafsdóttur um að tvö börn hennar fái skólavist utan lögheimilissveitarfélags við Vallaskóla á Selfossi skólaárið 2023-2024.
Sveitarstjórn hafnar beiðninni samhljóða og gert verður ráð fyrir að börnin hefji skólagöngu við Kerhólsskóla hið fyrsta.
14. Ályktun frá Skógræktarfélagi Íslands.
Lagt fram til kynningar.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 9:44.


Getum við bætt efni síðunnar?