Fara í efni

Sveitarstjórn

566. fundur 05. apríl 2024 kl. 09:00 - 11:23 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
Starfsmenn
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 15. fundar Framkvæmda- og veitunefndar, 26. febrúar 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 15. fundar Framkvæmda- og veitunefndar sem haldinn var 26. febrúar 2024.
b) Fundargerð 16. fundar Framkvæmda- og veitunefndar, 12. mars 2024.
Mál nr. 7b þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 16. fundar Framkvæmda- og veitunefndar sem haldinn var 12. mars 2024.
Mál nr. 7b Erindi til Landsvirkjunar.
Fyrir liggja drög að erindi til Landsvirkjunar sem fyrirhugað er að senda í nafni Grímsnes- og Grafningshrepps, Sveitarfélagsins Árborgar og Flóahrepps um fyrirhugaða sameiginlega vatnsöflun úr landi Kaldárhöfða. Í erindinu er kannaður vilji Landsvirkjunar til að koma að verkefninu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög.
c) Fundargerð 17. fundar Skólanefndar, 12. mars 2024.
Mál nr. 1 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram að nýju fundargerð 17. fundar Skólanefndar sem haldinn var 12. mars 2024.
Mál nr. 1; Tillögur að stuðningi til forráðamanna leikskólabarna á biðlista.
Fyrir liggja drög að reglum um heimgreiðslur til foreldra og forráðamanna barna 12 mánaða og eldri sem eru á biðlista vegna leikskóladvalar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu.
d) Fundargerð 277. fundar skipulagsnefndar UTU, 27. mars 2024.
Mál nr. 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20, 21 og 32 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 277. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 27. mars 2024.
Mál nr. 13; Tungubraut 15 (L169222); byggingarheimild; sumarbústaður - 2403053.
Móttekin er umsókn, þ. 18.03.2024, um byggingarheimild fyrir 35,3 sumarbústað á sumarbústaðalandinu Tungubraut 15 L169222 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir ekki athugasemdir við útgáfu byggingarheimildar vegna framlagðrar umsóknar. Að mati sveitarstjórnar eru heimildir gildandi deiliskipulags og aðalskipulags nógu skýrar til að unnt sé að samþykkja útgáfu leyfis án grenndarkynningar á grundvelli 3. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis þar sem segir að sveitarstjórn sé heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Mál nr. 14; Ljósafossskóli L168468; Skilmálabreyting; Aðalskipulagsbreyting - 2403043.
Lögð er fram beiðni um óverulega breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps er varðar skilmálabreytingu fyrir Ljósafossskóla, Efri-Brú VÞ3. Í breytingunni felst að á svæðinu verði heimilt að reka gistingu og ferðaþjónustu fyrir allt að 100 manns í stað 30. Gert verði ráð fyrir allt að 35 gistihúsum auk tjalda ásamt tilheyrandi þjónustu til viðbótar við núverandi mannvirki. Nýtingarhlutfall á lóðinni geti verið allt að 0,05.
Sveitarstjórn telur að framlögð umsókn falli ekki undir óverulega breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Sveitarstjórn mælist til þess að unnin verði skipulagslýsing í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem tekur til viðkomandi breytinga á grundvelli framlagðra gagna.
Mál nr. 15; Folaldaháls í landi Króks í Grafningi; Nýjar borholur; Umsagnarbeiðni – 2403045.
Lögð er fram greinargerð með tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu vegna fjölgunar borhola á svæði I2 í landi Króks í Grafningi. Lagt fram til umsagnar.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagða tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu en bendir á að framkvæmdir á grundvelli tilkynningar eru háðar breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins.
Mál nr. 16; Svínavatn 3 L232042; Heimreið; Framkvæmdaleyfi - 2403069.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til heimreiðar á landi Svínavatns 3 L232042.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna heimreiðar. Viðkomandi framkvæmdir eru í takt við gildandi deiliskipulag og er því ekki talin þörf á grenndarkynningu. Öll jarðvinna í tengslum við byggingarleyfisskyldar framkvæmdir eru háðar útgáfu byggingarleyfis eða heimildar.
Mál nr. 17; Suðurkot L168285; Frístundahús; Deiliskipulag – 2403047.
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til afmörkunar byggingareits fyrir uppbyggingu frístundahúss innan jarðar Suðurkots L168258. Innan skipulagsins er gert ráð fyrir heimild fyrir frístundahúsi á einni hæð ásamt gestahúsi/geymslu.
Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagið samhljóða og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur fyrir gerð deiliskipulagstillögunnar liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins. Sveitarstjórn mælist til þess að ef af frekari uppbyggingu verður innan svæðisins, verði unnin aðalskipulagsbreyting.
Mál nr. 18; Nesjavallavirkjun L170925; Borun vinnsluholu NJ-34; Framkvæmdarleyfi - 2403078.
Orka náttúrunnar (ON) óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir borun uppbótarholu á Nesjavöllum, með það að markmiði að mæta rýrnun á gufuforða virkjunarinnar. Í framkvæmdinni felst: Gerð borstæðis á borteig, borun vinnsluholu, lagningu jarðstrengs ofanjarðar, lagningu borvatnsveitu ofanjarðar. Tilgangur borunar er að viðhalda vinnslugetu Nesjavallavirkjunar.
Sveitarstjórn samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis samhljóða á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 19; Stóra-Borg lóð 16, L218060, Borgarheiði; Íbúðarsvæði með rúmum byggingarheimildum; Deiliskipulag - 2302027.
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags fyrir landbúnaðarsvæði í landi Stóru-Borgar lóðar 16 L218060 eftir auglýsingu. Svæðið, sem er 54,9 ha að stærð, er staðsett norðvestan við Borg í Grímsnesi og kemur til með að heita Borgarheiði. Með deiliskipulaginu eru skilgreindar 32 lóðir sem eru á bilinu 0,9-1,5 ha. Aðkoma er frá Biskupstungnabraut (35) og í gegnum þéttbýlið á Borg. Gönguleiðakerfi tengir svæðið við nærliggjandi græn svæði og við þéttbýlið Borg. Heimilt er að vera með létta atvinnustarfsemi innan lóða, s.s. skógrækt, húsdýrahald og minniháttar verslun. Umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt andsvara.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Brugðist var við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan framlagðra gagna og samantektar umsagna og viðbragða. Sveitarstjórn samþykkir að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Björn Kristinn Pálmarsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Mál nr. 20; Borg í Grímsnesi; Vesturbyggð; Deiliskipulagsbreyting - 2403103.
Lögð er fram tillaga óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Vesturbyggðar sem tekur til hluta þéttbýlisins að Borg í Grímsnesi. Í breytingunni felst endurskilgreining á staðföngum og númerum lóða á uppdrætti og innan greinargerðar deiliskipulagsins í takt við reglugerð um skráningu staðfanga.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Mál nr. 21; Álfadalur L236324; Neðra-Apavatn L168269; Skógrækt; Framkvæmdarleyfi - 2309002.
Lögð er fram umsókn frá Skógálfum ehf. er varðar útgáfu framkvæmdaleyfis vegna skógræktar í Álfadal L236324 úr landi Neðra-Apavatns sbr. meðfylgjandi umsókn og ræktunaráætlun. Sveitarstjórn frestaði afgreiðslu málsins þann 18.9.2023 og fór fram á að framkvæmdin væri tilkynnt til Skipulagsstofnunar á grundvelli laga um umhverfismat framkvæmda- og áætlana nr. 111/2021, 1. viðauka gr. 1.04. Niðurstaða Skipulagsstofnunar liggur fyrir og er hún lögð fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynning skógaræktaráforma hefur nú þegar verið framkvæmd og bárust engar athugasemdir á kynningartíma málsins. Við kynningu málsins bárust umsagnir frá helstu umsagnaraðilum sem matsskyldu ákvörðunin tekur til, leyfið verði bundið þeim skilyrðum sem þar koma fram um er varðar að framkvæmdir innan svæðisins fari ekki fram á varptíma, áburðargjöf verði haldið í lágmarki og minjaskráning verði framkvæmd innan svæðisins. Tilhögun og umfang minjaskráningar verði unnin í samráði við Minjastofnun.
Mál nr. 32; Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 24 - 201 - 2403002F.
Lögð er fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa nr. 24 – 201.
e) Fundargerð 106. fundar stjórnar byggðasamlags UTU, 13. mars.
Mál nr. 1 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 106. fundar stjórnar byggðasamlags UTU sem haldinn var 13. mars 2024.
Mál nr. 1; Samþykktir UTU.
Lagðar fram til umræðu uppfærðar samþykktir UTU þar sem búið er að bæta við seyruverkefni sveitarfélaganna inn í samþykktirnar í samræmi við samstarfssamning seyruverkefnisins sem verkefnið var áður undir, að öðru leiti er um minniháttar breytingar að ræða á samþykktunum.
Sveitarstjórn staðfestir framlagðar samþykktir og vísar til síðari umræðu.
f) Fundargerð 107. fundar stjórnar byggðasamlags UTU, 27. mars 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 107. fundar stjórnar byggðasamlags UTU sem haldinn var 27. mars 2024.
g) Fundargerð 234. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 21. mars 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 234. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands sem haldinn var 21. mars 2024.
h) Fundargerð 210. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga, 22. mars 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 210. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga sem haldinn var 22. mars 2024.
i) Fundargerð 946. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 15. mars 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 28. febrúar 2024.
2. Gjaldskrá hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur breytt gjaldskrá hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem verið er að bæta inn gjaldliðum vegna stærri tenginga.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána samhljóða.
3. Gjaldskrá kaldavatnsveitu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur breytt gjaldskrá kaldavatnsveitu Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem verið er að bæta inn gjaldliðum vegna stærri tenginga.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána samhljóða.
4. Gjaldskrá fyrir fráveitu og meðhöndlun seyru í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur breytt gjaldskrá fyrir fráveitu og meðhöndlun seyru í Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem verið er að bæta inn gjaldliðum vegna stærri tenginga.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána samhljóða.
5. Skipun í vinnuhóp vegna hönnunar á göngu- og hjólastígum í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins kemur fram að fyrirhugað er að fara af stað með hönnunarvinnu á göngu- og hjólastígum í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipa eftirfarandi í vinnuhóp til þess að hefja verkefnið.
Björn Kristinn Pálmarsson, Önnu Maríu Danielsdóttur og Steinar Sigurjónsson umsjónarmann umhverfismála.
Umsjónaraðili verkefnisins verður Guðrún Ása Kristleifsdóttir heilsu- og tómstundafulltrúi.
6. Skipun í vinnuhóp vegna hönnunar á útisvæði við sundlaugina á Borg.
Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins kemur fram að fyrirhugað er að fara af stað með hönnunarvinnu á útisvæði við sundlaugina á Borg.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipa eftirfarandi í vinnuhóp til þess að fylgja verkefninu úr hlaði.
Björn Kristinn Pálmarsson, Karl Þorkelsson og Hans Guðmund Magnússon forstöðumann íþróttamiðstöðvarinnar Borg.
Umsjónaraðili verkefnisins verður Ragnar Guðmundsson, umsjónarmaður framkvæmda- og veitna.
7. Aðalskipulagsbreyting vegna skógræktar.
Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi kom inn á fund sveitarstjórnar og fór yfir tillögu að aðalskipulagsbreytingu vegna skógræktar sem unnin hefur verið af skipulagsfulltrúa og kjörnum fulltrúum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að farið verði í aðalskipulagsbreytingu og að unnin verði skipulagslýsing vegna breytinga á skilmálum í aðalskipulagi vegna skógræktar.
8. Ársreikningur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir árið 2023.
Ársreikningur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir árið 2023 lagður fram til kynningar.
9. Ársreikningur Samtaka orkusveitarfélaga fyrir árið 2023.
Ársreikningur Samtaka orkusveitarfélaga fyrir árið 2023 lagður fram til kynningar.
10. Boð á aðalfund Háskólafélags Suðurlands 2024.
Fyrir liggur að aðalfundur Háskólafélags Suðurlands 2024 verður haldinn þriðjudaginn 23. apríl í Fjölheimum á Selfossi, ásamt því að hægt verður að sitja fundinn í formi fjarfundar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Björn Kristinn Pálmarsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.
11. Niðurstöður könnunar á vátryggingum Grímsnes- og Grafningshrepps.
Lagt fram til kynningar minnisblað frá Consello ehf dagsett 20. mars 2024, um yfirferð á töxtum og iðgjöldum vátrygginga sveitarfélagsins.
12. Atvinnubrú – fólk og auðlindir samfélagsins.
Fyrir liggur bréf frá Helgu Kristínu Sæbjörnsdóttur, fyrir hönd Háskólafélags Suðurlands, dagsett 18. mars 2024. Í bréfinu er áhersluverkefnið „Atvinnubrú“ kynnt, en Háskólafélagið stýrir verkefninu. Tilgangurinn er að auka tækifæri sunnlenskra háskólanema á þátttöku á rannsóknum í heimabyggð, sem og auka tengingu þeirra við fyrirtækin á svæðinu.
Lagt fram til kynningar.
13. Könnun á áformum um uppbyggingu ljósleiðara aðgangsneta.
Fyrir liggur bréf frá Fjarskiptastofu, dagsett 19. mars 2024. Í bréfinu kallar Fjarskiptastofa að ósk fjarskiptasjóðs eftir áformum fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu ljósleiðara-aðgangsneta á þéttbýlisstöðum og í byggðakjörnum fyrir árslok 2026.
Sveitarstjóra falið að svara erindinu.
14. Bréf frá Matthíasi Arngrímssyni um áhrif vindmylla á flug.
Fyrir liggur bréf frá Matthíasi Arngrímssyni dagsett 1. apríl 2024 þar sem farið er yfir niðurstöður EASA varðandi alvarleg og neikvæð áhrif vindmylla á flug.
Lagt fram til kynningar.
15. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs fyrir gistingu í flokki II, C Minna gistiheimili að Þrastarhólum 2 fnr. 234-4055.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 8. mars 2024 um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II C, minna gistiheimili að Þrastarhólum 2, 805 Selfossi, fnr. 234-4055.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II C að Þrastarhólum 2, fnr. 234-4055 á þeim grundvelli að leyfisveitingin samræmist ekki heimildum gildandi deiliskipulags svæðisins.
Sveitarstjórn bendir á að heimildir aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 gera ráð fyrir að gististarfsemi geti verið á frístundasvæðum. Þó er gerð krafa um að gististarfsemi sé skilgreind í skilmálum gildandi deiliskipulags. Heimildir fyrir gististarfsemi innan deiliskipulags eru háðar því að fjöldi bílastæða innan lóðar sé fullnægjandi og að enginn lóðarhafi innan deiliskipulagssvæðisins leggist gegn starfseminni við breytingu á deiliskipulagi eða við gerð nýs deiliskipulags.
16. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaða í flokki II, H að Fljótsbakka 31 fnr. 220-7213.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 19. mars 2024 um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II H, minna gistiheimili að Fljótsbakka 31, 805 Selfossi, fnr. 220-7213.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II C að Fljótsbakka 31, fnr. 220-7213 á þeim grundvelli að leyfisveitingin samræmist ekki heimildum gildandi deiliskipulags svæðisins.
Sveitarstjórn bendir á að heimildir aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 gera ráð fyrir að gististarfsemi geti verið á frístundasvæðum. Þó er gerð krafa um að gististarfsemi sé skilgreind í skilmálum gildandi deiliskipulags. Heimildir fyrir gististarfsemi innan deiliskipulags eru háðar því að fjöldi bílastæða innan lóðar sé fullnægjandi og að enginn lóðarhafi innan deiliskipulagssvæðisins leggist gegn starfseminni við breytingu á deiliskipulagi eða við gerð nýs deiliskipulags.
17. Ákall eftir sjónarmiðum vegna endurskoðunar laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Fyrir liggur tölvupóstur frá starfshópi á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, dagsettur 20. mars 2024.
Í tölvupóstinum kemur fram að starfshópnum er ætlað að endurskoða frá grunni lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 (rammaáætlun). Starfshópurinn vill stuðla að því með tölvupóstinum að helstu hagaðilar séu upplýstir um áformaskjal sem hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Lagt fram til kynningar.
18. Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 90/2024, „Kosningar – meðferð utankjörfundaratkvæða“.
Lagt fram til kynningar.
19. Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn um 143. mál um málefni aldraðra (réttur til sambúðar).
Lagt fram til kynningar.
20. Umsögn sveitarstjórnar um Aðgerðaráætlun landbúnaðarstefnu.
Lögð fram til kynningar umsögn sveitarstjórnar um Aðgerðaráætlun landbúnaðarstefnu.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fagnar því að sett sé á laggirnar aðgerðaráætlun um landbúnaðarstefnu þar sem stoðir fæðukerfa og fæðuöryggis landsins verði styrktar með því m.a. að styðja við nýsköpun í landbúnaði og stuðla að aukinni sjálfbærni með tilliti til aðfanga, jarðvegsverndar, auðlindanýtingar og hringrásarhagkerfisins. Jafnframt er ánægjulegt að sjá það stefnumið að aðgengi að heilnæmum mat verði óháð efnahag.
Jákvætt er að sjá að styðja eigi við landbúnað á ýmsum sviðum en sveitarstjórn vill koma með ábendingar um að passa verði upp á að þessar aðgerðir verði á engan hátt íþyngjandi fyrir bændur og fæli fólk frá atvinnugreininni. Jafnframt verði að tryggja fjármögnun verkefnanna þannig að kostnaður lendi ekki á bændum.
21. Umsögn sveitarstjórnar um Aðgerðaráætlun matvælastefnu.
Lögð fram til kynningar umsögn sveitarstjórnar um Aðgerðaráætlun matvælastefnu.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fagnar því að sett sé á laggirnar aðgerðaráætlun um matvælastefnu þar sem leggja eigi áherslu á fæðuöryggi í landinu þannig að þjóðin verði minna háð innfluttum hráefnum og aðföngum og styrkja þá um leið fjölbreytta innlenda matvælaframleiðslu.
Sveitarstjórn leggur mikla áherslu á að sömu kröfur verði gerðar til innfluttra matvæla og gerðar eru til innlendra matvælaframleiðenda.
Ein af aðgerðum aðgerðaráætlunar matvælastefnu er að samræma matvælaeftirlit um allt land og setja undir eina stofnun. Sveitarstjórn leggur ríka áherslu á að fyrirhugaðar breytingar muni ekki fela í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélög og að í áframhaldandi vinnu sé haft náið samráð við sveitarfélög, heilbrigðiseftirlitsnefndir og aðra hagaðila.
Önnur aðgerð í aðgerðaráætluninni er söfnunarkerfi fyrir dýraleifar. Sveitarstjórn telur þörf á að gott samráð verði haft við alla hagsmunaaðila t.d. sveitarfélögin og bændur um þessa aðgerð.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps er að sjálfsögðu reiðubúin til frekara samráðs og samtals um þau atriði sem fram koma í umsögn þessari.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 11:23.

Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?