Fara í efni

Sveitarstjórn

349. fundur 02. júlí 2014 kl. 09:00 - 11:50 Stjórnsýsluhúsið Borg
Sveitarstjórn
  • Gunnar Þorgeirsson
  • Hörður Óli Guðmundsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Guðmundur Ármann Pétursson
  • Sigrún Jóna Jónsdóttir
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir

Oddviti leitar afbrigða

a)     Kauptilboð í Borgarbraut 20.

 
1.   Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 16. júní 2014.
Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 16. júní 2014 liggur frammi á fundinum.

 
2.     Fundargerðir.

a)     73. fundur Skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita, 30. júní 2014.

Mál nr. 3, 7, 9, 12, 17, 18, 28 og 29 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.

Lögð fram 73. fundargerð Skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita, dags. 30. júní 2014. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 3: Stöðuleyfi_Útilífsmiðstöð Skáta á Úlfljótsvatni

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að byggingarfulltrúi veiti stöðuleyfi sbr. fyrirliggjandi erindi í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar fram til loka apríl 2015. Skilyrði fyrir leyfisveitingu er að geymslu gámar við vatn verði málaðir í jarðarlitum þannig að þeir verði ekki áberandi í umhverfinu. Þá má ekki ganga frá þeim á varanlegan hátt þar sem gera þarf ráð fyrir að þeir verði fjarlægðir þegar varanleg lausn liggur fyrir.

Mál nr. 7: Afgreiðslur byggingarfulltrúa.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 22. maí til 19. júní 2014.

Mál nr. 9: LB_Úlfljótsvatn Straumnes lnr. 220711 - ný 3,6 ha spilda

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar og frestar afgreiðslu málsins þar til fyrir liggja lagfærð gögn í samræmi við ábendingar skipulagsfulltrúa 

Mál nr. 12: Brekkur 17

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að heimilt verði að byggja húsið 3m út fyrir byggingarreit vegna aðstæðna í lóðinni. Það sé heimilt skv. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Mál nr. 17: Borun niðurrennslishola á Nesjavöllum

Sveitarstjórn hafnar því að veita leyfi fyrir borun niðurrennslishola nema að undangenginni breytingu á deiliskipulagi. Að mati sveitarstjórnar væri slík breyting veruleg, sveitarstjórn óskar eftir umsögn Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á áhrif framkvæmdanna áður en afstaða er tekin.

Mál nr. 18: Kiðjaberg - endursk. deiliskipulag

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að deiliskipulagsbreytingin eins og hún hefur nú verið lögð fram verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og að þeim aðilum sem gerðu athugasemdir verði sérstaklega tilkynnt um auglýsinguna.

Mál nr. 28: Formaður og varaformaður nefndar

Gunnar Þorgeirsson, Grímsnes- og Grafningshreppi, var kosinn formaður og Ragnar Magnússon, Hrunamannahreppi, varaformaður.

Mál nr. 29: Fundartími nefndar

Pétur Ingi skipulagsfulltrúi kom með þá tillögu að frá og með september verði haldnir tveir fundir í skipulagsnefnd í hverjum mánuði í stað eins. Fundir verða þá almennt annan og fjórða fimmtudag í hverjum mánuði kl. 9. Skipulagsfulltrúi mun setja inn fundartíma í Granna. Næsti fundur nefndarinnar verður fimmtudaginn 31. júlí og í ágúst verður fundur haldinn þann 21.

 
b)    Fundargerð 8. fundar samgöngunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 15. júní 2014.
Fundargerðin lögð fram og hún staðfest.

 
3.   Kennslukvóti grunnskóladeildar Kerhólsskóla.
Fyrir liggur beiðni frá skólastjóra Kerhólsskóla, Sigmari Ólafssyni um aukinn kennslukvóta vegna skólaársins 2014/2015. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kennslukvóti skólaársins 2014/2015 verði 164,4 stundir.

 
4.   Málefni Kerhólsskóla.
Sveitarstjóri fór yfir stöðu starfsmannamála í Kerhólsskóla. Auglýst hefur verið eftir aðstoðarleikskólastjóra ásamt þroskaþjálfa og er umsóknarfrestur til 15. júlí n.k.

Jafnframt er lagður fram starfslokasamningur við aðstoðarleikskólastjóra, Erlu Baldursdóttur. Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi samning.

Erlu Baldursdóttur er þökkuð góð störf.

Fulltrúar K-lista leggja fram eftirfarandi bókun: Undirrituð fagna því að sátt sé að nást í starfi leikskóladeildar Kerhólsskóla.

Að fagmenntaður leikskólakennari leiði faglegt starf leikskóladeildar er nauðsynlegt og gott að víðtæk samstaða sé um að vinna því brautargengi. 

 
Það er ekki ásættanlegt að skólastjóri mæti ekki fund sveitarstjórnar sem hann er boðaður á með góðum fyrirvara til að gera sveitarstjórn grein fyrir fyrirkomulagi, stefnu og starfsmannahaldi skólans.

 

Gert var hlé á fundinum kl. 10:30

Fundi framhaldið kl. 10:38

 
Fulltrúar C-lista vilja benda á að skólastjóri er í sumarleyfi og hafði ekki tök á að mæta á fundinn. Jafnframt hefur starfsmannahald grunnskóladeildar legið fyrir frá lokum skólaársins.

 

5.   Tilboð í lóðarframkvæmdir við Kerhólsskóla.
Fyrir liggur minnisblað frá Berki Brynjarssyni vegna verðkönnunar í skólalóð. Tilboð bárust frá Ólafi Jónssyni að fjárhæð kr. 7.717.750, Guðmundi Jóhannessyni að fjárhæð kr. 6.567.171, Jóni Ingileifssyni ehf. að fjárhæð kr. 6.339.500 og Suðurtak ehf. að fjárhæð kr. 5.299.898. Kostnaðaráætlun er að fjárhæð kr. 7.200.000. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka lægsta tilboði hjá Suðurtak ehf. og felur sveitarstjóra/oddvita að undirrita verksamninginn.

 
6.       Beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokki II (sumarhús) í Kjarrengi 7, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokki II í Kjarrengi 7, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt en óskar jafnframt eftir afriti af rekstrarleyfi þegar það er gefið út.

 
7.       Beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna leyfis til reksturs veitingastaðar í flokki II í Minni-Borgum, veitingahús, Minni-Borg, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna leyfis til reksturs veitingastaðar í flokki II í Minni-Borgum, veitingahús, Minni-Borg, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt.

 
8.       Beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna breytinga á rekstararleyfum úr rekstri gististaða í flokki II og veitingarstaðar í flokki II í það að verða gististaðir í flokki V í Hótel Grímsborgum, Ásborgum 1, 3, 5, 9, 15, 17, 19, 21 og 48, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur beiðni frá Sýslumanninum á Selfossi um umsögn vegna breytinga á rekstararleyfum úr rekstri gististaða í flokki II og veitingarstaðar í flokki II í það að verða gististaðir í flokki V í Hótel Grímsborgum, Ásborgum 1, 3, 5, 9, 15, 17, 19, 21 og 48, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytingar á rekstrarleyfunum.

 
9.       Beiðni um styrk frá Bakkatríóinu GG og Ingibjörg.
Fyrir liggur beiðni um styrk frá Bakkatríóinu GG og Ingibjörg að fjárhæð kr. 35.000 vegna tónleikahalds á sundlaugarbökkum á Suðurlandi. Sveitarstjórn hafnar erindinu. 

 
10.    Beiðni um styrk frá Skákfélaginu Hrókurinn.
Fyrir liggur beiðni um stuðning við starf Hróksins í þágu barna og ungmenna á Grænlandi og Íslandi. Sveitarstjórn hafnar erindinu.

 
11.    Beiðni um styrk frá Félagi landeigenda í Vaðnesi og Orkubúi Vaðnes vegna uppbyggingar á vegi sem liggur að dæluskúr Orkubús Vaðnes og sumarhúsum.
Fyrir liggur beiðni um styrk frá Félagi landeigenda í Vaðnesi og Orkubúi Vaðnes vegna vegbóta á vegi frá Vaðnesvegi að dælustöð Orkubús Vaðnes. Sveitarstjórn frestar erindinu og felur oddvita að ræða við umsækjendur.

Fulltrúar K-lista leggja fram eftirfarandi tillögu: Undirrituð leggja til að í upphafi hvers árs verði auglýst eftir óskum um vegstyrki í sveitarfélaginu. Þar falli undir allar þær vegbætur sem sveitarfélagið mögulega styrki s.s. til sumarhúsafélaga, landeigenda, lögaðila sem og vegna klæðninga á heimreiðar í samstarfi við Vegagerðina. 

Samgöngunefnd meti umsóknir og geri tillögu til  sveitarstjórnar á grundvelli fjárhagsáætlunnar sveitarfélagsins. 

 Fulltrúar C-listans hafna tillögunni.

 
12.    Erindi frá Be Iceland.
Fyrir liggur tölvupóstur, dagsettur 18. júní 2014 frá sölufulltrúum Be Iceland, ferðamanna appsins þar sem verið er bjóða sveitarfélaginu skráningu í appið. Sveitarstjórn hafnar erindinu.

 
13.    Bréf frá Elfu Dís Arnórsdóttur vegna hjólhýsa í skipulögðum frístundahverfum.
Fyrir liggur bréf frá Elfu Dís Arnórsdóttur, dagsett 16. júní 2014 varðandi reglur um hjólhýsi í skipulögðum sumarhúshverfum. Sveitarstjórn vísar málinu til byggingarfulltrúa.

 
14.    Bréf frá Þjóðskrá Íslands vegna fasteignamats 2015.
Fyrir liggur bréf frá Þjóðskrá Íslands, dagsett 13. júní 2014 um heildarfjárhæð gildandi fasteignamats og landsmats. Bréfið lagt fram til kynningar.

 
15.    Bréf frá Innanríkisráðuneytinu vegna viðauka við fjárhagsáætlanir.
Fyrir liggur bréf frá Innanríkisráðuneytinu, dagsett 18. júní 2014 um meðferð viðauka við fjárhagsáætlanir. Bréfið lagt fram til kynningar.

 
16.    Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um fjármálastjórn sveitarfélaga.
Fyrir liggur bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dagsett 12. júní 2014 þar sem farið er yfir fjármálastjórn sveitarfélaga. Bréfið lagt fram til kynningar.

 

17.    Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna fjárhagslegra viðmiða sveitarstjórnarlaga.
Fyrir liggur bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dagsett 12. júní 2014 þar sem greint er frá að skuldahlutfall sveitarfélagsins sé yfir skuldaviðmiði. Óskað er eftir að sveitarfélagið skili 8 mánaða uppgjöri fyrir 1. október n.k. Sveitarstjóra falið að vinna að málinu.

 Fulltrúar K-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Í bréfi eftirlitsnefndar eru gerðar alvarlega athugasemdir við fjármál sveitarfélagsins sem og þær skýringar sem meirihluti sveitarstjórnar gefur eftirlitsnefndinni.

 Eftirlitsnefndin nefnir sérstaklega að ástæða þessarar alvarlegu stöðu sveitarfélagsins séu EKKI kaup sveitarfélagsins á eignum sem leigðar voru af Fasteign.  Eftirlitsnefndin tilgreinir að megin ástæða hærri skulda en áætlanir gerðu ráð fyrir sé fyrirhuguð sala að upphæð 150 milljón króna (golfvöllur á Borg) sem ekki gangi eftir.

 Undirrituð leggja áherslu á að farið verði strax að tilmælum eftirlitsnefndarinnar og að farið verði yfir fjármál sveitarfélagsins og lögð fram áætlun þar sem lögbundnum skuldaviðmiðum verði raunverulega náð.

 
18.    Önnur mál.
a)     Fyrir liggur kauptilboð í húseignina að Borgarbraut 20 frá Birgi Leó Ólafssyni f.h. óstofnaðs hlutafélags. Sveitarstjórn hafnar samhljóða fyrirliggjandi tilboði.

  

Til kynningar
SASS.  Fundargerð  480. stjórnarfundar 04.06 2014.
Bréf frá Minjaverði Suðurlands, dagsett 13. júní 2014 vegna umsagnarbeiðni deiliskipulags í landi Miðengis, Grímsnes- og Grafningshreppi.
 

                                                    

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 11:50

Getum við bætt efni síðunnar?