Fara í efni

Sveitarstjórn

370. fundur 03. júní 2015 kl. 09:00 - 10:20 Stjórnsýsluhúsið Borg
Sveitarstjórn
  • Gunnar Þorgeirsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Hörður Óli Guðmundsson
  • Guðmundur Ármann Pétursson
  • Sigrún Jóna Jónsdóttir
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir

1.    Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. maí 2015.  

Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. maí 2015 liggur frammi á fundinum.

 
2.      Fundargerðir.

a)      Fundargerð 45. fundar fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 13. maí 2015.

Mál nr. 3 og 5 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 45. fundargerð fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 13. maí 2015.

Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 3: Skólastarfið, grunnskóladeild og leikskóladeild.
Fræðslunefnd skorar á sveitarstjórn að kaupa stóla fyrir leikskóladeild til að öll börn hafi sæti og að þeir verði keyptir án þess að það hafi áhrif á rekstur skólans. Sveitarstjóra falið að vinna að lausn málsins í samráði við skólastjóra.

Mál nr. 5: Önnur mál.
a)   Fræðslunefnd skorar á skólastjórn í samráði við sveitarstjórn að halda fund með foreldrum elstu bekkjanna í Kerhólsskóla til að ræða fyrirhugaðar breytingar á málum 9. og 10. bekkjar. Nú þegar hefur verið sent bréf heim til allra foreldra barna í Kerhólsskóla og þann 11. júní n.k. verður íbúafundur í Félagsheimilinu Borg þar sem meðal annars skýrsla Capacent verður kynnt ásamt því að málefni 9. og 10. bekkjar verða rædd.

 
b)     90. fundur Skipulagsnefndar Uppsveita, 28. maí 2015.

Mál nr. 19 og 22 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 90. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dags. 28. maí 2015. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 19: 1505059 - Nesjavellir 170930: Afmörkun lóðar.
Lögð fram umsókn um staðfestingu á afmörkun og stærð lóðar með lnr. 170930 utan um 41,9 fm sumarhús í landi Nesjavalla í Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afmörkun og stærð lóðarinnar.

Mál nr. 22: 1505002F - Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 15-07.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 20. maí 2015.

 
c)      Fundargerð 1. fundar samstarfsnefndar lögreglustjóra og sveitarstjóra í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi ásamt samstarfsyfirlýsingu, 25. mars 2015.

Samstarfsyfirlýsingin þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 1. fundargerð samstarfsnefndar lögreglustjóra og sveitarstjóra í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi, dags. 25. mars 2015. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Samstarfsyfirlýsing.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi samstarfsyfirlýsingu.

 
3.    Endurskoðun aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur verk- og kostnaðaráætlun frá Pétri H. Jónssyni, skipulagsfræðingi, vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tilboð og felur sveitarstjóra / oddvita að undirrita samninginn.

 
4.    Bréf frá Félagi sumarhúsaeigenda í Oddsholti vegna beiðni um hitaveitu.
Fyrir liggur bréf frá Félagi sumarhúsaeigenda í Oddsholti, dagsett 26. maí 2015 þar  sem óskað er eftir að lagt verði heitt vatn í sumarhúsahverfið í Oddsholti. Skv. fundargerð veitunefndar þann 5. september 2014 var það bókað að 25 umsækjendur þyrfti að lágmarki til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir.  Sveitarstjórn telur að það sé lágmarksfjöldi svo koma megi framkvæmdinni  í fjárhagsáætlun.

 
5.        Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokki V í Hótel Grímsborgum, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 26. maí 2015  um umsögn vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokki V í Hótel Grímsborgum, Ásborgum 23, Grímsnes- og Grafningshreppi. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að leyfið verði veitt en óskar jafnframt eftir afriti af rekstarleyfi þegar það er gefið út.

 
6.        Bréf frá kennurum Kerhólsskóla vegna óánægju með sálfræðiþjónustu hjá Skólaþjónustu Árnesþings.
Fyrir liggur bréf frá kennurum Kerhólsskóla, dagsett 20. maí 2015 þar sem kennarar lýsa yfir óánægju með seinagang skólaþjónustunnar og að ekki sé boðlegt að nemendur bíði í heilt skólaár eftir sálfræðiþjónustu. Nýverið var verið að auglýsa eftir sálfræðingi til starfa hjá Skóla- og velferðaþjónustu Árnesþings og liggur fyrir að ráðið verði í stöðuna á næstu dögum. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir þannig að vandinn verði leystur.

 
7.        Tölvupóstur frá Guðmundi Guðmundssyni þar sem óskað er eftir styrk vegna Brú til Borgar 2015.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Guðmundi Guðmundssyni, dagsettur 22. maí 2015 þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið styrki hátíðina Brú til Borgar með afnotum af Félagsheimilinu Borg þann 29. ágúst n.k. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi beiðni.

 
8.        Bréf frá Umhverfisstofnun vegna endurskoðunar á samningi Umhverfisstofnunar og sveitarfélaga um refaveiðar 2014 – 2016.
Fyrir liggur bréf frá Umverfisstofnun, dagsett 20. maí 2015 vegna endurskoðunar á samningi Umhverfisstofnunar og sveitarfélaga um refaveiðar 2014 – 2016. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi viðauka við samninginn.

 
9.        Tölvupóstur frá framkvæmdarstjóra SASS þar sem óskað er eftir tilnefningum á tveimur kjörnum fulltrúum til þátttöku á fundum um svæðisskipulag ásamt skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Alta um hópaumræður á skipulagsráðstefnu SASS.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Bjarna Guðmundssyni framkvæmdarstjóra SASS, dagsettur 19. maí 2015 þar sem óskað er eftir tilnefningu á tveimur kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins til þátttöku á fundum um svæðisskipulag og mögulegt hlutverk þess við byggðaþróun. Jafnframt er lögð fram samantekt ráðgjafafyrirtækisins Alta um hópaumræður á skipulagsráðstefnu SASS sem haldin var þann 25. mars s.l.

Sveitarstjórn  samþykkir samhljóða að Hörður Óli Guðmundsson og Sigrún Jóna Jónsdóttir verði fulltrúar sveitarfélagsins á fundunum.

 
10.    Tölvupóstur frá Kristínu Hreinsdóttur, verkefnisstjóra SASS þar sem óskað er eftir tilnefningu á tveimur fulltrúum til að skipuleggja menntaþingin fimm á Suðurlandi.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Kristínu Hreinsdóttur, verkefnisstjóra SASS, dagsettur 20. maí 2015 þar sem óskað er eftir tilnefningu á tveimur fulltrúum sveitarfélagsins til að skipuleggja menntaþingin fimm á Suðurlandi. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Guðný Tómasdóttir, formaður fræðslunefndar og Sigmar Ólafsson, skólastjóri verði fulltrúar sveitarfélagsins.

 
11.    Bréf frá Innanríkisráðuneytinu vegna staðfestingar á samþykktum Bergrisans.
Fyrir liggur bréf frá Innanríkisráðuneytinu, dagsett 27. maí 2015 vegna staðfestingar á samþykktum fyrir byggðasamlagið Bergrisann bs. um málefni fatlaðs fólks á Suðurlandi. Lagt fram til kynningar.

 
12.    Bréf frá Varasjóð húsnæðismála um framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennum markaði.
Fyrir liggur bréf frá Varasjóð húsnæðismála, dagsett 21. maí 2015 um framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennum markaði. Lagt fram til kynningar.

 
13.    Bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins á drögum að reglum um staðfestingu ráðherra á gjaldskrám hitaveitna.
Fyrir liggur bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dagsett 20. maí 2015 þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins á drögum að reglum um staðfestingu ráðherra á gjaldskrám hitaveitna. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi drög.

 
14.    Skipulagsbreyting vegna Borgarbrautar 20.
Fyrir liggur tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2008-2020 innan þéttbýlisins Borg. Breytingin nær til lóðarinnar Borgarbraut 20 sem í dag er skilgreind sem svæði fyrir opinbera þjónustu og var rekinn þar leikskóli þar til hann var fluttur í núverandi skólahúsnæði. Fyrirhugað er að breyta húsi sem stendur á lóðinni í íbúðarhús og þarf því að breyta landnotkun í íbúðarsvæði.

Að mati sveitarstjórnar er um óverulega breytingu á aðalskipulagi að ræða þar sem hún hefur ekki áhrif á einstaka aðila eða stór svæði auk þess sem byggingarmagn breytist ekki. Þá er líklegt að breytingin hafi í för með sér minni umferð og þar með jákvæð áhrif á aðliggjandi íbúðarsvæði. Breytingin er samþykkt skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

 
Jafnframt liggur fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi þéttbýlisins Borg. Breytingin nær til lóðarinnar Borgarbraut 20 sem í gildandi skipulagi er lóð fyrir leikskóla. Þar sem starfsemi leikskólans hefur verið flutt er gert ráð fyrir að breyta lóðinni í íbúðarhúsalóð þar sem sömu skilmálar munu gilda eins og um aðrar íbúðarhúsalóðir á Borg.

Að mati sveitarstjórnar er um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða þar sem hún hefur ekki mikil áhrif á byggingarmagn lóðar, útlit eða form. Þá er líklegt að breytingin hafi í för með sér minni umferð og þar með jákvæð áhrif á aðliggjandi íbúðarsvæði. Breytingin er samþykkt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar fyrir eigendum húsa við Borgarbraut 8-18.

 
15.    Kauptilboð í landspildu úr landi Stóru-Borgar.
Fyrir liggur kauptilboð Grímsnes- og Grafningshrepps í landspildu úr landi Stóru-Borgar að fjárhæð kr. 4.600.000. Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi tilboð og felur oddvita að ganga frá kaupunum.

 
16.    Sumarleyfi sveitarstjórnar og næstu fundir hennar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að sveitarstjórn verði í sumarleyfi seinni fund í júlí og fyrri fund í ágúst. Jafnframt ætti næsti fundur sveitarstjórnar að vera þann 17. júní n.k. Fundir sveitarstjórnar sumarið 2015 verða því þriðjudaginn 16. júní, miðvikudaginn 1. júlí og miðvikudaginn 19. ágúst. Fundirnir hefjast allir kl. 9:00 f.h.

 
17.    Sumarlokun á skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sveitarstjórn samþykkir að skrifstofa Grímsnes- og Grafningshrepps verði lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá 27.  júlí til og með 14. ágúst 2015.

 

 
Til kynningar
SASS.  Fundargerð  490. stjórnarfundar 06.02 2015.
SASS.  Fundargerð  491. stjórnarfundar 16.02 2015.
SASS.  Fundargerð  492. stjórnarfundar 06.03 2015.
SASS.  Fundargerð  493. stjórnarfundar 08.04 2015.
SASS.  Fundargerð  494. stjórnarfundar 08.05 2015.
Skýrsla Attentus, mannauður  og ráðgjöf, fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Niðurstaða könnunar á innleiðingu og framkvæmd laga nr. 90/2008 um leikskóla og 91/2008 um grunnskóla.
Háskólafélag Suðurlands, ársreikningur 2014 ásamt skýrslu.
-liggur frammi á fundinum-.
Velferð málgagn og fréttabréf hjartaheilla, 1. tbl. 27. árg. 2015.
-liggur frammi á fundinum-.
Bæklingur frá Vinnumálastofnun.
-liggur frammi á fundinum-.

 

 

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 10:20

 

 

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?