Fara í efni

Sveitarstjórn

441. fundur 03. október 2018 kl. 09:00 - 12:15 Stjórnsýsluhúsið Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Bjarni Þorkelsson
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir

1.    Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. september 2018.  

Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. september 2018 liggur frammi á fundinum.

 
2.      Fundargerðir.

a)      Fundargerð 72. fundar fræðslunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 12. september 2018.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

b)     Fundargerð 11. fundar húsnefndar Félagsheimilisins Borgar, 18. september 2018.

Mál nr. 2 og 3 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 11. fundargerð húsnefndar Félagsheimilisins Borgar, dags. 18. september 2018. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 2: Gólfefni í anddyri og kaffistofu.
Fyrir liggur að gólfteppið í anddyri og kaffistofu hússins er ónýtt og ljóst að þörf er á að skipta um gólfefni. Húsnefndin var sammála um að hafa teppi áfram og leggur til við sveitarstjórn að tekið verði tilboði ETC ehf. í polyamid teppi í bláum lit. Jafnframt óskar nefndin eftir að framkvæmdin verði eins fljótt og auðið er þar sem slysahætta hefur skapast af gamla teppinu. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka fyrrnefndu tilboði og efna til könnunar um lit á teppinu á íbúafundi sem haldinn verður mánudaginn 8. október n.k.

Mál nr. 3: Fjárhagsáætlun 2019.
Húsnefndin leggur til við sveitarstjórn að breyta gjaldskrá hússins fyrir stærri veislur og gera ráð fyrir starfsmanni í uppvask inn í leiguverðinu.

Jafnframt óskar húsnefndin eftir að sveitarstjórn setji fjármuni í fjárhagsáætlun næstu ára til áframhaldandi viðhalds. Fyrir fjárhagsárið 2019 verði settir fjármunir í áætlun til að mála salinn og laga rennur utan á húsinu, einnig fjármunir til kaupa á teppahreinsivél, flatskjá og búnaði til að snúa skjávarpanum. Fyrir fjárhagsárið 2020 verði settir fjármunir í klæðningu utan á húsið.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að tekið verði tillit til þess að einhverju leyti við gerð fjárhagsáætlunar.

c)      Fundargerð 163. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 25. september 2018.

Mál nr. 17, 18, 19, 20, 21, 22, 23 og 35 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 163. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dags. 25. september 2018. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 17: 1805051 - Neðan-Sogsvegar 14 L169341: Norðurkot: Deiliskipulagsbreyting.
Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga að deiliskipulagsbreytingu fyrir Neðan-Sogsvegar 14 og 14B í Norðurkoti en hún felur í sér að lóð 14 stækkar úr 13.800m2 í 14.795,5 m2 og lóð 14B stækkar úr 18.000 m2 í 37.864,5 m2. Bætt er byggingarreiti inn á lóð 14 en hann er ekki til staðar í gildandi deiliskipulagi. Tillagan var auglýst frá 1. ágúst til 12. september 2018. Engar athugasemdir bárust.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu og felur skipulagsfulltrúa að senda til  Skipulagsstofnunar til afgreiðslu skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 18: 1802028 - Sólbrekka: Frístundabyggð: Syðri-Brú: Deiliskipulag.
Lögð fram, að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga að deiliskipulagi fyrir Sólbrekku, frístundahúsasvæði úr landi Syðri-Brúar sem í aðalskipulagi er merkt sem F14a. Þar kemur m.a. fram að um er að ræða deiliskipulag svæðis sem er um 36 ha að stærð og byggðist upp að mestu á 8. og 9. áratung síðustu aldar. Helstu markmið deiliskipulagsins eru m.a. að staðfesta lóðamörk innan svæðisins, setja samræmda byggingarskilmála auk þess sem gert er ráð fyrir að bæta við 10 nýjum lóðum. Tillagan var auglýst frá 1. ágúst til 12. september 2018. Engar athugasemdir bárust.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu og felur skipulagsfulltrúa að senda til  Skipulagsstofnunar til afgreiðslu skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál nr. 19: 1701041 - Kerið 1 lnr 172724: Stækkun bílastæðasvæðis: Framkvæmdaleyfi.
Fyrir liggur umsókn Kerfélagsins ehf., dags. 18. september 2018 um framkvæmdaleyfi fyrir stækkun bílastæðis við Kerið í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt.

Sveitarstjórn synjar beiðni um gerð fleiri bílastæða á svæðið og óskar eftir að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið þar sem gert verði ráð fyrir nýrri vegtengingu og uppbyggingu nýrra bílastæða á svæðinu.

Mál nr. 20: 1809048 - Hólsbraut 18 L208947: Byggingarreitur: Fyrirspurn.
Lögð fram fyrirspurn frá Steinari Sigurjónssyni og Rebekku Lind Guðmundsdóttur um hvort heimilt verði að bygging sú sem fyrirhugað er að reisa að Hólsbraut 18 á Borg í Grímsnesi, fái að fara örlítið út fyrir merktan byggingarreit í gildandi deiliskipulagi samkvæmt meðfylgjandi teikningum. Í fyrirspurn er talið til raka að lóðin beri vel stækkun á byggingarreit og að auki sé ekki farið yfir leyfilegt nýtingarhlutfall á lóð.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu grenndarkynningar.

  
Mál nr. 21: 1808036 - Rimamói 9 (L169868): Umsókn um byggingarleyfi: Sumarhús – viðbygging.
Fyrir liggur umsókn Ingólfs Ólafssonar, dags. 15. ágúst 2018 um byggingarleyfi til að byggja við sumarhús heildarstærð eftir stækkun er 62 m2 á sumarhúsalóðinni Rimamói 9 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Lóðin er 10.000 m2 að stærð. Ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi fyrir umræddri stækkun á húsi svo fremi að byggingin uppfylli kröfur byggingarreglugerðar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að framkvæmdin verði grenndarkynnt.

Mál nr. 22: 1809054 - Kringla II L168259: Frístundabyggð Árvegur 1-12: Endurskoðað deiliskipulag.
Fyrir liggur umsókn Þráins Jónssonar f.h. landeiganda, dags. 18. september 2018 um tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi fyrir frístundabyggðina Árvegur 1-12 í landi Kringlu 2 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Við framkvæmd skipulagsins urðu veruleg frávik á legu vega og lóða þ.m.t. lóðastærðum. Í nýju deiliskipulagi hefur svæðið verið teiknað upp eins og það er í dag, á stafrænan, hnitasettan uppdrátt og lóðir málsettar miðað við svæðið. Ennfremur hafa skilmálar verið uppfærðir. Við gildistöku á þessu nýja uppfærða deiliskipulagi mun eldra gildandi deiliskipulag sem samþykkt var af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 5. júní 2003 skv. 25. gr. laga nr. 73/1997 falla úr gildi.

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins þar til fyrir liggur samþykki allra lóðarhafa á skipulagssvæðinu.

Mál nr. 23: 1809053 - Kringla II L168259: Kringla 4-8 og Þorkelsholt: Stofnun lóða.
Fyrir liggur umsókn Þráins Jónssonar f.h. landeiganda, dags. 18. september 2018 um stofnun sex landeigna úr jörðinni Kringla 2 L168259. Gert er ráð fyrir að lóðirnar fái heitin Kringla 4, 5, 6, 7, 8 og Þorkelsholt skv. meðfylgjandi lóðablöðum. Gert er ráð fyrir nýrri, sameiginlegri, vegtengingu að lóðum 6, 7 og 8 frá Sólheimavegi.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við stofnun né heiti spildnanna með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi landeigna. Þá er einnig gerður fyrirvari um umsögn Vegagerðarinnar fyrir vegtengingu að Kringlu 6, 7 og 8. Ekki eru gerðar athugasemdir við landskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

Mál nr. 35: 1809002F – Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 18 – 86.    
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 19. september 2018.

 
d)     Fundargerð 2. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu, 24. september 2018.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 
e)      Fundargerð 2. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga, 25. september 2018.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 
3.        Erindisbréf nefnda.
Fyrir liggja drög að erindisbréfum fyrir atvinnumálanefnd, æskulýðs- og menningarmálanefnd, samgöngunefnd og umhverfisnefnd.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.

 

 
4.        Kjördæmavika þingmanna kjördæmisins.
Fyrir liggur  tölvupóstur frá Ásmundi Friðrikssyni þingmanni Suðurkjördæmis, dags. 25. september 2018 þar sem kynnt er kjördæmavika þingmanna. Grímsnes- og Grafningshreppi býðst að hitta þingmennina í dag, 3. október kl. 14:00 í Aratungu.

Samþykkt er að allir kjörnir fulltrúar hafi kost á að fara.

 
5.        Boðsbréf frá Orkustofnun á sýninguna Íslenskur landbúnaður 2018 dagana 12. – 14. október.
Fyrir liggur boðsbréf frá Orkustofnun, dags. 20. september 2018 þar sem einum fulltrúa sveitafélagsins er boðið á sýninguna Íslenskur landbúnaður 2018 sem haldin er í Laugardalshöll dagana 12. – 14. október n.k.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Bjarni Þorkelsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á sýninguna. 


6.       
Aðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga.
Fyrir liggur að tilnefna þurfi fulltrúa sveitarfélagsins á aðalfund Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn verður þann 10. október n.k. Samþykkt er að Ása Valdís Árnadóttir verði fulltrúi sveitarfélagsins.

 
7.        Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Fyrir liggur að tilnefna þurfi fulltrúa sveitarfélagsins á ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn verður þann 10. október n.k. Samþykkt er að Ása Valdís Árnadóttir verði fulltrúi sveitarfélagsins.

 
8.        Tölvupóstur frá Stefáni Árna Einarssyni, forstjóra Límtré Vírnets ehf. vegna nýtingar á forkaupsrétti hlutabréfa félagsins.
Fyrir liggur  tölvupóstur frá Stefáni Árna Einarssyni, forstjóra Límtré Vírnets ehf., dags. 25. september 2018 þar sem sveitarfélaginu er gefinn kostur á að neyta forkaupsréttar síns í hlutum félagsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að neyta ekki forkaupsréttar síns.

 
9.        Bréf frá Kristjáni Óskarssyni, formanni Félags lóðareigenda í Farengi þar sem óskað er eftir styrk til að gera flóttaleiðir fyrir sumarhúsabyggð í landi Miðengis.
Fyrir liggur bréf frá formanni lóðareigenda í Farengi, dags. 30. september 2018 þar sem óskað er eftir styrk til að gera flóttaleiðir fyrir sumarhúsabyggð í landi Miðengis.

Sveitarstjórn fagnar því að sumarhúsafélög skoði flóttaleiðir út úr hverfunum. Þó hafnar sveitarstjórn samhljóða þessari styrkbeiðni en beinir því til samgöngunefndar að skoða styrkveitingar til uppbyggingar flóttaleiða innan sumarhúsahverfa.

 
10.    Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig staðið hafi verið að breytingum á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2016.
Fyrir liggur bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, dags. 13. september 2018 þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig staðið hafi verið að breytingum á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Sveitarstjóra falið að svara bréfinu.

 
11.    Tölvupóstur frá Einari Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsverði þar sem óskað er eftir umsögn og athugasemdum sveitarfélagsins við endurskoðaðri stefnumörkun þjóðgarðsins á Þingvöllum.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Einari Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsverði, dags. 7. september 2018 þar sem óskað er eftir umsögn og athugasemdum sveitarfélagsins við endurskoðaðri stefnumörkun þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Sveitarstjórn gerir eftirfarandi athugasemdir;

2.2 Stjórnskipulag þjóðgarðsins

Það er í hæsta máta eðlilegt og nauðsynlegt að í Þingvallanefnd sitji fulltrúi sveitarfélaganna í Árnessýslu. Ætla má að þátttaka ,,heimamanna“, sem eru sínum hnútum kunnugastir, myndi aðeins styrkja og bæta ímynd og umboð Þingvallanefndar.

 
6.2 - S10: Bújarðir

Engin ástæða er til þess til þess að takmarka búskaparhætti og búsetu með þeim hætti sem hér er gert. Er meiningin að skilyrða landnytjar og búsetu á Brúsastöðum við sauðfjárbúskap, búgrein sem á nú í vök að verjast og enginn veit hversu lengi enn fær staðist sem aðal-lifibrauð ábúandans á Brúsatöðum, fremur en annarra sauðfjárbænda?

Og er nauðsynlegt að á Kárastöðum verði um alla framtíð ,,aðeins búseta“? Það er trú okkar í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps, að fátt gleddi auga þjóðgarðsgesta meir en aukin umsvif í búrekstri á þessum jörðum, með tilheyrandi fjölbreyttu dýrahaldi og ræktun lands og búpenings. Full ástæða er til að rifja nú upp skuggahliðar Þjóðgarðsstofnunarinnar fyrir hartnær heilli öld, er bændur voru hraktir af jörðum sínum og þjóðgarðurinn rúinn töfrum sem gjarnan hefðu mátt prýða hann nú. Að ganga enn lengra í þessum efnum, eins og gefið er undir fótinn með í þessari stefnumörkun, það væri sannkallað óheillaspor.

Og hví má búskapur - og starfsemi á bújörðunum tveimur, sem standa þó eftir - ekki hafa ,,teljandi áhrif á þjóðgarðinn“? Er einhver ástæða til þess að gefa sér að þau áhrif yrðu neikvæð og aðeins neikvæð? Gildir þessi setning ef til vill líka þótt áhrifin yrðu jákvæð og aðeins jákvæð? – eins og sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps þykir nú trúlegast.

 
6.4.3 Reiðstígar

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fagnar framtaki þjóðgarðsmanna að bæta við reiðleiðum og bæta þær sem fyrir eru. Samkvæmt ,,Uppdrætti 6“ er ofangreind lýsing á reiðleiðum hins vegar alls ekki fullnægjandi. Sveitarstjórnin telur að annaðhvort ætti að vísa einungis í uppdráttinn eins og hann kemur fyrir, eða tilgreina í ritmálinu allar reiðleiðirnar, sem segja má að liggi að þjóðgarðinum úr öllum höfuðáttum - ýmist norðan af Kaldadalsvegi, austan úr Goðaskarði, Barmaskarði eða frá Kringlumýri, sunnan frá Þingvallasveitarbæjum og Mosfellsheiði, vestan úr Kjós eða af Leggjabrjót – og svo um þjóðgarðinn síðasta spölinn að Gjábakka eða Skógarhólum. Allur ferðamáti á þessum reiðleiðum yrði heimill, nema e.t.v. um Langastíg og götuna frá Gjábakka um Skógarkot og Hrauntún – þar er óhentugt og yrði óheimilt að vera með rekstur og lausa hesta vegna umferðarhættu.

Um áningarstaði er þetta að segja: Sjálfsagt er að bæta hér við a.m.k. tveimur skilgreindum áningarstöðum í þjóðgarðinum, enda eru þar afar heppilegt að æja, hvort sem komið er að norðan frá Sandkluftavatni eða austan úr Goðaskarði og áð á Hofmannaflöt -  eða vestan Leggjabrjót og Kjósarveg og staldrað við í Svartagili. Báðir áfangastaðir státa af miklu og kjarngóðu grasi, sem sannarlega sprytti engum til gagns, ef amast yrði við því að ferðahross tækju þar niður.

 
12.    Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn á frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, 25. mál.
Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 
13.    Beiðni Velferðarnefndar Alþingis um umsögn á tillögu til þingsályktunar um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, 19. mál.
Þingsályktunartillagan lögð fram til kynningar.

 
14.    Birt til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti grænbók um fjarskipti, netöryggismál, póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands.
Fyrir liggur að birt er til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti grænbók um fjarskipti, netöryggismál, póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands. Lagt fram til kynningar.

 
15.    Birt til umsagnar frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti drög að nýrri reglugerð um landverði.
Fyrir liggur að birt eru til umsagnar frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti drög að nýrri reglugerð um landverði. Drögin lögð fram til kynningar.

 
16.    Tölvupóstur frá Bergi Haukssyni, lögmanni fyrir hönd eigenda að Selmýrarvegi 9, Freyjustíg 14 og Stapa 10 vegna neikvæðrar umsagnar sveitarstjórnar við rekstrarleyfum.
Fyrir liggur  tölvupóstur frá Bergi Haukssyni, lögmanni fyrir hönd eigenda að Selmýrarvegi 9, Freyjustíg 14 og Stapa 10, dags. 25. september 2018 þar sem óskað er eftir rökum fyrir neikvæðri umsögn sveitarstjórnar við rekstarleyfum fyrrnefndra aðila. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela lögmanni sveitarfélagsins, Óskari Sigurðssyni hrl. að svara erindinu.

 
17.    Ósk skipulagsfulltrúa um heimild til að undirrita fyrir hönd sveitarfélaganna innan UTU, gildistöku aðalskipulagsbreytinga, gildistöku nýrra deiliskipulaga og gildistöku breytinga á gildandi deiliskipulagstillögum.
Rúnar Guðmundsson óskar eftir heimild frá öllum sveitarfélögum sem eru undir hatti UTU, til að undirrita fyrir f.h. sveitarfélaganna uppdrætti vegna gildistöku   gagnvart Skipulagstofnun eftirfarandi:

  • Uppdrætti vegna gildistöku Aðalskipulagsbreytinga
    • Uppdrætti vegna gildistöku nýrra deiliskipulagstillagna
    • Uppdrætti vegna gildistöku breytinga á gildandi deiliskipulagstillögum.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða umbeðna heimild.

 

 

 

Til kynningar
Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Fundargerð 190. stjórnarfundar 26.09 2018.
SASS.  Fundargerð  536. stjórnarfundar 18.09 2018.
Tölvupóstur frá Ungmennafélagi Íslands, dags. 21. september 2018 vegna Unglingalandsmóts UMFÍ 2021 og 2022.
Skipulagsstofnun, skýrslan „Mannvirki á miðhálendinu – framfylgdarverkefni Landsskipulagsstefnu 2015-2026.
-liggur frammi á fundinum-.

Getum við bætt efni síðunnar?