Fara í efni

Sveitarstjórn

448. fundur 23. janúar 2019 kl. 09:00 - 12:45 Stjórnsýsluhúsið Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Ingibjörg Harðardóttir
  • Bjarni Þorkelsson
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir

Oddviti leitar afbrigða við útsenda dagskrá.

Samþykkt samhljóða.
a)      Kvöð um forkaupsrétt.

  
1.    Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 9. janúar 2019.  
Fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 9. janúar 2019 liggur frammi á fundinum.

 
2.        Fundargerðir.

a)      Fundargerð 17. fundar samgöngunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, 9. janúar 2019.

Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 17. fundargerð samgöngunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 9. janúar 2019. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 1: Styrkbeiðni v/flóttaleiða frá sumarbústaðabyggðum.
Fyrir liggja tillögur samgöngunefndar að reglum og umsóknareyðublaði vegna styrkveitinga á flóttaleiðum í sumarhúsahverfum. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögur samgöngunefndar um styrki til uppbyggingar flóttaleiða og var gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun.

b)     Fundargerð 169. fundar Skipulagsnefndar Uppsveita, 16. janúar 2019.

Mál nr. 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26, 27 og 35 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 169. fundargerð Skipulagsnefndar Uppsveita, dags. 16. janúar 2019. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;

Mál nr. 20: 1812046 - Arnarbæli 1 L168227; Arnarbæli 1A, 1C, 1D, 1E og 1F; Stofnun lóða.
Fyrir liggur umsókn Grétars Ottó Róbertssonar, dags. 9. desember 2018 um stofnun 5 landeigna út úr jörðinni Arnarbæli 1 L168227. Meðeigendur Grétars hafa gefið samþykki sitt fyrir áformunum. Fyrirhugað er að spildurnar verði eftirfarandi: Arnarbæli 1A verður 208.1 ha að stærð, Arnarbæli 1C verður 5.43 ha að stærð, Arnarbæli 1D verður 8.66 ha að stærð, Arnarbæli 1E verður 97.13 ha að stærð, og Arnarbæli 1F verður 97.13ha að stærð. Eftir landskiptin verður Arnarbæli 1 skráð með stærðina 2.600 m2.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við skiptingu landsins né heiti nýju landeignanna. Ekki eru gerðar athugasemdir við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

Mál nr. 21: 1812047 - Kiðjaberg Golfvöllur L168257; Vélaskemma; Hliðrun á byggingarreit; Fyrirspurn.
Fyrir liggur beiðni Kiðjabergs ehf. um að hliðra til byggingarreit fyrir skemmu á golfvelli félagsins í gildandi deiliskipulagi Kiðjabergs.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir leiðréttingu á bókun skipulagsnefndar frá 169. fundi nefndarinnar þann 16. janúar 2019. Skipulagsnefnd samþykkti breytingu á gildandi deiliskipulagi Kiðjabergs sem óverulega en bókaði sem breytingu skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn samþykkir að gerð verði óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin felst í að lóð undir skemmu verði færð til vesturs. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu og  telur sveitarstjórn að breytingin hafi engin umhverfisleg áhrif sem geta talist veruleg.

Mál nr. 22: 1805051 - Neðan-Sogsvegar 14 L169341; Norðurkot; Deiliskipulagsbreyting.
Lögð fram að nýju, að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga að deiliskipulagsbreytingu fyrir Neðan-Sogsvegar 14 og 14B í Norðurkoti en hún felur í sér að lóð 14 stækkar úr 13.800 m2 í 14.795,5 m2 og lóð 14B stækkar úr 18.000 m2 í 37.864,5 m2. Bætt er byggingarreiti inn á lóð 14 en hann er ekki til staðar í gildandi deiliskipulagi. Tillagan var auglýst frá 1. ágúst til 12. september 2018. Engar athugasemdir bárust. Skipulagfulltrúi sendi deiliskipulagsbreytinguna til Skipulagstofnunar 17. október 2018 til lokaafgreiðslu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsstofnun hefur í bréfi, dags. 21. nóvember 2018 gert nokkrar athugasemdir sem snúa að tæknilegum útfærslum á gögnum. Skipulagsfulltrúi hefur unnið ásamt hönnuði að lagfæringum á gögnum til samræmis við ábendingar Skipulagsstofnunar og hafa uppfærð gögn verið send Skipulagsstofnun.

Sveitarstjórn hefur rætt þær athugasemdir sem fram komu í bréfi Skipulagsstofnunar og felur skipulagsfulltrúa að ljúka málinu í samráði við Skipulagsstofnun.

Mál nr. 23: 1901027 - Þóroddsstaðir lóð 7 L196933; Rekstrarleyfi í flokki II.
Lögð fram fyrirspurn frá Fögruborgum ehf. að heimila gistingu í atvinnuskyni, rekstrarleyfi í fl. II á Þóroddstöðum lóð 7, landnr. 196933, Grímsnes- og Grafningshreppi. Lóðin er á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Þóroddsstaða.

Sveitarstjórn hafnar breytingum á skipulagi sem gefa leyfi til reksturs í atvinnuskyni í frístundabyggðum þar sem starfsemin samræmist ekki skipulagi frístundabyggða.

Smári Bergmann Kolbeinsson og Bjarni Þorkelsson viku sæti við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 24: 1901026 - Þóroddsstaðir lóð 21 L194938; Rekstrarleyfi í flokki II.
Lögð fram fyrirspurn frá Fögruborgum ehf. að heimila gistingu í atvinnuskyni, rekstrarleyfi í fl. II á Þóroddstöðum lóð 21, landnr. 194938, Grímsnes- og Grafningshreppi. Lóðin er á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Þóroddsstaða.

  
Sveitarstjórn hafnar breytingum á skipulagi sem gefa leyfi til reksturs í atvinnuskyni í frístundabyggðum þar sem starfsemin samræmist ekki skipulagi frístundabyggða.

Smári Bergmann Kolbeinsson og Bjarni Þorkelsson viku sæti við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 25: 1901025 - Þóroddsstaðir lóð 2 L210271, 4 L210272 og 20 L210276); Rekstrarleyfi í flokki II.
Lögð fram fyrirspurn frá Fögruborgum ehf. að heimila gistingu í atvinnuskyni, rekstrarleyfi í fl. II á Þóroddstöðum lóð 2, landnr. 210271, lóð 4, landnr. 210272 og lóð 20, landnr. 210276, Grímsnes- og Grafningshreppi. Lóðirnar eru á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Þóroddsstaða.

Sveitarstjórn hafnar breytingum á skipulagi sem gefa leyfi til reksturs í atvinnuskyni í frístundabyggðum þar sem starfsemin samræmist ekki skipulagi frístundabyggða.

Smári Bergmann Kolbeinsson og Bjarni Þorkelsson viku sæti við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 26: 1811046 - Nesjavallavirkjun L170925; Borun vinnsluholu NJ-31 á orkuvinnslusvæði; Framkvæmdaleyfi.
Fyrir liggur beiðni Orku náttúrunnar um framkvæmdaleyfi til að bora vinnsluholu/uppbótarholu á orkusvæði Nesjavallavirkjunar sbr. umsókn dags. 18. nóvember 2018 og lýsingu verks dags. 28. nóvember 2018. Framkvæmdin er í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og mat á umhverfisáhrifum og einnig í samræmi við aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Markmiðið með borun uppbótarholu er að mæta rýrnun á gufuforða virkjunarinnar. Framkvæmdin felst í eftirfarandi: Gerð borholustæðis, borun vinnsluholu og lagning jarðstrengs ofanjarðar. Framkvæmdin tekur til vinnsluholu NJ-31 sem staðsett verður á borsvæði Nesjavallavirkjunar þar sem nú þegar hafa verið boraðar NJ-11, NJ-23, NJ-24 og NJ-25.

Fulltrúar ON mættu til fundarins og fóru yfir þær framkvæmdir og boranir sem hafa verið gerðar á svæðinu. Jafnframt mættu fulltrúar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps á fundinn. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi vegna borholu NJ-31.

Mál nr. 27: 1812014 - Þóroddsstaðir L168295; Þóroddsstaðir 1, 2 og 3; Stofnun lóða.
Lögð fram að nýju umsókn Bjarna Þorkelssonar um stofnun þriggja lóða úr landi Þóroddsstaða landnr. 168295. Fyrst er að nefna lóð sem á að stofna utan um núverandi íbúðarhús á Þóroddsstöðum, 1.587 m2 og á að fá heitið Þóroddsstaðir 1. Þá er 10.574 m2 lóð sem er staðsett vestast í landi Þóroddstaða (við Laugarvatnsveg) og á að fá heitið Þóroddsstaðir 2. Og sú þriðja, er staðsett austast í landinu við Stangarlæk og er 10.574 m2 og á að fá heitið Þóroddsstaðir 3.

Afgreiðslu var frestað þar sem talið var að skoða þurfti notkun lóðanna og aðkomu. Fyrir liggja nánari upplýsingar frá umsækjanda.

Skipulagsnefnd gerði ekki athugasemd við stofnun lóðanna með fyrirvara um umsögn Vegagerðarinnar. Varðandi heiti lóðanna benti skipulagsnefnd á að óæskilegt væri að tengja heiti frístundalóða við bæjarheiti með beinni númeraröð. Ekki var gerð athugasemd við 13. gr. jarðalaga.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi umsókn með fyrirvara um að deiliskipulag frístundabyggðar í landi Þóroddsstaða sem samþykkt var af sveitarstjórn þann 18. apríl 2018 verði uppfært í heild sinni til dagsins í dag. Gerður er fyrirvari um umsögn Vegagerðarinnar um vegtengingu við Þóroddsstaði 2. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða heiti lóðanna Þóroddsstaðir 1 og 2 með fyrirvara um að heiti lóða, í þegar uppbyggðu frístundahverfi í landi Þóroddsstaða fái heitið Langirimi í samræmi við örnefni á staðnum og vilja landeiganda. Þóroddsstaðir 3 eru innan fyrrnefnds deiliskipulags og fær því heitið Langirimi og númer í samræmi við deiliskipulagið. Ekki eru gerðar athugasemdir við 13. gr. jarðalaga.

Bjarni Þorkelsson vék sæti við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 35: 1812002F – Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 18 – 92.    

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 19. desember 2018.

 
3.        Úrgangsmál og endurvinnsla.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að hefja flokkun á lífrænum úrgangi í sveitarfélaginu sem allra fyrst og er oddvita og sveitarstjóra falið að vinna að samningi við Gámaþjónustuna og vinna málið áfram.

 
4.        Boðsbréf til sveitarstjórnar á ráðstefnu ungmennaráða á Suðurlandi.
Fyrir liggur boðsbréf til sveitarstjórnar á ráðstefnu ungmennaráða á Suðurlandi. Ráðstefnan fer fram dagana 30. – 31. janúar n.k. á Selfossi og ber yfirskriftina „Ungt fólk á Suðurlandi horfir til framtíðar“. Sveitarstjórn þakkar gott boð og samþykkir samhljóða að Ása Valdís Árnadóttir og Björn Kristinn Pálmarsson fari sem fulltrúar sveitarfélagsins á ráðstefnuna og varamenn verði Smári Bergmann Kolbeinsson og Ingibjörg Harðardóttir.

 
5.        Bréf frá Salvöru Nordal f.h. umboðsmanns barna þar sem óskað er eftir tengilið sveitarfélagsins við embættið.
Fyrir liggur bréf frá Salvöru Nordal f.h. umboðsmanns barna, dagsett 17. janúar 2019 þar sem óskað er eftir að tilnefndur verði tengiliður sveitarfélagsins við embættið. Fulltrúinn hefur það hlutverk að hafa milligöngu um þátttöku barna úr sveitarfélaginu á þing um málefni barna sem haldið verður dagana 21. – 22. nóvember 2019 í Reykjavík.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Gerður Dýrfjörð, tómstunda- og félagsmálafulltrúi verði tengiliður sveitarfélagsins.

 
6.        Afrit af bréfi frá Þjóðskrá Íslands þar sem kynnt er breytt fasteignamat eigna að Akurgerði 4, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur afrit af bréfi frá Þjóðskrá Íslands til eiganda eigna að Akurgerði 4, dagsett 11. desember 2018 þar sem kynnt er breytt fasteignamat eignarinnar. Bréfið lagt fram til kynningar.

 
7.        Birt til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti drög að frumvarpi til laga um skráningu einstaklinga.
Fyrir liggur að birt er til umsagnar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti drög að frumvarpi til laga um skráningu einstaklinga. Frumvarpið lagt fram til kynningar.

 
8.        Bréf frá Sigmundi Hannessyni hrl. f.h. erfingja Guðbjargar Guðsteinsdóttur þar sem óskað er eftir að fasteignagjöld húsakosts Nesjavallajarðarinnar verði færð í fyrra horf.
Fyrir liggur bréf frá Sigmundi Hannessyni hrl. f.h. erfingja Guðbjargar Guðsteinsdóttur, dagsett 7. janúar 2019 þar sem óskað er eftir að fasteignagjöld húsakosts Nesjavallajarðarinnar verði færð í fyrra horf. Skv. upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands var skráningu breytt að beiðni þinglýsts eiganda og getur sveitarfélagið ekki breytt neinum skráningum hjá Þjóðskrá Íslands. Sveitarstjórn beinir því til lögmannsins að hafa samband við Þjóðskrá Íslands.

 
9.        1812017 - Neðra-Apavatn L168269; Neðra-Apavatn 2; Stofnun lóðar.
Lögð fram að nýju umsókn Sigurlínar Grímsdóttur, dags. 7. desember 2018 um stofnun 53,6 ha lands úr landi Neðra-Apavatns L168269, skv. meðfylgjandi uppdrætti. Gert er ráð fyrir að landið fái heitið Neðra-Apavatn 2. Stefnt er að stofnun lögbýlis með stofnun landsins og er óskað eftir umsögn sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðrar lögbýlisstofnunar. Samhliða umsókn um stofnun landeignarinnar liggur einnig fyrir umsókn í öðru máli um staðfestingu á afmörkun nokkurra lóða sem liggja upp að nýja landinu. Á meðfylgjandi lóðablaði liggur fyrir samþykki meðeigenda upprunalandsins, Magnúsar Grímssonar og Magnúsar H. Jónssonar sem eru líka eigendur aðliggjandi landeigna á afmörkun nýju landeignarinnar. Gert er ráð fyrir aðkomu að landinu annars vegar frá Laugarvatnsvegi (37) um núverandi heimreið Neðra-Apavatns og þaðan um vegslóða sem liggur að landinu og hins vegar frá Laugarvatnsvegi (37) um núverandi veg sem liggur að frístundalóðum við Apavatn.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við stofnun landeignarinnar með fyrirvara um umsögn Vegagerðarinnar vegna aðkomu að landinu. Ekki eru gerðar athugasemdir við heitið Neðra-Apavatn 2. Þá eru ekki gerðar athugasemdir við landsskipti skv. 13. jarðalaga. Sveitarstjórn veitir jákvæða umsögn um stofnun lögbýlis á landinu.

 
10.    1812018 - Neðra-Apavatn lóð L169324-28 (bein númeraröð 5 lóða); Fannarlækur; Breytt afmörkun og skráning lóða.
Fyrir liggur umsókn eigenda 5 lóða úr Neðra-Apavatni, dags. 1. desember 2018 um staðfestingu á afmörkun viðkomandi lóða og breyttri skráningu á stærð þeirra í samræmi við hnitsetta afmörkun skv. meðfylgjandi lóðablaði. Um er að ræða lóðirnar Neðra-Apavatn lóðir 1 til 5, L169324-328. Ekki hefur áður legið fyrir nákvæm afmörkun lóðanna. Samhliða er óskað eftir að lóð 1 L169324 fái heitið Fannarlækur. Eigendur lóðanna 5 eru einnig eigendur upprunalandsins, Neðra-Apavatn L168269 og liggur fyrir samþykki þeirra á afmörkun lóðanna. Fyrir liggur umsókn í öðru máli um stofnun landeignar sem liggur upp að viðkomandi lóðum og er sýnd á sama lóðablaði.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við afmörkun lóðanna og ekki eru gerðar athugasemdir við að lóð nr. 1 fái heitið Fannarlækur. Ekki eru gerðar athugasemdir við landsskipti skv. 13. jarðalaga.

Hins vegar beinir sveitarstjórn því til eigenda lóðar nr. 2 að breyta heiti lóðarinnar þar sem misskilningur gæti komið upp vegna líkra heita Neðra-Apavatns 2 og Neðra-Apavatns lóð 2.

 
11.    Önnur mál.

a)      Kvöð um forkaupsrétt.
Fyrir liggur kaupsamningur milli hlutaðeigandi aðila um Kóngsveg 9 (fastanúmer 234-4979) í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í kaupsamningi lóðarinnar dags. 7. apríl 1971 er kveðið á um að Grímsneshreppur eigi forkaupsrétt að lóðinni. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að falla frá forkaupsrétti lóðarinnar og veitir sveitarstjóra, Ingibjörgu Harðardóttir fulla heimild til að tilkynna það sýslumanni fyrir hönd sveitarfélagsins. 

 

 
Til kynningar
Sorpstöð Suðurlands.  Fundargerð  275. stjórnarfundar 07.01 2019.
Sorpstöð Suðurlands.  Fundargerð  276. stjórnarfundar 17.01 2019.
Samband íslenskra sveitarfélaga.  Fundargerð 866. stjórnarfundar, 14.12 2018.

Getum við bætt efni síðunnar?