Fara í efni

Sveitarstjórn

479. fundur 23. mars 2020 kl. 15:00 - 17:05 Stjórnsýsluhúsið Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir í fjarfundarbúnaði
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Smári Bergmann Kolbeinsson í fjarfundarbúnaði
  • Ingibjörg Harðardóttir í fjarfundarbúnaði
  • Bjarni Þorkelsson í fjarfundarbúnaði
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Ingibjörg Harðardóttir

1. Tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga með leiðbeiningum vegna fjarfunda hjá sveitarfélögum.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélags, dags. 19. mars 2020. Þar eru kynntar leiðbeiningar vegna fjarfunda hjá sveitarfélögum. Til að virkja þessar heimildir þarf sveitarstjórn að taka um það sérstaka ákvörðun en slíkar ákvarðanir er heimilt að taka á fundi þar sem allir fundarmenn taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að virkja þá heimild að sveitarstjórnarmönnum og nefndarmönnum, bæði aðal- og varamönnum sé heimilt að taka þátt í fundum á vegum sveitarfélagsins í gegnum fjarfundarbúnað. Fundargerðir verða undirritaðar síðar. Gildir heimildin til 18. júlí 2020 samkvæmt ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

2. Sameiginleg viðbragðsáætlun í Uppsveitum Árnessýslu.
Fyrir liggur viðbragðsáætlun almannavarna vegna inflúensu eða annarra alvarlegra sjúkdóma. Áætlunin er sameiginleg með uppsveitum, þ.e. Bláskógabyggð, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Hrunamannahreppi, sóttvarnarlækni, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurlandi. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi viðbragðsáætlun.

Fundarhlé: gert var fundarhlé kl. 15:25 þar sem sveitarstjóri þurfti að fara fund almannavarnarnefndar.
Fundur hófst aftur kl. 16:15

3. Covid-19
Farið var yfir stöðu mála varðandi Covid-19 og lagðar fram viðbragðsáætlanir fyrir innra starf og þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Stjórnendur munu halda reglulega fjarfundi um stöðu mála. Komi til útbreiðslu smita á svæðinu eða þess að starfsfólk lendi í sóttkví, getur áætlunum verið breytt með skömmum fyrirvara. Mikil áhersla hefur verið lögð á að skipta starfsmönnum og nemendum upp í hópa, sem eru ekki í snertingu við hvern annan.

Skrifstofa sveitarfélagsins:
Vegna ráðstafana til að verjast Covid-19 kórónaveirunni hefur skrifstofa sveitarfélagsins verið lokuð tímabundið frá og með mánudeginum 16. mars og verður engum utanaðkomandi hleypt þangað inn. Unnt verður að ná sambandi við starfsmenn á hefðbundnum skrifstofutíma, 09:00 -15:00 í gegnum síma: 480-5500 og/eða með tölvupósti á gogg@gogg.is.

Kerhólsskóli:
Búið er að skipuleggja skólastarfið fram að páskafríi. Skólastjórnendur og starfsmenn gera sitt besta til að fara eftir því sem þeim er uppálagt af yfirvöldum v. COVID-19 veirunnar. Allir nemendur bæði í grunnskóladeild og leikskóladeild koma annan hvern dag í skólann og eru því tvo daga aðra vikuna en þrjá daga hina vikuna. Farið er út í hreyfingu með alla bekki á hverjum degi. Foreldrar eru beðnir um að halda börnum heima sem eru með einhver flensueinkenni, meðan þetta ástand varir.
Frístund: Nemendur sem eru í frístund geta verið þar þá daga sem þeir mæta í skólann og er hún opin frá því að skóla líkur þessa daga

Mötuneyti Kerhólsskóla:
Vegna aðstæðna í samfélaginu (kórónaveiru COVID-19) hefur verið ákveðið að loka mötuneyti Kerhólsskóla fyrir alla aðra en nemendur og starfsmenn grunn- og leikskóla. Þessi lokun var frá og með mánudeginum 16. mars. Þessi leið er farin til að draga úr smiti, einkum hvað varðar viðkvæma hópa í samfélaginu.

Íþróttamiðstöðin Borg:
Sundlaugin, íþróttahúsið og líkamsræktin verða lokuð meðan á samkomubanni stendur (16. mars til og með 12. apríl). Tíminn verður nýttur í allsherjarþrif, tiltekt og sótthreinsun á öllum rýmum.

Félagsheimilið Borg:
Félagsheimilið Borg hefur verið lokað fyrir útleigu frá og með 16. mars til og með 1. maí 2020.

Áhaldahús:
Verið er að vinna hefðbundin verk en starfsmönnum hefur verið skipt upp.

Gámasvæðið Seyðishólum:
Gámasvæðið er opið en starfsmenn aðstoða ekki notendur og halda fjarlægð. Mögulega þarf að minnka þjónustu og breyta opnunartíma og verður það þá kynnt vel.
Heimili og sumarbústaðir  í sóttkví eða einangrun - frágangur á sorpi til að hindra smit á COVID 19 veirunni.
Gott væri að heimili og sumarbústaðir sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID 19 veirunnar, gangi vandlega frá öllu sorpi og úrgangi til þess að hindra frekari smit.  Allur úrgangur sem berst frá þessum heimilum ætti að flokkast sem almennt sorp, ekki að meðhöndlast né flokkast sem endurvinnsluefni.  Þetta er gert af heilsufarsástæðum því sorpið getur mögulega verið sóttmengað. Endurvinnsluefni (pappír, plast, málmar) er meðhöndlað af starfsmönnum okkar þjónustuaðila eftir að það er sótt, og því viljum við forðast möguleg smit og gæta fyllstu varúðarráðstafanna.
Því biðlum við til allra þeirra sem eru í sóttkví eða einangrun að setja allt endurvinnsluefni beint í tunnur fyrir óflokkað sorp. Gerum allt til þess að hefta útbreiðslu veirunnar.
Öll heimili í sóttkví eða einangrun athugið: Allur úrgangur í óflokkað sorp.

Velferðarmál:
Almennt gildir að áhersla er lögð á samskipti í gegnum síma. Ekki er hægt að koma í viðtal á skrifstofum meðan þetta ástand varir.
Velferðaþjónusta uppsveita s. 480-1180
Eldri borgarar - Margir eiga góða að sem sinna þeim með brýnustu nauðsynjar eins og að fara í verslun eða hvað annað sem þarf að sinna. En það eru kannski ekki allir í þeirri stöðu og þess vegna biður sveitarstjórn þá sem einhverja aðstoð þurfa að setja sig í samband við skrifstofu sveitarfélagsins eða velferðarþjónustu uppsveita.
Barnavernd -Tilkynningum um barnavernd skal beina á netfangið barnavernd@arnesthing.is  eða í síma 480-1180. Utan hefðbundins dagvinnutíma er hringt í síma 112 ef tilkynning er þess eðlis að bregðast þurfi við henni tafarlaust.
Heimaþjónusta – síma 480-1180. Netfang sigrun@laugaras.is
Fjárhagsaðstoð og húsnæðisstuðningur – vinsamlega hringið í 483-4000 eða sendið tölvupóst á netfangið sigurjon@arnesthing.is
Málefni fatlaðs fólks - áhersla er lögð á samskipti í gegnum síma eða tölvupóst. Sími 483-4000, Netfang arna@arnesthing.is

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að dagvistunargjöld leikskóladeildar og gjöld vegna frístundaheimilis verði felld niður í mars og apríl.

 

Getum við bætt efni síðunnar?