Fara í efni

Sveitarstjórn

551. fundur 10. júlí 2023 kl. 09:00 - 09:40 Fjarfundur
Sveitarstjórn
  • Anna Katarzyna Wozniczka fjarveru Björns Kristins Pálmarssonar
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir

Oddviti leitar afbrigða.
Samþykkt samhljóða
a) Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna tækifærisleyfis.

1. Skólaakstur í Grímsnes- og Grafningshreppi, niðurstöður útboðs.
Fyrir liggja niðurstöður útboðs í skólaakstur fyrir skólaárin 2023 – 2025. Tilboð bárust frá Borg805 í samningshluta 1, 13.868.800,- kr. og í samningshluta 2, 13.120.000,- kr. Tilboð barst frá Guðmundi Jóhannessyni í samningshluta 3, 11.492.000,- kr.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við lægstbjóðendur fyrir hvorn samningshluta fyrir sig, Borg805 vegna samningshluta 1 og 2 og Guðmund Jóhannesson vegna samningshluta 3.
2. Álit innviðaráðuneytisins í máli IRN22010877.
Fyrir liggur álit og fyrirmæli innviðaráðuneytisins vegna stjórnsýslu sveitarfélagsins í máli IRN22010877. Í álitinu er fjallað um lögmæti gjaldskrár sveitarfélagsins vegna aðgangs að sundlaug og íþróttamiðstöðinni Borg. Að mati ráðuneytisins er gjaldskrá sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps vegna aðgangs að sundlaug og íþróttamiðstöðinni Borg sem rekin er af sveitarfélaginu ekki í samræmi við jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og er því ólögmæt að mati ráðuneytisins. Í ljósi niðurstöðu ráðuneytisins og þess hvernig mál þetta er vaxið telur ráðuneytið ástæðu til að gefa sveitarfélaginu þau fyrirmæli að koma gjaldskrá sveitarfélagsins vegna aðgangs að Íþróttamiðstöðinni Borg í lögmætt horf og fer ráðuneytið fram á að verða upplýst um viðbrögð sveitarfélagsins við álitinu fyrir 1. ágúst 2023.
Álit og fyrirmæli innviðaráðuneytisins lögð fram til kynningar.
3. Aðalskipulagsbreyting vegna íþróttasvæðis og verslunar- og þjónustusvæðis við Borg.
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna breyttrar landnotkunar á svæði sunnan þjóðvegar við þéttbýlið að Borg í Grímsnesi. Breytingin tekur til skilgreiningar á verslunar- og þjónustusvæði innan núverandi golfvallarsvæðis þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir gistingu auk annarrar þjónustu við notendur golfvallarins. Að auki er skilgreint nýtt íþróttasvæði syðst á svæðinu sem tekur til uppbyggingar á hesthúsasvæði og aðstöðu fyrir hestaíþróttir.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúa UTU falið að kynna tillöguna með viðeigandi hætti og leita umsagna hjá opinberum aðilum.
4. Útboð vegna snjómoksturs í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur að fara þarf í útboð vegna snjómoksturs í Grímsnes- og Grafningshreppi fyrir næsta vetur, þar sem samningar eru lausir.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipa vinnuhóp um útboðið sem í sitja, sveitarstjóri, umsjónarmaður umhverfismála og Smári Bergmann Kolbeinsson, formaður framkvæmda- og veitunefndar.
.5. Samningar vegna Byggðarþróunarfulltrúa Uppsveita Árnessýslu.
Samningur SASS við Bláskógabyggð f.h. Uppsveita um atvinnu- og byggðaþróun.
Drög að samningi Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps um samstarf um atvinnu- og byggðaþróun.
Lagður var fram samningur SASS við Bláskógabyggð f.h. sveitarfélaganna í Uppsveitum Árnessýslu, þ.e. Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps um atvinnu- og byggðaþróun innan sveitarfélaganna. Samningurinn byggir á samningi við Byggðastofnun um atvinnu- og byggðaþróun frá 25. janúar 2023, lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir og gildandi Sóknaráætlun Suðurlands á hverjum tíma. Samningurinn tekur auk atvinnu- og byggðaþróunar til atvinnuráðgjafar, nýsköpunar, menningar, upplýsingaöflunar- og þekkingarmiðlunar. Árlegt framlag SASS vegna samningsins nemur kr. 7.500.000 í gegnum samning SASS við Byggðastofnun, en sveitarfélögin fjármagna hann að öðru leyti.
Jafnframt var lagður fram samningur sveitarfélaganna fjögurra um samstarf um atvinnu- og byggðaþróun, þar sem kveðið er á um að framlag sveitarfélaganna vegna samningsins við SASS skiptist í jöfnum hlutföllum og að ráðinn verði byggðaþróunarfulltrúi í allt að 100% stöðugildi til að sinna þeim verkefnum sem tilgreind eru í samningnum við SASS, auk verkefna sem snúa að ferða- og kynningarmálum, málum er varða fjölmenningu og eftirfylgni með nýrri atvinnumálastefnu sveitarfélaganna.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkir samhljóða samningana fyrir sitt leyti og felur sveitarstjóra að skrifa undir samstarfssamninginn milli sveitarfélaganna í Uppsveitunum.
6. Gjaldskrá Íþróttamiðstöðvarinnar Borg.
Í ljósi álits og fyrirmæla innviðaráðuneytisins vegna stjórnsýslu sveitarfélagsins í máli IRN22010877 samþykkir sveitarstjórn samhljóða eftirfarandi breytingar á gjaldskránni fyrir Íþróttamiðstöðina Borg og felur sveitarstjóra að tilkynna innviðaráðuneytinu niðurstöðuna.
Sund: fullorðnir, 18-66 ára börn, 10-17 ára
Stakt skipti 1.100,- kr. 500,- kr.
10 miða kort 6.500,- kr. 2.700,- kr.
30 miða kort 16.000,- kr. 7.000,- kr.
Árskort 37.000,- kr. 19.000,- kr.
Þreksalur:
Stakt skipti 1.600,- kr.
10 miða kort 11.500,- kr.
30 miða kort 22.500,- kr.
Árskort 37.000,- kr.
Íþróttasalur:
Fullorðinn – 60 mín. 1.600,- kr.
Barn – 60 mín. 800,- kr.
Hálfur dagur 12.500,- kr.
Heill dagur 22.500,- kr.
Sturta 750,- kr.
Leiga á sundfatnaði 750,- kr.
Leiga á handklæði 750,- kr.
Handklæði og sundföt 1.100,- kr.
Eftirfarandi liðir gjaldskrár falla út frá og með 1. ágúst 2023:
Íbúum með lögheimili í sveitarfélaginu er boðið upp á að kaupa árskort í sund, þreksal og íþróttasal.
Fullorðnir, 18-66 ára 15.000,- kr.
Börn, 10-17 ára 6.000,- kr.
Íbúar með lögheimili í sveitarfélaginu geta leigt íþróttasalinn fyrir afmælisveislu barna sinna fyrir kr. 6.500,-.
7. Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II í Kerbyggð 7 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 30. júní 2023, um umsögn vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í flokki II í Kerbyggð 7 í Grímsnes og Grafningshreppi, fnr. 235-9213.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemdir við að veitt verði leyfi í rekstrarflokki II í Kerbyggð 7 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Gestafjöldi allt að 6 manns.
8. Önnur mál
a) Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna tækifærisleyfis.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 7. júlí 2023, um umsögn vegna tækifærisleyfis vegna útilegu nemenda Verzlunarskóla Íslands þann 29. til 30. júlí á tjaldsvæði í Þrastalundi, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemdir við veitingu tækifærisleyfisins með fyrirvara um jákvæða umsögn Brunavarna Árnessýslu og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 09:40.

Getum við bætt efni síðunnar?