Fara í efni

Bókun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um öryggismál í Uppsveitum Árnessýslu og málefni heilsugæslunnar í Laugarási

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 17. ágúst s.l. bókaði sveitarstjórn um öryggismál í Uppsveitum og skorar á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að tryggja fjármagn í aukna bráðaþjónustu viðbragðsaðila á svæðinu (Uppsveitum Árnessýslu). Til dæmis dæmis með því að sjúkrabifreið með sérhæfðum sjúkraflutningamönnum verði staðsett miðsvæðis í Uppsveitum. Ekki getur talist viðunandi að viðbragðstími þeagar slys eða bráðaveikindi ber að höndum miðist við að allt viðbragð komi frá Selfossi ef litið er til stærðar, vegalengda og fólksfjölda á svæðinu. 

Bókunina í heild má finna hér að neðan: 

Lagt er fram bréf frá Kvenfélögunum í Uppsveitum Árnessýslu. Í bréfinu er farið yfir fyrirsjáanlega skerðingu á læknisþjónustu í Uppsveitum m.a. vegna uppsagna á bakvöktum lækna á Heilsugæslunni í Laugarási. Af þessu tilefni skora kvenfélögin á stjórn HSU, allar sveitarstjórnir í Uppsveitum Árnessýslu, Landlæknisembættið, Heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðherra auk innviðaráðherra að þau taki öll höndum saman og vinni hratt og vel að öryggi íbúa, sumarhúsaeigenda og ferðamanna með því að tryggja og verja stöðu heilsugæslunnar í Uppsveitum, fastráða lækna og tryggja bakvaktir þeirra, tryggja fasta viðveru sjúkrabíla og bráðliða allt árið um kring ásamt því að fylgja Heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps tekur undir áhyggjur Kvenfélagskvenna af þeirri skerðingu á þjónustu sem farið er yfir í áskoruninni, enginn læknir mun verða á bakvakt í Uppsveitum Árnessýslu eftir að dagvinnu lýkur ef af uppsögninni verður, en læknir á bakvakt hefur hingað til sinnt bráðatilfellum sem komið hafa upp á svæðinu.
Uppsveitir Árnessýslu eru stórt landsvæði en íbúar telja á fjórða þúsund, ásamt því þá hefur svæðið að geyma stærstu frístundahúsabyggðir á Íslandi eða á sjöunda þúsund húsa. Fólksfjöldi þegar á heildina litið getur því verið gríðarlega mikill á svæðinu þegar mest er, ásamt þessu þá er stöðug aukning í straumi ferðafólks um þetta vinsæla svæði sem Uppsveitirnar eru.
Sveitarstjórn tekur undir bókanir sveitarstjórna Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Bláskógabyggðar um málið og skorar á stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að tryggja íbúum og gestum Uppsveita Árnessýslu eins góða bráðaþjónustu og hægt er.
Einnig skorar sveitarstjórn á heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að tryggja fjármagn í aukna bráðaþjónustu viðbragðsaðila á svæðinu, til dæmis með því að sjúkrabifreið með sérhæfðum sjúkraflutningamönnum verði staðsett miðsvæðis í Uppsveitum. Ekki getur talist viðunandi að viðbragðstími þegar slys eða bráðaveikindi ber að höndum miðist við að allt viðbragð komi frá Selfossi ef litið er til stærðar, vegalengda og fólksfjölda á svæðinu.

Síðast uppfært 22. ágúst 2023
Getum við bætt efni síðunnar?