Fara í efni

Fréttir - Ársreikningur og fl.

Íbúar landsins | Þjóðskrá

Ársreikningur Sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps 2024

Ársreikningur Grímsnes- og Grafningshrepps fyrir árið 2024 endurspeglar stöðugan og ábyrgan rekstur sveitarfélagsins ásamt markvissri uppbyggingu.

Heildarvelta sveitarfélagsins á árinu 2024, samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta, nam 2.012,1 milljón króna og var 230,5 milljónir króna yfir áætlun. Skatttekjur sveitarfélagsins námu samtals 1.257,1 milljón króna, sem er 24,4 milljónir króna yfir áætlun. Samtals námu rekstrartekjur A-hluta 1.766,5 milljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir 1.514 milljónum króna.

Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 188,9 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða samantekinna reikningsskila sveitarfélagsins er einnig jákvæð að fjárhæð 265,9 milljónir króna og er afkoman því 67 milljónir króna betri en áætlun gerði ráð fyrir. Fjárfestingar í rekstrarfjármunum árið 2024 voru nettó 447,8 milljónir króna hjá A- og B-hluta.

Veltufé frá rekstri er ein af lykiltölunum í ársreikningi og segir til um það svigrúm sem reksturinn gefur til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána. Það er styrkleikamerki að veltufé frá rekstri var 391 milljón króna árið 2024, eða sem nemur 19,4% af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 95,7 milljónir króna, en var 277,9 milljónir króna árið 2023. Þetta staðfestir mikla fjárfestingu sveitarfélagsins, þá sérstaklega í innviðum vatns- og fráveitukerfa, gatnagerð og fasteignum. Framlegðarhlutfall var 19% og skuldaviðmið 34,9% hjá A- og B-hluta.

Fjárfestingar og framkvæmdir

Árið 2024 keypti Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps allt hlutafé í Orkubúinu Vaðnesi ehf. Samtímis var undirritaður samningur um leigu Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps á jarðhitaréttindum Vaðnesjarðarinnar. Í kjölfar samningsins var ráðist í frekari orkuöflun á Vaðnesjörðinni í samráði við landeigendur. Þessi samningur er stórt skref fyrir áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins, en með honum bætast um 270 notendur við núverandi hitaveitukerfi sveitarfélagsins, sem telur um 530 notendur fyrir.

Þrjár tilraunaborholur eru í vinnslu, auk þess sem farið var í viðamikla lekaleit á hitaveitulögnum í Vaðnesi og Snæfoksstöðum fyrir hönd Orkubús Vaðnes ehf.

Vinna við ýmis deiliskipulög, bæði á Borg og á frístundasvæðum, er í gangi, auk þess sem deiliskipulagsvinna lóðarhafa er á lokametrunum við Miðtún 1–11, en á þeim þjónustureit er fyrirhuguð mikil uppbygging á næstu misserum.

Viðbygging við íþróttamiðstöðina og nýtt rými fyrir skrifstofur sveitarfélagsins, endurbygging Klausturhólarétta, vinna við uppbyggingu skólahúsnæðis, hönnun leikskólalóðar, virkjun borholu í Vaðnesi, strandblaksvöllur, nýjar götur og frágangur á hreinsistöð eru allt verkefni í farvatninu.

Skuldaviðmið vel undir lögbundnu 150% viðmiði

Skuldaviðmið A- og B-hluta hækkar lítillega frá fyrra ári og er 34,9%, en var 33,3% í árslok 2023. Hækkun milli ára er tilkomin vegna nýrra fjárfestinga.

Íbúafjöldi Grímsnes- og Grafningshrepps í lok árs 2023 var 539, en 613 í lok árs 2024. Íbúum hefur því fjölgað um 13,7% á árinu 2024. Stöðugildi í árslok voru 46,5.

„Rekstur Sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps styrkist á milli ára, sem endurspeglar áherslu sveitarstjórnar á traustan rekstur. Afgangur af rekstri sveitarfélagsins er 265,9 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er 391 milljón króna, sem endurspeglar það svigrúm sem reksturinn gefur til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.“

Verkefnið fram undan er að halda áfram á braut ráðdeildar í rekstri og ábyrgrar fjármálastjórnunar. Ábyrg fjármálastjórn er forsenda þess að unnt sé að veita framúrskarandi þjónustu til íbúa og fasteignaeigenda og því er verkefnið nú, sem endranær, að standa vörð um góðan rekstur, þannig að áfram sé unnt að skila ábatanum til íbúa í formi lægri skatta og bættrar þjónustu.

Áframhaldandi uppbygging

Samþykkt var á vorfundi Brunavarna Árnessýslu að undirbúa rekstur slökkvistöðvar á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi, virkilega spennandi verkefni. Sveitarfélagið stefnir á að byggja u.þ.b. 200 m² hús til leigu fyrir starfsemi Brunavarna Árnessýslu, og stefnt er að því að taka húsnæðið í notkun í lok árs 2026, ef allt gengur eftir. Slökkvistöðin verður á Þinggerði 1, sem er lóð í eigu sveitarfélagsins og staðsett við Grímstorg og Sólheimaveginn.

Í sveitarfélaginu er stærsta frístundahúsabyggð landsins, en hér eru 22% allra frístundahúsa á landinu, og því ríkir almannahagsmunir að viðbragðstími hjá viðbragðsaðilum sé sem bestur, bæði fyrir íbúa og fasteignaeigendur.

„Það má því segja að okkur séu allir vegir færir á næstu árum til frekari uppbyggingar og þjónustu við íbúa og fasteignaeigendur.“

 

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir

Sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.

Síðast uppfært 22. maí 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?