Fara í efni

Góður gangur er á framkvæmdum í sveitarfélaginu

Stækkun íþróttamiðstöðvar á Borg

Góður gangur er á framkvæmdum við stjórnsýsluhús og stækkun íþróttamiðstöðvar á Borg. Stefnt er á opnun hússins í desember en núna er verið að leggja lokahönd á ytra byrði hússins ásamt frágang innanhúss. Innan bráðar mun svo vinna við útisvæði milli skóla og nýbyggingar hefjast með áherslu á aðgengi fyrir alla, þá mun vinnusvæði minnka í kjölfarið og skólinn fær meira pláss.

Frágangur skólalóðar við viðbyggingu.

Íþróttasalur

Búið er að leggja nýtt undirlag á sal íþróttamiðstöðvar. Um er að ræða PU (pólýúretan) gólfefni sem kemur í stað parketsins sem verið hefur þar til þessa.

Nýtt gólfefni í íþróttahúsi.

PU gólf eru einstaklega endingargóð, viðhaldslítil og algjörlega samskeytalaus. Þau henta sérstaklega vel í fjölnota íþróttasali þar sem þau draga úr höggum og veita góða mýkt, sem eykur bæði þægindi og öryggi við notkun.

Minni framkvæmdir

Ýmsar minni framkvæmdir standa einnig yfir auk þess sem vinnuskólinn hefur látið til sín taka við að fegra umhverfið við stjórnsýsluhúsið og fleiri grænna svæða. Við þökkum þeim fyrir góð störf í sumar!

Grænar grundir eftir vinnuskólann.

Verið er að leggja lokahönd á múrun félagsheimilisins og næst á dagskrá er að mála það upp á nýtt. Einnig er búið að endurnýja gólfefni í aðalsal félagsheimilisins og kemur það glæsilega út.

Múrun á félagsheimili.

Búið er að ljúka við fyrsta áfanga í grænum ofanvatnslausnum við Miðtún og nýja hverfið á Borg en þar er búið að búa til tjörn sem tekur við regnvatni og affalli frá sundlauginni sem gerir tjörnina volga og tilvalda til leiks fyrir unga sem aldna.

Tjörn við Miðtún.

Einnig hafa verið í gangi framkvæmdir á nýju bili sveitarfélagsins við Hraunbraut. Búið er að byggja milliloft og bæta aðstöðu í áhaldahúsinu til muna. Næst á dagskrá er að setja upp innréttingar fyrir lager sveitarfélagsins.

Ný aðstaða sveitarfélagsins.

Ný jólaljós fyrir ljósastaura voru svo að lenda í áhaldahúsinu og munu taka við af gamla skrautinu.

Sveitarfélagið hefur svo fest kaup á sóp á skotbómulyftara áhaldahússins til að auka við þrif á gatnakerfum og göngustígum sem kom núna í júlí og hefur komið að góðum notum.

Búið er að ljúka við uppfærslu á stjórnbúnaði sundlaugarkerfis þar sem kominn var tími á eldri stjórnbúnað auk þess að stjórnbúnaði fyrir sturtur var breytt til að tryggja jafnara hitastig í sturtum. Kerfið tryggir betri stýringar, meira öryggi og jafnframt aukna vöktun til fyrirbyggjandi viðhalds.

Nýr stjórnskápur fyrir sundlaugarkerfi.

Hjólastígar

Starfshópur Stýrihóps göngu- og hjólastíga Grímsnes- og Grafningshrepps skilaði fyrr í vor inn tillögum um hjólastíga í Grímsnes- og Grafningshrepp. Oddviti og varaoddviti eru að vinna málið áfram með EFLU og Vegagerðinni og verður gaman að kynna þær niðurstöður fyrir sveitarfélaginu á næstu misserum.

Leikskólalóð

Vinna hefur staðið yfir í vor og sumar vegna hönnunar á stækkun leikskólalóðar og betri aðkomu. Verið er að leggja lokahönd á hönnunina sem mun bæta aðstöðu við leikskólann til muna og jafnframt snyrta umhverfi og auka öryggi.

Vatnsveita

Hin ýmsu verk eru í gangi í vatnsveitunni þessa dagana og verið að leggja lokahönd á nýja dælustöð við Sólheimaveginn. Verið er að bæta við tönkum í vatnsbólið á Búrfelli til að tryggja betur afhendingaröryggi veitunnar ásamt því að verið er að undirbúa lagnir í ný hverfi í sveitarfélaginu.

Vinna við vatnsból við Búrfell.

Hitaveita

Búið er að ljúka virkjun holu VN-32 í Vaðnesi og tengja við dreifikerfi hitaveitunnar frá Vaðnesi að Borg. Frágangur er til fyrirmyndar og mun holan nýtast vel við að tryggja afhendingu á heitu vatni til næstu ára.

Fráveita

Búið er að tengja nýja 930 persónueininga hreinsistöð á Borg og er frágangur þar til fyrirmyndar. Stöðin verður tekin í fulla notkun samhliða því að eldri hreinsistöð verður aflögð innan tíðar.

Ný hreinsistöð við Borg.

Síðast uppfært 1. ágúst 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?