Grímsnes- og Grafningshreppur hlýtur annað sæti í útnefningu Sveitarfélag ársins 2025
Tilkynnt hefur verið um niðurstöður könnunarinnar Sveitarfélag ársins 2025 og hlaut Grímsnes- og Grafningshreppur annað sætið í ár. Útnefningin byggir á viðhorfskönnun félagsfólks bæjarstarfsmannafélaga og stéttarfélaga innan BSRB. Könnunin var í umsjón Mannauðssjóðsins Heklu og sá Gallup um úrvinnslu gagna.
Viðurkenningin er veitt fjórum sveitarfélögum með bestu heildarniðurstöðu þátta sem stuðla að blómlegu og heilbrigðu starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélaga.
Könnunin hefur það að markmiði að hvetja stjórnendur sveitarfélaga til að veita starfsumhverfi meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf en ekki síður er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.
Grímsnes- og Grafningshreppur hefur staðið sig afar vel síðustu ár og verið í einu af efstu sætunum þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum, sem endurspeglar markvissa uppbyggingu góðra starfsskilyrða innan sveitarfélagsins.
Að þessu sinni var það Bláskógabyggð sem hafnaði í fyrsta sæti og óskum við nágrönnum okkar til hamingju með árangurinn. Það er einnig gaman að segja frá því að sveitarfélögin í Uppsveitum Árnessýslu röðuðu sér í efstu fjögur sætin, sem er eftirtektarvert og undirstrikar sterka stjórnsýslu og öfluga mannauð í uppsveitum.
„Við erum afar stolt af þessum árangri,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps. „Þessi viðurkenning er fyrst og fremst starfsfólksins, sem leggur sig fram á hverjum degi og mótar þann góða starfsanda sem einkennir sveitarfélagið. Viðurkenningin hvetur okkur jafnframt til að halda áfram og gera enn betur.“