Grímsnes- og Grafningshreppur og Leikfélagið á Sólheimum undirrita samstarfssamning
Þann 12. júní 2025 var formlega undirritaður samstarfssamningur milli Grímsnes- og Grafningshrepps og Leikfélagsins á Sólheimum. Undirritun fór fram á Sólheimum þar sem Fjóla Steindóra Kristinsdóttir sveitarstýra og Þorvaldur Kjartansson, formaður leikfélagsins, skrifuðu undir fyrir hönd aðila.
Samningurinn er gerður með það að markmiði að efla enn frekar leiklistarstarfsemi á svæðinu og bjóða nemendum Kerhólsskóla að leiksýningum leikfélagsins sér að kostnaðarlausu.
Samningurinn styður enn frekar við þá mikilvægu menningarstarfsemi sem leikfélagið stendur fyrir og fellur vel að 95 ára afmæli Sólheima sem haldið er upp á í ár. Sveitarfélagið fagnar þessu mikilvæga samstarfi og hlakkar til að styðja áframhaldandi þróun leiklistarstarfs á svæðinu til framtíðar.