Fara í efni

Guðrún Ása Kristleifsdóttir ráðin sem Heilsu- og tómstundafulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps

Guðrún Ása Kristleifsdóttir hefur verið ráðin sem Heilsu- og tómstundafulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps. Hún er menntuð í Íþróttafræðum frá Kennaraháskóla Íslands og í Tómstunda- og félagsmálafræðum frá Háskóla Íslands. Jafnframt er Guðrún Ása með diplómanám í Hagnýtri heilsueflingu. Guðrún Ása hefur síðustu 5 árin starfað sem umsjónarkennari og íþróttakennari við Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Starf Heilsu- og tómstundafulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps var auglýst í Dagskránni og á heimasíðu sveitarfélagsins með umsóknarfrest til 10. maí 2021. Umsækjendur voru 8 talsins. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að góðar umsóknir lágu fyrir. Allir  umsækjendur voru boðaðir og komu í atvinnuviðtöl en 2 þeirra drógu umsókn sína til baka í ferlinu. Í auglýsingunni um starfið var leitað eftir öflugum einstakling til að bera ábyrgð á tómstundamálum sveitarfélagsins og hafa forystu um heilsueflandi samfélags verkefni á vegum sveitarfélagsins. Gerðar voru þær menntunar- og reynslukröfur að umsækjandi hefði háskólamenntun sem nýttist í starfi og reynslu annars vegar af tómstundastarfi og starfi með börnum og/eða unglingum. Guðrún Ása var metin hæfust til að gegna starfinu út frá þeim kröfum sem gerðar voru og var m.a. haft samband við samstarfsaðila úr fyrri störfum þar sem hún fékk góða umsögn.

Síðast uppfært 4. júní 2021
Getum við bætt efni síðunnar?