HHHC Boss hópurinn hleypur 6 maraþon á 6 dögum – stoppar á Borg áður en haldið verður til Reykjavíkur
HHHC Boss-hópurinn endurtekur nú leikinn frá því 2023. 6 maraþon á 6 dögum, frá Akureyri til Reykjavíkur – í þetta sinn yfir Kjöl. Lagt verður af stað mánudaginn 18. ágúst og kemur hópurinn á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi fimmtudaginn 21. ágúst. Þar verður gist áður en lagt verður af stað að morgni föstudagsins 22. ágúst til Reykjavíkur.
Sjötta og síðasta maraþonið verður sjálft Reykjavíkurmaraþonið laugardaginn 23. ágúst. Þann dag tileinkar hópurinn hlaupið öllum ungum fjölskyldum sem hafa þurft að glíma við krabbamein.
Markmiðið er að safna fé fyrir Kraft, stuðningsfélag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þess. Hvert maraþon verður tileinkað einstaklingi sem notið hefur góðs af starfi Krafts, og sögur þeirra verða kynntar þegar hlaupið hefst.
Árið 2023 söfnuðu HHHC Boss yfir 8 milljónum króna fyrir Kraft – nú stefna þeir hærra. Allir eru hvattir til að heita á hlauparana á rmi.is/hlaupastyrkur.
HHHC Boss er ekki aðeins hraðasti, heldur einnig stílhreinsasti hlaupahópur landsins – í Boss-klæðnaði alla leið.