Húsnæðisáætlun 2026
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur samþykkt nýja húsnæðisáætlun fyrir tímabilið fram til ársins 2035, en hún er lykilþáttur í að mæta mikilli íbúafjölgun í sveitarfélaginu. Samkvæmt miðspá áætlunarinnar er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 21,6% á næstu fimm árum og um 48% á næstu tíu árum, sem þýðir að íbúar verði orðnir tæplega þúsund talsins árið 2035. Til að bregðast við þessari þróun er áætluð íbúðaþörf 75 íbúðir fyrir árið 2030 og samtals 149 íbúðir fyrir árið 2035. Uppbygging er þegar í fullum gangi en 28 íbúðir eru í byggingu á þessu ári og gert er ráð fyrir að 29 íbúðir verði í byggingu árið 2026.
Sveitarfélagið leggur ríka áherslu á að bjóða ávallt upp á fjölbreyttar gerðir lóða til að mæta þörfum ólíkra fjölskyldna og er staðan í lóðamálum góð, þar sem rými er fyrir 151 íbúð á skipulögðum svæðum á næstu fimm árum.
Sérstök áhersla er lögð á að bjóða upp á smærri íbúðir í fjölbýli í grennd við þjónustukjarnann á Borg. Mest eftirspurn er eftir rað- og parhúsum.
Með þessari áætlun stefnir Grímsnes- og Grafningshreppur að því að tryggja sjálfbæran vöxt og fjölbreytt búsetuúrræði fyrir alla íbúa.
Húsnæðisáætlun má sjá hér.