Nýjar Klausturhólaréttir
Núna um helgina var réttað í Klausturhólaréttum í fyrsta skipti eftir endurbyggingu. Framkvæmdir hafa staðið yfir í sumar við að rífa gömlu steinsteyptu réttina, sem byggð var árið 1952, og byggja nýja glæsilega rétt úr timbri. Framkvæmdin þykir einstaklega vel heppnuð, en það voru votir en kátir smalar sem smöluðu í fyrsta skipti inn í réttina eftir smalamennsku helgarinnar. Sóknarpresturinn séra Kristín Þórunn Tómasdóttir mætti og blessaði réttina áður en rekið var inn, og var smölum ásamt gestum og gangandi boðið upp á kaffi, köku og kræsingar í boði sveitarfélagsins og fjallskilanefndar.
Jarðvinnu vegna réttanna annaðist JÞ Verk ehf, en Smiðsholt ehf. sá um byggingu réttanna. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir vel unnið verk.
Hér að neðan má sjá drónamyndir sem teknar voru af réttunum.



