Síðasta torfærukeppni sumarsins og lokahóf á Borg
Nú fer torfærusumrinu 2025 senn að ljúka og verður það gert með stæl laugardaginn 30. ágúst þegar SA smíðar Torfæran fer fram í Stangarhyl við Laugarvatnsveg í Grímsnes- og Grafningshreppi. Keppnin hefst klukkan 10:00 og er jafnframt lokakeppni sumarsins.
Aðgangseyrir er 3.000 krónur en börn tólf ára og yngri fá frítt inn. Miðasala fer fram á vefsíðunni www.stubb.is og verður jafnframt hægt að fylgjast með í beinu streymi á www.livey.events.
Að keppni lokinni heldur torfærustemningin áfram í Félagsheimilinu á Borg. Húsið opnar klukkan 19:00 þar sem boðið verður upp á góða stemningu, mat og drykki. Sundlaugin á Borg verður opin til klukkan 20:00 fyrir keppendur og aðstoðarfólk.
Miðaverð í mat er 7.500 krónur og sér Lionsklúbburinn Skjaldbreið um matinn. Barinn verður á sínum stað og skipuleggjendur lofa fjöri fram á nótt.
Miðasala á kvöldviðburðinn fer fram á tintron.is/midi.
Skipuleggjendur hvetja alla til að mæta, upplifa spennuna á brautinni og njóta síðustu torfærukeppni sumarsins og ekki síður skemmtunarinnar um kvöldið.