Tjaldsvæðið á Borg - Leiga
Grímsnes- og Grafningshreppur auglýsir til leigu tjaldsvæðið á Borg. Um er að ræða land fyrir tjaldsvæði og mannvirki sem tilheyra rekstri tjaldsvæðis. Leitað er eftir aðila sem hefur áhuga á að koma að áframhaldandi uppbyggingu og þróun svæðisins.
Borg er staðsett vel á gullna hringnum í grennd við Kerið. Stórt hlutfall ferðamanna sem koma til landsins keyra framhjá svæðinu og gífurlegur fjöldi innlendra ferðamanna kjósa að gista í sveitasælunni á Borg. Á Borg er einnig vinsæl sundlaug sem nýtur mikillar lukku meðal íbúa og ferðamanna. Stutt er í náttúru, leiksvæði, veitingastaði, golfvelli og alla helstu þjónustu frá tjaldsvæðinu.
Leigutaki skal sjá um allan rekstur svæðisins og mannvirkja sem þar eru, innheimtu afnotagjalda, upplýsingagjöf og þjónustu við ferðamenn, auglýsingar fyrir svæðið og annað tilheyrandi. Leigutaki hefur allar tekjur af rekstri svæðisins, sem og allan kostnað. Til kostnaðar telst m.a. rafmagn, þrif á svæðinu og mannvirkjum, sláttur og eftirlit.
Skilyrði er að starfrækt sé tjaldsvæði sem er opið almenningi a.m.k. frá byrjun maí til loka september.
Grasflatir svæðisins eru samtals u.þ.b. 24.000 fm og er svæðið vel útbúið af rafmagnstenglum. Leigusamningur verður gerður til þriggja ára, með möguleika á framlengingu um tvö ár í heildina. Gert er ráð fyrir að nýr rekstraraðili taki við svæðinu fyrir sumarið 2024.
Umsóknum skal fylgja stutt greinargerð um sýn umsækjanda á rekstur svæðisins. Greinargerðin verður lögð til grundvallar vali á umsækjanda.
Fyrir frekari upplýsingar um svæðið, skilmála fyrir leigu eða bókun á vettvangsskoðun á svæðinu, vinsamlegast hafið samband við gogg@gogg.is. Boðið verður upp á vettvangsskoðanir 2. – 5. apríl samkvæmt samkomulagi.
Áhugasamir sendi umsókn á netfangið sveitarstjori@gogg.is í síðasta lagi 15. apríl 2024.