Fara í efni

Uppsveitirnar eru tilvalinn áfangastaður til að dvelja á

Stjórnendur ferðaþjónustu í Uppsveitum Árnessýslu komu saman þann 11. desember s.l. í Vínstofu Friðheima. Um 40 manns mættu til fundarins þar sem Rakel Theodórsdóttir, nýráðinn byggðaþróunarfulltrúi Uppsveita, sagði frá hlutverki sínu. Þá sögðu þær Ragnhildur Sveinbjarnardóttir og Hrafnhildur Árnadóttir frá áherslum og verkefnum Markaðsstofu Suðurlands.
Rakel fór yfir þau fjölbreyttu hlutverk sem felast í starfi byggðaþróunarfulltrúa og þá „mörgu hatta“ sem hún ber er varðar byggðaþróun á svæðinu. Hún lagði áherslu á hvernig hún getur aðstoðað ferðaþjónustuaðila við að „byggja brýr“ milli þeirra og annarra aðila til að hrinda verkefnum og hugmyndum í framkvæmd og þannig liðka til og halda uppi samtali ólíkra hagaðila.
Góðar umræður sköpuðust um samfélagslega ábyrgð þeirra sem starfa við ferðaþjónustu. Þar bar hæst öryggi á vegum, viðbragðstími og mikilvægi íslenskukunnáttu starfsfólks í greininni.
Fundargestir voru sammála því að Uppsveitirnar væru kjörinn áfangastaður ferðamanna sem býður upp á blómlega flóru afþreyingar, gististaða og veitingastaða í einstakri náttúru. Gullnahringssvæðið er orðin keðja með mörgum sterkum hlekkjum í stað þess að vera einn dagsferðarhringur. Svæðið er því orðið tilvalinn staður til að dvelja á í nokkrar nætur til þess að njóta alls þess sem það hefur upp á að bjóða.

Síðast uppfært 12. desember 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?