Fara í efni

Viðburðarík helgi í Grímsnes- og Grafningshreppi

Grímsævintýrin á Borg – fjölskylduhátíð

Á laugardaginn má segja að hápunkti sumarsins hafi verið náð í sveitarfélaginu þegar hin árlega hátíð Grímsævintýri var haldin í boði Kvenfélags Grímsneshrepps á Borg. Hátíðin hefur verið fastur liður í sveitarfélaginu í áratugi og laðar ár hvert að sér gesti nær og fjær.

Dagskráin í ár var fjölbreytt og lifandi, líkt og áður. Markaður með handverk og ýmsar gæðavörur var haldinn í Félagsheimilinu Borg. Brúðubíllinn mætti með Lilla í fararbroddi og vakti mikla lukku hjá yngstu kynslóðinni, sem einnig naut glæsilegrar andlitsmálunar, candyfloss og hópsöngs.

Tombólan fræga, sem á rætur að rekja allt aftur til ársins 1926, var gríðarlega vinsæl að venju og seldust allir 2.700 miðarnir upp. Blúndukaffið var á sínum stað með heimabökuðu bakkelsi, kakó með rjóma og kaffi í notalegri stemningu.

Á hátíðinni var einnig Taiko-trommusmiðja með Halla Valla, þar sem þátttakendur trommuðu af mikilli innlifun. Hjálparsveitin Tintron var með brot af sínum tækjum til sýnis við mikinn áhuga gesta. Ævintýragjarnir gátu svo reynt sig við klifurvegg á svæðinu undir dyggri stjórn Tintron félaga.

Mikil stemmning skapaðist á torginu enda fjöldi gesta mættur og skein gleðin úr hverju andliti, veðurguðirnir voru hátíðinni hliðhollir sem skiptir auðvitað miklu máli á slíkri hátíð.

Bundið slitlag á síðasta vegarkaflann umhverfis Þingvallavatn

Á sunnudag komu svo íbúar, gestir og ráðamenn saman við Úlfljótsvatn til að fagna mikilvægum áfanga í samgöngumálum svæðisins þegar síðasti vegarkaflinn umhverfis Þingvallavatn fékk loksins bundið slitlag.

Dagskráin hófst á því að Kristján „doppumeistari“ hljóp nýlagðan vegarkafla að Úlfljótsvatni þar sem athöfnin fór fram. Að því loknu klippti Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra á borða og flutti ávarp. Einnig tóku til máls Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Ása Valdís Árnadóttir, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps. Torfi Stefán Jónsson, fræðslufulltrúi Þingvalla, bauð svo upp á skemmtilegt erindi um sögu og samgöngur á svæðinu frá upphafi til okkar daga.

Að loknum formlegum erindum var boðið upp á kaffi og köku þar sem tónlistarmennirnir Magnús Kjartansson og Pálmi Gunnarsson spiluðu undir og sköpuðu hátíðlega stemningu.

Hátíðin var skipulögð af Línu Björg Tryggvadóttur, byggðaþróunarfulltrúa Uppsveita Árnessýslu í góðu samstarfi við skátana á Úlfljótsvatni, Vegagerðina, Landsvirkjun, sveitarfélögin og heimafólk. Þátttakendur voru sammála um að hátíðin hefði verið virkilega vel heppnuð og gott dæmi um samstöðu, framfarir og bjarta framtíð fyrir svæðið allt.

Hér má sjá svipmyndi frá helginni. 

 

Síðast uppfært 24. ágúst 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?