Fara í efni

Viðburðaríkur júlímánuður í Grímsnes- og Grafningshreppi

Viðburðaríkur júlímánuður í Grímsnes- og Grafningshreppi

Það má með sanni segja að júlímánuður hafi verið einstaklega viðburðaríkur hjá okkur hér í Grímsnes- og Grafningshreppi – hátíðarhöld og heimsóknir.

Sólheimar fagna 95 ára afmæli 🎈

Í byrjun mánaðar fagnaði samfélagið á Sólheimum 95 ára afmæli í blíðskaparveðri og einstöku andrúmslofti. Dagskráin hófst í Sesseljuhúsi með ræðu Sigurjóns Arnars Þórssonar stjórnarformanns Sólheima því næst hélt frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands ávarp en hún tók einnig fyrstu skóflustunguna að stækkun Bláskóga – spennandi áfanga í áframhaldandi uppbyggingu Sólheima. 🎉

Leiksýning um líf og störf Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur, leikstýrt af Eddu Björgvinsdóttur, vakti mikla athygli. Í sýningunni léku meðal annars listafólk frá Sólheimum ásamt Björgvini Frans og fleira góðu fólki. Um tónlistina sáu svo okkar ástsælu, Diddú og Maggi Kjartans.

Að lokum var boðið upp á glæsilegt afmæliskaffi í Vigdísarhúsi. Þar flutti Kristín Björk Albertsdóttir, framkvæmdastjóri Sólheima ávarp og Frú Halla tók við fallegri gjöf frá Sólheimum. Veitingarnar voru ekki af verri endanum – meðal annars var borin fram fjögurra metra terta og kaffiveitingar úr smiðju Ragnheiðar Eggertsdóttur.

 

Mynd 1: Svipmyndir frá 95 ára afmæli Sólheima.

Heimsókn sendiherra Kína – He Rulong

Þann 16. júlí sl. fengum við svo heimsókn frá háttvitum sendiherra Kína, Herra He Rulong, og fylgdarliði hans.

Við áttum einstaklega viðburðaríkan dag þar sem farið var vítt og breitt um sveitarfélagið. Dagskráin hófst með heimsókn á orkusýningu Landsvirkjunar í Ljósafossstöð og að því loknu fengum við leiðsögn um Írafossvirkjun.

Mynd 2: Svipmyndir frá heimsókn Kínverska sendiherrans ásamt fylgdarliði.

Mynd 3: Sendiherra Kína ásamt fylgdarliði og gestgjöfum.

Í hádeginu snæddum við frábæran hádegisverð í Grímsborgum, þar sem Helga Guðný bauð hópinn velkominn. Því næst lá leiðin að Kerinu, þar sem Davíð frá Arctic Adventure kynnti Kerið og framtíðarsýn fyrirtækisins fyrir svæðið og náttúruna í kring.

Hópurinn stoppaði svo í stjórnsýsluhúsinu á Borg þar sem sveitarstjórinn, Fjóla Steindóra Kristinsdóttir fór yfir ýmsar gagnlegar upplýsingar um sveitarfélagið, tölfræði og helstu framtíðaráform sveitarstjórnar. Heimsóknin endaði svo á Sólheimum þar sem Sigurjón Örn Þórsson fór yfir merkilega sögu staðarins og kynnti þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram. Dagurinn tókst einstaklega vel í alla staði.

Síðast uppfært 31. júlí 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?