Fara í efni

Eigendur frístundahúsa

Grímsnes- og Grafningshreppur er sveitarfélag í miðri Árnessýslu. Það varð til 1. júní 1998 við sameiningu Grímsneshrepps og Grafningshrepps. Sveitarfélagið liggur að Bláskógabyggð, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Flóahrepp, Mosfellsbæ og Ölfusi. Mjög góð búsetuskilyrði eru í sveitarfélaginu og afar vinsæl frístundahúsasvæði með tæplega 3000 frístundahúsum, íbúar í sveitarfélaginu eru um 500. Uppbygging hefur verið kraftmikil á undanförnum árum. Framtíðarsýn sveitarfélagsins er að Grímsnes- og Grafningshreppur verði eftirsóknarvert svæði til búsetu, atvinnu, frístundaiðju og útivistar. Þar verði góð skilyrði fyrir atvinnustarfsemi og þjónustu og að fjölbreytni búsetukosta í sveit og þéttbýli verði styrkur svæðisins.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps er nú í þeirri vegferð að skrá og safna upplýsingum um formenn og stjórnir frístundahúsafélaga í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ástæðan er sú að sveitarstjórn vill koma á betra og skilvirkara upplýsingaflæði til frístundahúsaeigenda. Þetta hefur verið í vinnslu í talsverðan tíma en það sem ýtir undir það sérstaklega núna er sú aukna flokkun sem þarf að eiga sér stað í sveitarfélaginu og vill sveitarstjórn vinna það á einhvern hátt með frístundahúsaeigendum. Sveitarstjórn óskar því eftir ákveðnum upplýsingum til að hafa á skrá hjá sér og óskar jafnframt eftir því að fá upplýsingar þegar það verða stjórnarskipti.
Hér til hliðar má finna eyðublað til að fylla út upplýsingar um frístundahúsafélög.

Sveitarstjórn vill einnig beina þeim tilmælum til frístundahúsaeigenda og félaga sem hafa hlið að sínum fasteignum að kynna sér hvaða þjónustuaðilar á vegum sveitarfélagsins þurfa að hafa aðgang að þeim. Nánari upplýsingar má finna hægra megin á síðunni undir Hlið að frístundahúsum/byggðum.

Síðast uppfært 6. júlí 2022